Hvernig sjáum við hlutverk okkar í því að móta tilveru okkar? Erum við áhorfendur eða þátttakendur? Ætlum við að samþykkja að lifa bara af sem þolendur eða viljum við taka þátt í að móta þá tíma sem við lifum.
Við erum alin upp við og okkur kennt að fylgja misgóðum reglum, að lúta kerfum sem þjóna okkur kannski ekki lengur sem skyldi og að samþykkja möglunarlaust að það sem er sé endanlegt og komið til að vera. Að veruleikinn sé föst stærð. En er það svo?
Það er auðvitað blekking. Öll lög, allar hefðir, allt regluverk var eitt sinn bara hugmyndir, hugmyndir einhverra einstaklinga. Og þess vegna getum við auðvitað breytt þeim á alla kanta.
Manneskjurnar skrifa söguna og ekki bara þá sem endar í kennslubókum. Allar manneskjur skrifa þá mannkynssögu sem er að verða til dag hvern og ef við áttum okkur á því þá hættum við að vera undirsátar og stígum fram sem skaparar og þeir áhrifavaldar sem við auðvitað erum ef við bara viljum.
Ef kerfin þjóna okkur ekki lengur, þá getum við neitað að samþykkja þau. Ef skórnir eru of litlir, þá þarftu stærri skó, svo einfalt er það!
Við erum fráleitt valdalaus og þurfum ekkert leyfisbréf til að knýja fram breytingar. Breytingar eiga sér stað þegar við manneskjurnar hættum að samþykkja það sem er úrelt og hættum að trúa því að hlutirnir geti ekki breyst þegar við höfum eitthvað nýtt fram að færa með hugmyndum okkar og sköpunargleði.
Því meira og háværar sem við tölum fyrir breytingum sem þjóna okkur betur og tölum minna um það sem bagalegt er því minna vægi fær það sem ekki vill breytast og missir þar með mátt sinn.
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar þannig að kannski þurfum við að vera duglegri við að sjá fyrir okkur breytingar, tala fyrir breytingum og breyta því algerlega hvernig við lítum á okkar hlutverk í stóra samhenginu.
Því meira sem við leyfum okkur að láta okkur dreyma, tala fyrir nýjungum og uppfærslum og allskyns betrumbótum, því meiri áhrif getum við á okkar samtíma.
Við skrifum söguna. Allar meiri háttar breytingar í aldanna rás, byltingar, tækninýjungar, mannréttindabarátta, menningarhvörf og framfarir allar hafa verið knúnar fram af einstaklingum sem leyfðu sér að búa eitthvað nýtt til og hafna þar með óbreyttu ástandi.
Ef við erum komin á þann stað að við trúum því að regluverkin séu óumbreytanleg og að heimurinn sé bara eins og hann er og við því sé ekkert að gera, þá höfum við gleymt því hver við erum.
Við getum öll ögrað, skapað og haft áhrif á okkar tíma. Ekkert af mannanna verkum er hafið yfir gagnrýni en með gagnrýni einni viðhöldum við bara vandanum. Þá erum við að vökva það sem við ættum heldur að svelta og kæfa.
Nú er mál að láta sér detta eitthvað betra í hug en það sem fyrir er og hrífa svo aðra með sér og hafa hátt um það.