fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Fundaóður flokkur undirbýr landsfund – áhlaup Áslaugar í Reykjavík misheppnast

Eyjan
Fimmtudaginn 20. febrúar 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að flokkadrættir í Sjálfstæðisflokknum fari vart fram hjá neinum í aðdraganda landsfundar sem haldinn verður eftir rúma viku. Töldu margir að ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að gefa ekki kost á sér í embætti formanns myndi lægja einhverjar öldur, en þeir spádómar reyndust óskhyggja.

Vísir sagði frá því í síðustu viku að hiti hefði hlaupið í félagsmenn Sjálfstæðisfélags Fossvogs og ásakaði einn þeirra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um að hafa smalað þangað tugum einstaklinga til þess að hafa áhrif á val félagsins á fulltrúum á komandi landsfund.

Viðmælandi Vísis, fyrrverandi formaður félagsins, lýsti því í fréttinni að honum hefði verið bolað út af lista yfir landsfundarfulltrúa félagsins í skiptum fyrir þá sem vitað er að munu kjósa Áslaugu á landsfundinum. Athygli vakti að einn fundarmanna var aðstoðarmanneskja Einars Þorsteinssonar, borgarstjóra Framsóknar. Ef marka má orð aðstoðarmannsins er lýðræðið of mikil veisla til að hengja sig við einn flokk. Orðið á götunni er að vinátta aðstoðarmannsins og Áslaugar Örnu kunni að vega þyngra en sjálf lýðræðisástin.

Fundurinn í Fossvogi var einn fjölmargra funda sjálfstæðisfélaga vítt og breitt um landið sem fram hafa farið í aðdraganda landsfundar.

Í Reykjavík eru félögin tuttugu og í nágrannasveitarfélögunum eru önnur tuttugu. Sjálfstæðisflokkurinn á höfuðborgarsvæðinu, sem virðist eiga í stökustu vandræðum með halda fund án þess að setja allt á hliðina, heldur því á 10 daga tímabili í aðdraganda landsfundar eina fjörutíu fundi til þess að velja fólk á enn einn fundinn, sjálfan landsfundinn. Við þetta bætast fundir sjálfstæðisfélaganna í Suður, Norðvestur og Norðausturkjördæmi.

Orðið á götunni er að margir að Sjálfstæðismenn séu komnir með nóg af öllum þessum fundarhöldum og æsingnum í kringum þau. Eina leiðin til að stilla til friðar innan flokksins á höfuðborgarsvæðinu sé að fækka þessum félögum og hafa gárungarnir sagt að aðeins séu til tvenns konar Sjálfstæðismenn í Reykjavík: Þeir sem vilja fækka fundunum um 40 og þeir sem vilja fækka fundunum um 41 og losa sig við landsfundinn í leiðinni.

En nú er 40 funda maraþoninu lokið í Reykjavík og nágrenni, öllum til mikillar hamingju – nema mögulega lýðræðiselskandi aðstoðarmanni Framsóknarborgarstjórans sem þarf að bíða í tvö ár eftir næstu fundaröð.

Orðið á götunni er að þriðji þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, Áslaug Arna, fái líkast til ekki mörg atkvæði frá fulltrúum Reykjavíkur á landsfundinum. Með góðan stuðning úr Reykjavík hefðu sigurlíkur Áslaugar orðið mjög miklar, jafnvel yfirgnæfandi.

Ekki er þó öll von úti hjá Áslaugu Örnu. Hún sækir mikinn styrk til Vestmannaeyja. Eitt sumar var hún sjómaður á skipi Ísfélagsins þar í bæ. Faðir Áslaugar, Sigurbjörn Magnússon, situr í stjórn Ísfélagsins sem er mikill máttarstólpi í samfélaginu. Áslaug var jafnframt blaðamaður á Morgunblaðinu í sumarafleysingum og á stuðning blaðsins vísan. Faðir Áslaugar er stjórnarformaður Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið.

Áslaug er einnig sögð njóta stuðnings sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, og hélt um helgina stóran fund í gamla Landsbankahúsinu sem Samherji keypti á rúmlega hálfan milljarð árið 2022.

Keppinautur Áslaugar, Guðrún Hafsteinsdóttir, annar þingmaður landbúnaðarkjördæmisins í suðri, hellti sér í slaginn fyrir tæpum hálfum mánuði. Guðrún hefur síðan þá málað sig upp sem sáttasemjarinn í flokknum og minnir á að hún komi að borðinu með reynslu úr atvinnulífinu, meðal annars af sáttamiðlun.

Orðið á götunni er að Guðrún njóti mikils stuðnings í sínu heimakjördæmi. Þannig skoruðu mörg sjálfstæðisfélög þar á hana að bjóða sig fram og hún hefur óneitanlega sterk tengsl við samfélagið þar. Guðrún rak Kjörís í Hveragerði og virðast Hafsteinsbörnin öll, þ.e. systkini Guðrúnar, njóta stuðnings víða um Suðurkjördæmi. Þannig var Aldís Hafsteinsdóttir, systir hennar, oddviti flokksins í Hveragerði og bæjarstjóri áður en hún flutti sig um set og gerðist sveitarstjóri í Hrunamannahreppi.

Orðið á götunni er að Guðrún sé jafnframt dyggilega hvött og studd um þessar mundir af hópi sem hingað til hefur stutt Guðlaug Þór Þórðarson, auk þess sem hún nýtur stuðnings bænda og fyrrum kollega sinna í Samtökum iðnaðarins þar sem hún gegndi formennsku í sex ár.

Orðið á götunni er að Guðrún hafi á tæpum hálfum mánuði farið langt fram úr væntingum í flokki sem fyrir fáum dögum taldi sigur Áslaugar svo gott sem í höfn.

Þótt línur séu teknar að skýrast nokkuð með kjörnu fulltrúana er stór hluti landsfundarfulltrúa sjálfkjörinn og orðið á götunni er að alls kostar óvíst sé hvernig þau atkvæði raðast. Ekki einu sinni lýðræðiselskandi Framsóknarmenn geti ráskast með þau. Spennan muni því ríkja á landsfundinum um aðra helgi, ekki megi gleyma því að vika er langur tími í pólitík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Nýtt lag frá KALEO
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Áslaug Arna: flokkurinn missti talsamband við fólk – gleymdi launþegum, íþróttum og atvinnulífinu

Orðið á götunni: Áslaug Arna: flokkurinn missti talsamband við fólk – gleymdi launþegum, íþróttum og atvinnulífinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Borgarstjórnarviðræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Borgarstjórnarviðræður
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af
Eyjan
Fyrir 1 viku

Emmsjé Gauti ætlar ekki í pólitík – Sér sig ekki sem sameiningartákn

Emmsjé Gauti ætlar ekki í pólitík – Sér sig ekki sem sameiningartákn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dóra Björt segist tilbúin að axla ábyrgð – „Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen“

Dóra Björt segist tilbúin að axla ábyrgð – „Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen“