Einkahlutafélagið KMV6 ehf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 19. febrúar síðastliðinn. Félagið er í eigu fjárfestisins Ásgeirs Kolbeinssonar og var til umfjöllunar vegna viðskipta á verðmætri lóð við Kleppsmýrarveg 6 árið 2022.
Þá seldi félagið hina eftirsóttu 2.450 fermetra lóð á tæplega 585 milljónir króna. Kaupandi var félagið Úlfarsá ehf. en eigendur þess félags voru fjárfestarnir Vignir Steinþór Halldórsson og Ævar Rafn Björnsson. Á lóðinni var heimilt að reisa að 51 íbúð og heildarbyggingarmagn upp á allt að 7.830 fermetra. Þar hefur nú risið fjölbýlishús, byggt af Öxar byggingarfélag ehf. sem er í eigu Vignis.
Viðskiptablaðið fjallaði um viðskiptin á sínum tíma en í frétt miðilsins kom fram að skömmu fyrir söluna hafði Orkuveita Reykjavíkur og fjármögnunarfyrirtækið A-Faktoring farið fram á nauðungarsölu á lóðinni vegna 114 milljón króna kröfu sem var í vanskilum.
Þá hafði lóðin verið á miklu ferðalagi milli hlutafélaga. Lóðin var fyrst í eigu Vogabyggðar ehf. en árið 2018 komst hún í eigu félagsins Hlíðarsmári Holding ehf. Það félag varð síðan gjaldþrota en lóðin fluttist í tæka tíð yfir í félagið Fiðluhús ehf. sem síðan afsalaði sér eigninni til KMV6 ehf. árið 2021.
Umrætt félag KMV6 var stofnað sama ár og hefur aldrei skilað inn ársreikningi.
Á dögunum var annað félag í eigu Ásgeir Kolbeinssonar úrskurðað gjaldþrota. Það félag hét Red Rock GP ehf. og var gjaldþrotaúrskurðurinn kveðinn upp þann 6. janúar síðastliðinn. DV hefur ekki upplýsingar um í hverju starfsemi þess félags fólst.