fbpx
Miðvikudagur 19.febrúar 2025
Eyjan

Sigmundur Ernir: Krónan kostar íslensk heimili 250 þúsund krónur á mánuði – heildarkostnaður 500 milljarðar á ári

Eyjan
Sunnudaginn 16. febrúar 2025 13:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska krónan kostar venjulegt íslenskt heimili 200 þúsund krónur í hverjum einasta mánuði. Vaxtamunurinn milli Íslands og evrusvæðisins er um 4,5 prósent, sé horft til meðaltals síðustu 20 ára, og íslenskt heimili með 50 milljóna húsnæðislán borgar því um 200 þúsund krónum meira á mánuði en heimili á evrusvæðinu. Þetta kemur fram í pistli Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingar, á Eyjunni.

Í samtali við Eyjuna segir Sigmundur Ernir að raunar sé þessi 200 þúsund króna tala mjög varfærin vegna þess að vaxtamunurinn milli Íslands og evrusvæðisins sé munurinn á vöxtunum á langtíma ríkisskuldabréfum. Vaxtaálag bankanna, ofan á vexti ríkisskuldabréfa, sé síðan mun hærra hér á landi en á evrusvæðinu og nær væri að tala um 5,5 prósenta vaxtamun á húsnæðislánum milli landa. Það hafi í för með sér að íslenska krónan kosti þetta íslenska meðalheimili í raun 250 þúsund krónur í hverjum mánuði, eða þrjár milljónir á hverju ári.

„Og hér erum við bara að tala um þennan beina kostnaðarauka vegna húsnæðislána,“ segir Sigmundur Ernir. „Þá á eftir að tína til allan annan kostnað á borð við gjaldeyrisskiptakostnað hjá inn-og útflutningsfyrirtækjum, kostnaðinn sem neytendur hér á landi bera vegna þess að krónan hamlar samkeppni á fjármála- og tryggingamarkaði og margt fleira. Krónan veldur því að íslenskir bankar og tryggingafélög sitja ein að íslenska markaðnum og fá enga erlenda samkeppni. Fyrir vikið eru tryggingar og bankaþjónusta miklu dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum.“

Í pistli Sigmundar Ernis kemur fram að vaxtamunurinn vegna krónunnar kosti íslenska ríkið minnst 80 milljarða á hverju ári. Þessi fjárhæð jafngildir árlegum launakostnaði Landspítalans, þar sem vinna 5000 manns.

Hann bendir á að krónuhagkerfi Íslands er á stærð við Bergen-svæðið í Noregi og engum útlendingi dytti í hug að reka hagkerfi á svo litlum, áhættusömum og dýrum gjaldmiðli. „Þetta er raunar staðfest með því að hvergi er hægt að skipta krónum á erlendum fjármálamörkuðum, sem í raun er árétting á því áliti erlendra ríkja að gjaldmiðilinn er hættulegur og honum er því hafnað, eins og hverju öðru rusli.“

Sigmundur Ernir vitnar í Jónas heitinn Haralz, sem var einn virtasti hagfræðingur þjóðarinnar á síðustu öld og fram á þessa. Jónas var bankastjóri Landsbankans frá 1969 til 1988. Vorið 2009 skrifaði hann: „Fyrir okkur kemur evran ein til greina. Lönd í Vesturheimi geta myndað tengsl við Bandaríkjadal. Við erum í Evrópu og okkar mynt hlýtur að verða hluti af myntkerfi Evrópu.“

Sigmundur Ernir segir að þegar horft sé til kostnaðarins sem heimilin, atvinnulífið, ríkið, stofnanir og sveitarfélög bera af krónunni sé samtalan 500 milljarðar á hverju ári. Til samanburðar má nefna að heildarútgjöld ríkissjóðs, samkvæmt fjárlögum 2025, eru um 1.500 milljarðar. Krónan kostar okkur því um þriðjung af ríkisútgjöldum á hverju ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið

Sjálfstæðisflokkurinn missir herbergið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af