Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík óskar nýjum meirihluta í borginni góðs gengis en á sama tíma fer hún ófögrum orðum um málefnasamninginn sem meirihlutinn kynnti í gær. Þessi samningur sé lítið annað en „ófjármagnað, ókostnaðarmetið og ótímasett orðagjálfur“.
Hildur rekur að hugmyndir meirihlutans um húsnæðisuppbyggingu snúi eingöngu að óhagnaðardrifnu og félagslegu húsnæði, sem og hjólhýsabyggð. Engin áform sé að finna í samningnum um uppbyggingu húsnæðis fyrir meginþorra fólks. „Þau sem ekki þurfa niðurgreitt húsnæði.“
Einu mælanlegu markmiðin í þessum sáttmála sé að byggja upp 10.000 óhagnaðardrifnar íbúðir í Úlfarsárdal í samvinnu við verkalýðsfélögin. Aðspurður segir meirihlutinn þó að þessi uppbygging geti tekið allt að 40 ár.
Svo sé meirihlutinn á móti fyrirtækjareknum leikskólum en þannig sé meirihlutinn að lofa kjósendum því að biðlistar séu ekki að fara að styttast.
„Þær sýna hvorki skapandi hugsun né lausnamiðaða nálgun á viðvarandi leikskóla- og daggæsluvanda sem hefur íþyngt mörg hundruð fjölskyldum árlega um langt skeið.“
Áherslur meirihlutans í samgöngumálum séu bæði samhengislausar og ótímasettar. Því sé ljóst að áfram muni ríkja ófremdarástand í samgöngukerfi borgarinnar.
Loks lofi meirihlutinn því að fara vel með opinbert fé á sama tíma og þær driti út útgjaldatillögum á borð við 100 milljón króna selalaug í Húsdýragarðinum.
„Málefnasamningurinn gefur því miður ekki góð fyrirheit fyrir framhaldið. Borgin okkar hefði þurft kraftmikinn og framkvæmdaglaðan meirihluta – fólk sem er reiðubúið að láta hendur standa fram úr ermum – og lætur ekki kreddur þvælast fyrir skynsemi og raunhæfum lausnum.“