fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Eyjan

Lætur fyrrum valdaflokka „í flókinni tilvistarkreppu“ heyra það – „Sú umræða snerist auðvitað ekkert um tappa“

Eyjan
Laugardaginn 22. febrúar 2025 12:30

Rétt er að taka fram að myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnarandstaðan var sökuð um málþóf á fimmtudaginn eftir tæplega fimm klukkustunda þras um áfasta plasttappa. Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, segir að um rakalausan leikþátt hafi verið að ræða sem var í raun ætlað að koma í veg fyrir að frumvarp um breytingar á búvörulögum kæmist á dagskrá.

Þórður Snær rekur í aðsendri grein á Vísi að stóra plasttappamálið varði í raun innleiðingu á reglum frá Evrópska efnahagssvæðinu sem Ísland er samningsbundið til að fella inn í lög hér á landi. Tilgangur innleiðingarinnar er að íslenskt viðskiptalíf sé með sömu staðla og gilda í Evrópu, stærsta útflutningsmarkaði Íslands.

„Þetta var ekkert nýtt mál. Gert var grín að töppunum í Krakkaskaupinu 2023 og Áramótaskaupinu í fyrra. Markmið fyrirkomulagsins er að draga úr plastrusli í náttúrunni, enda plasttappar sjöunda algengasta slíka ruslið og algeng orsök þess að til dæmis fuglar kafna þegar þeir halda að tapparnir séu fæða.“

Ætti ekki að koma á óvart

Þessi innleiðing ætti ekki að koma fyrrum stjórnarliðum spánskt fyrir sjónir enda voru frumvarpsdrögin lögð fram í samráðsgátt í byrjun árs 2024 af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Eins sé viðskiptalífið löngu búið að innleiða þessa tappa í samræmi við Evrópu og neytendur orðnir vanir þessu.

Engu að síður var talað um tappa í fjóra klukkutíma og 36 mínútur á fimmtudaginn. Þar fór stjórnarandstaðan mikinn og þingmaður Sjálfstæðisflokks, Jón Pétur Zimsen, gekk meira að segja svo langt að halda því fram að áfastir tappar væru ógn við veislur, heilsu aldraðra og lífsvilja.

„Mesta athygli vakti ræða fyrrverandi skólastjórans, Jóns Péturs Zimsen úr Sjálfstæðisflokki, sem sagði áfasta tappa eyðileggja heilu veislurnar fyrir prútt klæddu fólki sem endaði, að hans sögn, útatað í alls konar drykkjum vegna þeirra. Jón Pétur sagði áfasta tappa geta valdið ofþornun hjá eldra fólki þar sem það sé síður líklegt til að nenna að drekka vegna þeirra. Hann telur að áfastir tappar geti valdið áverkum sem auki „möguleikann á því að Landspítalinn fengi þyngri umferð.“

Skólastjórinn fyrrverandi, sem nokkrum dögum áður hafði sagt í hlaðvarpi að hann ætlaði að flytja í tjald í Kópavogi ef nýr borgarstjóri yrði borgarstjóri vegna þess að hún hefði blokkað hann á Facebook, sagði áfasta tappa einfaldlega draga úr sér lífsviljann.“

Flokksbróðir Jóns, Jens Garðar Helgason, hafi svo bókstaflega tekið fram að Sjálfstæðisflokkur hafi viljandi látið frumvarpið daga upp í þingflokki sínum, frumvarp þeirra eigin ráðherra. Það væri frelsismál að koma í veg fyrir áfasta tappa.

Flókin tilvistarkreppa

Þórður rekur að þetta hafi aðeins verið fyrirsláttur. Stjórnarandstaðan, samsett að mestu af fólki í „flókinni tilvistarkreppu yfir því að vera vant að ráða en ræður engu lengur“, hafi viljað hnykkja vöðvana og koma í veg fyrir breytingar á búvörulögum, þó að slíkar breytingar séu fyrst og fremst fyrirhugaðar til að styrkja stöðu bænda og hag neytenda.

Þetta málþóf varð þó einnig til þess að ekki var hægt að taka fyrir rammaáætlun sem á að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar, mál sem meira og minna allir flokkar á Alþingi styðja.

„Ástæðan er af því bara. Af því að hópur þingmanna í minnihluta sem situr á þingi vildi sýna að það gæti komið í veg fyrir að hópur þingmanna í meirihluta, sem vill gera gagn og setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum, geti unnið vinnuna sem hann var kosinn til að sinna.

Flest venjulegt fólk sér þennan farsa fyrir það sem hann var. Ef stjórnarandstaðan vill staðfesta eigið innihaldsleysi með þessum hætti, þá verði henni af því. Ríkisstjórnin og þingmenn hennar munu hins vegar halda áfram að vinna fyrir land og þjóð að framgangi mála sem bæta líf venjulegs fólks á meðan að fólk sem er á þingi í öðrum tilgangi tekur sér far með áföstum töppum út í skurð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af