fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Eyjan

Inga tók illa í fyrirspurn Hildar – Bergþór með föðurleg ráð

Eyjan
Fimmtudaginn 20. febrúar 2025 11:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra sat fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi nú í morgun. Var það í fyrsta sinn á hennar ráðherraferli. Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði Ingu um fjárframlög til flokks hennar, Flokks Fólksins, úr ríkissjóði þrátt fyrir að flokkurinn hafi ekki verið skráður sem stjórnmálaflokkur í samræmi við lög. Óhætt er að segja að Inga hafi tekið illa í fyrirspurn Hildar og sakaði hana um dylgjur og að hún viðhefði skítkast að hætti Morgunblaðsins. Vildi Hildur meina að um eðlilega fyrirspurn þingmanns til ráðherra væri að ræða og reyndi Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins að sannfæra Ingu um að hún ætti að svara spurningum þingmanna sem hún hefði ekki gert í þessu tilfelli.

Í fyrri fyrirspurn sinni spurði Hildur Ingu hvaða málefnalegu ástæður lægju að baki því að Flokkur fólksins hélt ekki landsfund á árunum 2022-2024 og einnig hvort að fyrir lægju hjá hinu opinbera upplýsingar um flokkseiningar flokksins og hlutverk þeirra.

Kaldhæðni

Í svari sínu þakkaði Inga Hildi í kaldhæðnistón fyrir að sýna Flokki fólksins áhuga. Sagði hún að flokkurinn tæki vel á móti nýjum meðlimum sem teldu sig geta veitt aðstoð til að reka flokkinn. Vildi Inga meina að flokkurinn hefði uppfyllt öll megin skilyrði þess að hljóta fjárstyrk úr ríkissjóði og vísaði í þingstyrk flokksins. Flokkurinn hefði enn fremur skilað löglegum ársreikningum til Ríkisendurskoðunar og öll fjármál flokksins væru uppi á borðum. Inga minnti á að hennar flokkur hefði ekki verið sá eini sem þegið hefði styrki frá ríkinu án þess að vera skráður sem stjórnmálaflokkur eins og lög hafa kveðið á um síðan 2021. Ennfremur minnti hún að fjármálaráðuneytið hefði ekki gert neinar athugasemdir þegar féð var greitt til flokksins og það hafi raunar verið starfsmenn flokksins sem gerðu viðvart um hina röngu skráningu.

Sagði Inga að ekki væri hægt að breyta skráningu flokksins án þess að það yrði samþykkt á landsfundi og hvenær hann væri haldinn kæmi öðrum flokkum ekki við:

„Við í Flokki fólksins höldum landsfund nákvæmlega þegar okkur sýnist.“

Bætti Inga síðan við að landsfundur yrði haldinn næstkomandi laugardag.

Hildi fannst þetta svar Ingu ansi rýrt og beinlínis rangt. Þá lægi beinast við að spyrja Ingu af hverju hún sætti sig við að flokkur hennar fengi ekki greitt fyrir árið í ár og spurði jafn framt hvort hún hafi komið því á framfæri við Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra að Flokkur fólksins myndi ekki endurgreiða styrkina sem hann hefði fengið greidda í trássi við reglur.

Hrútspungafýlan

Við þessa síðari spurningu Hildar fauk verulega í Ingu sem kaus að svara henni ekki beint heldur sækja að þingmanninum:

„Ég þakka hjartanlega háttvirtum þingmanni fyrir síðari fyrirspurn sem lyktar óneitanlega af hrútspungafýlunni sem flæðir úr Hádegismóum. Þær eru alveg með ólíkindum dylgjurnar sem hér eru settar fram. Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að sitja undir svona dylgjum sem eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Meginandi laganna felur það í sér að það þurfi að uppfylla það að vera stjórnmálaflokkur, það þurfi að uppfylla það að vera með kjörna fulltrúa. Það þarf að uppfylla það að vera sem sagt, eins og við erum, með fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Ég veit ekki eiginlega hvað háttvirtum þingmanni gengur til. En það væri kannski betra að það kæmi fram síðar. Hún getur fengið kannski kunningja sinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, til að skrifa pistil um það.“

Kallaði Hildur þá fram í og spurði hvort Inga gæti ekki bara svarað fyrirspurninni.

Ekki dylgjur

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins sté næst í ræðustól og virtist áhyggjufullur yfir þessum orðaskiptum Ingu og Hildar og vildi beina föðurlegum ráðum til ráðherrans:

„Þetta voru með athyglisverðustu svörum sem ég hef heyrt ráðherra veita hér eða ekki veita í þessum fyrirspurnatímum síðan ég kom inn á þing. Ég vil bara fyrst taka nokkrar sekúndur af tíma mínum til að segja við hæstvirtan félagsmálaráðherra: Þetta eru ekki dylgjur sem eru bornar hér fram. Þetta eru bara spurningar. Þessi liður, tvisvar sinnum hálftími í viku, er til þess ætlaður að stjórnarandstaða geti borið spurningar fyrir ráðherra og hæstvirtur ráðherra verður að venjast því og fyrsti tíminn er bestur til þess.“

Spurði Bergþór Ingu í kjölfarið um muninn á hugsanlegum endurkröfum ríkisins á hendur Flokki fólksins og því að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eigi enga undankomuleið frá endurgreiðslum vegna ofgreidds lífeyris frá ríkinu.

Inga tók ekki undir að þetta væri sambærilegt:

„Þetta er stórkostlega furðulegur samanburður svo ekki sé meira sagt.“

Bergþóri leist ekki á svarið frekar en fyrri svör Ingu í fyrirspurnatímanum:

„Hún byrjar heldur brösuglega þessi fyrsta innkoma hæstvirts ráðherra í fyrirspurnatíma í þinginu. Enn telst mér til að ekki hafi neinni spurningu sem til ráðherrans hefur verið beint í raun verið svarað.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Nýtt lag frá KALEO
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Áslaug Arna: flokkurinn missti talsamband við fólk – gleymdi launþegum, íþróttum og atvinnulífinu

Orðið á götunni: Áslaug Arna: flokkurinn missti talsamband við fólk – gleymdi launþegum, íþróttum og atvinnulífinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Borgarstjórnarviðræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Borgarstjórnarviðræður
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af
Eyjan
Fyrir 1 viku

Emmsjé Gauti ætlar ekki í pólitík – Sér sig ekki sem sameiningartákn

Emmsjé Gauti ætlar ekki í pólitík – Sér sig ekki sem sameiningartákn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dóra Björt segist tilbúin að axla ábyrgð – „Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen“

Dóra Björt segist tilbúin að axla ábyrgð – „Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen“