Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis mun láta af starfi sínu í lok júli og taka við starfi forstjóra Landsnets 1. ágúst.
„Það er bæði spennandi áskorun og mikill heiður að fá tækifæri til að leiða Landsnet, sem er framsýnt og traust fyrirtæki, á þessum umbreytingatímum í orkumálum. Það skiptir sköpum að fyrirtækinu gangi vel í að byggja upp flutningskerfið til að mæta bæði áskorunum samtímans og framtíðarinnar. Fyrir mig eru það mikil forréttindi að fá að leiða þetta öfluga teymi hjá Landsneti og leggja með þeim drög að framtíðinni og frekari árangri sem stuðlar að bættum lífsgæðum þjóðarinnar með öruggri og aðgengilegri orku,“
segir Ragna, sem hefur gegnt starfi skrifstofustjóra Alþingis frá 1. september 2019. Ragna sem var valin úr hópi 52 umsækjenda og hefur viðtæka þekkingu á orkumálum og var meðal annars aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar í átta ár.
Ragna er lögfræðingur að mennt, með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands, auk þess að vera með LL.M. gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi. Ragna á að baki fjölbreytta starfsreynslu. Hún hefur starfað á skrifstofu Alþingis, skrifstofu Norðurlandaráðs og í ráðuneytum. Þá hefur hún gegnt embætti dóms- og kirkjumálaráðherra og síðar embætti dómsmála- og mannréttindaráðherra og var aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar í átta ár. Samhliða þessum störfum hefur Ragna gegnt margs konar ábyrgðar- og trúnaðarstörfum. Undanfarin rúm fimm ár hefur Ragna verið skrifstofustjóri Alþingis og leitt breytingarvegferð á skipulagi og rekstri skrifstofu Alþingis.
Ragna tekur við starfi forstjóra Landsnets 1. ágúst nk. þegar Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri lætur af störfum.
„Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur að fá Rögnu til að leiða Landsnet inn í framtíðina með sterku teymi starfsfólks fyrirtækisins. Hún hefur sýnt framúrskarandi leiðtogahæfni í störfum sínum og býr yfir margþættri stjórnunarreynslu. Auk þess hefur hún verið farsæll stjórnandi með yfirburðaþekkingu á íslensku samfélagi og orkumálum. Við erum afar ánægð að fá jafn kraftmikla konu og hana til að stýra þessu mikilvæga fyrirtæki og bjóðum hana velkomna til Landsnets,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.