Árið 1252 færði Hákon gamli Noregskonungur Hinriki III Englandskonungi ísbjörn að gjöf. Bjarndýrinu var fundinn staður í dýrasafni (e. Royal Menagerie) Lundúnaturns og löng keðja við hann fest svo hann fengi svamlað um í Tempselfi. Þar gat hann veitt sér lax til matar og verið borgarbúum til skemmtunar. Í fornsögum okkar er þess allvíða getið að konungum séu færðir lifandi ísbirnir eins og ég fjallaði um í pistli fyrir skemmstu og í Grágás er að finna ákvæði um alibirni sem menn hafa þá haft í haldi. Í Norðursetu á Grænlandi, utarlega á skaga sem nú er nefndur Nuussuaq, er mannvirki sem norrænir menn hlóðu og sögur inúíta herma að hafi verið bjarnagildra.
Ég var að ræða þetta við nemendur mína á dögunum og menn fylltust undrun — við blasir að forfeður okkar hafa verið í meira lagi óvenjuleg hreystimenni. Ekki einasta hafa þeir fangað lifandi hvítabirni, einhver grimmustu rándýr jarðar, heldur haft þá í haldi og flutt með sér á skipum yfir opið úthaf. Ef til vill þarf þá ekki að undra að þessir harðfengu menn skyldu á víkingaöld setja allt á annan endann í álfunni með herleiðöngrum sínum og segir sína sögu að lífvörður keisarans í Miklagarði var skipaður norrænum mönnum, Væringjum sem svo voru kallaðir. Það þurfti heldur engin venjuleg hreystimenni til ráðast í það þrekvirki að hefja skipulegt landnám á þeirri eyju sem við enn byggjum.
Fornsögurnar eru uppfullar af frásögnum um íþróttaleiki. Í Morkinskinnu er meðal annars komist svo að orði að títt hafi verið um leika er víkingar sátu um borgir. Sagnir af glímum, sundi og knattleikjum má finna í nálega hverri Íslendingasögu. Menn vissu sem var að þjálfa þyrfti líkamshreysti svo hægt yrði að takast á við sérhverja þraut.
Svo ég vendi kvæði mínu í kross þá voru menntamálin í brennidepli í aðdraganda nýliðinna alþingiskosninga og engin þörf á að fjölyrða hér um afleitan árangur íslenskra nemenda. Meðal þeirra úrbóta sem brýnt er að ráðast í er upptaka samræmdra prófa en í vikunni sem leið kom fram að nýr menntamálaráðherra hefur ekki í hyggju að aðhafast neitt í þeim málum, ekki frekar en forveri hans. Það er nánast einsdæmi meðal vestrænna þjóða að ekki sé viðhaft samræmt námsmat (og svo virðist sem það sé ekki forgangsmál stjórnvalda að æskulýð þessa lands séu búin sömu tækifæri og jafnöldrum í nálægum ríkjum). Samræmd próf og áður landspróf hafa einkum beinst að færni í bóklegum fögum, en þegar fyrir liggur mikilvægi heilsuræktar og líkamshreysti má velta því fyrir sér hvers vegna ekki séu viðhöfð samræmd próf á landsvísu í íþróttum — að stefnt sé að tilteknum markmiðum í hreyfiþroska og líkamlegri getu og árangurinn mældur með prófum. Það að stefna að settu marki eykur með mönnum áræði og dug og lokaprófið — sjálfur kappleikurinn — er oftast forsenda þess að tilskilinn árangur náist, það þekki ég hvort tveggja úr kennslu og íþróttum.
Tilvera barna og unglinga mótast æ meira af kyrrsetu og engin leið er að takast á við þann vanda af festu nema með aukinni skipulagðri hreyfingu, hvort tveggja við iðkun tiltekinna íþróttagreina og í íþróttatímum í skólum — og hið síðarnefnda hefur líka gildi sem tæki til jöfnunar þar sem efni foreldra geta haft áhrif á þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Áríðandi er að fjölga íþróttatímum, en við styttingu framhaldsskólans var þeim víðast hvar fækkað úr tveimur í viku í einn. Sú ákvörðun er illskiljanleg enda ber brýna nauðsyn til að stórauka skipulagða hreyfingu. Íþróttatímar eru líka mikilvægt uppbrot í skóladegi nemenda sem að öðru leyti einkennist mest af kyrrsetu.
Hér eru gríðarlegir samfélagshagsmunir í húfi, enda offita og geðrænir kvillar alvarleg og sívaxandi þjóðfélagsmein, sem raunverulega er hægt að fyrirbyggja með íþróttaiðkun — en þá skiptir máli að keppt sé að settu marki og fyrir liggi skilgreind viðmið um lágmarksárangur. Viðfangsefnið sé ekki einfaldlega látið reka á reiðanum, eins og svo margt í okkar óagaða þjóðfélagi.
Haukur Sveinsson, sem kenndi mér íþróttir í Menntaskólanum í Reykjavík, hélt oft yfir okkur skólasveinum innblásnar ræður um mikilvægi hreysti og góðs líkamslegs atgervis — þar lægi ein meginforsenda árangurs á öðrum sviðum — þjóðfélagið þarfnaðist manna sem byggju yfir styrk og fimi. Vísdómsorðin um „heilbrigða sál í hraustum líkama“ hafa verið kunn á öllum tímum en oft skort á jafnvægi hins andlega og líkamlega þroska einstaklingsins. Ég held að hér megi margt læra af hugprýði norrænna kappa eins og henni er lýst í fornsögum okkar. Hetjan gengur til orrustu með þeim einbeitta ásetningi að öðlast annað af tvennu, sigur eða komast í lið Einherja í Valhöll „og þótti hvortveggi kostur góður“ eins og segir á einum stað.
Ég var á dögunum að blaða í hinu sígilda verki dr. Björns Bjarnasonar um íþróttir fornmanna sem út kom 1908 en hann segir þar frá því að illa hafi þótt sæma góðum dreng „að hnípa höfði í feld sinn eða sýna á sér önnur hryggðarmerki. Maðurinn á að drottna yfir harminum, en harmurinn ekki yfir honum“. Hryggðin er nefnilega í ætt við hugleysið og lífsgleðin er þess vegna eitt aðaleinkenni hetjunnar. Þetta er ólíkt skaplegra viðhorf en sá niðurdrepandi vælutónn sem einkennir um of þjóðfélagsumræðu samtímans, þar sem hæst ber „aumingja vikunnar“ sem lýsir fyrir okkur raunum sínum og kaunum.
Franski baróninn Pierre de Coubertin, upphafsmaður nútímaólympíuleika, sagði sigurinn ekki skipta mestu í lífinu heldur baráttuna. Meira væri um vert að hafa keppt vel og drengilega en það að hafa borið hærri hlut („… l‘essentiel ce n‘est pas d‘avoir vaincu mais de s‘être bien battu). Þarna birtist okkur ólympíuhugsjónin sem er mjög í anda hinnar fornnorrænu hetjuhugsjónar, en sigurinn er allt um það takmarkið sem menn skyldu að sönnu keppa að.
Mér var hugsað til þess þar sem ég sat í stúkunni á þjóðarleikvangi Frakka síðastliðið sumar og fylgdist með frjálsíþróttakeppninni hversu miður það væri að engir Íslendingar væru meðal keppenda á leikvanginum. Þarna voru þó ófáir norskir frændur sem hægt var að styðja en í þessu sem öðru eigum við vitaskuld að keppa að því að ná árangri langt umfram hlutfallstölu. Það gildir líka um líkamshreysti almennt og yrði mjög til bóta ef stóraukin áhersla yrði lögð á íþróttir í skólum landsins — samhliða því sem sett yrðu háleit viðmið um líkamlega hæfni — og haldin próf á landsvísu sem öllum yrði gert að undirgangast. Þar hlyti margur verðskulduð sigurlaun.