fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvert er Thomas minn Möller nú að fara? – tímasetningar sem stilla þarf af

Eyjan
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025 10:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Thomas minn Möller er góðkunningi og samherji, vopnabróðir, mikill og góður Evrópusinni, vel að sér um ESB-mál, kosti aðildar og galla, og, í framhaldi af því, baráttumaður fyrir ESB-aðild og evru.

Hann skrifaði fína grein á Eyjunni/DV í gær, sem þó verður að stilla lítillega af með tilliti til tímasetningar.

Thomas listar upp fjölmörg hagsmuna- og framfaramál, sem á dagskrá munu verða á næstu árum, reyndar ekki bara vegna mögulegrar ESB-aðildar, heldur er þar líka margt sem almenn þörf er á, án tillits til ESB. Almenn þörf, hagsmuna- og framfaramál. Gott að minna á og lista þau upp.

Ágætur Thomas ruglar þó – hvað varðar tímasetningu og framkvæmd – eiginlega tveimur ólíkum skrefum saman í sínum málflutningi:

  1. Því, hvort landsmenn vilji halda áfram viðræðum við ESB um mögulega aðild að ríkjasambandinu. Þjóðaratkvæði um það. Þetta er eingöngu spurning um það hvort menn vilji láta reyna á framhaldssamninga um það hver aðildarkjör og -skilmála Ísland gæti fengið við fulla aðild eða ekki. Ekkert annað. Reyndar kom fram í nýlegri skoðanakönnun Prósents, að 68% þeirra, sem afstöðu tóku, eru hlynntir upptöku framhaldsviðræðna en á þetta þarf auðvitað að reyna í formlegu þjóðaratkvæði.
  2. Samningaviðræðunum sjálfum og öllum þeim atriðum sem þar verða í deiglu og semja þarf um. Þessi þáttur kemur auðvitað ekki til kastanna, hvorki þjóðarinnar né annarra, fyrr en fyrir liggur hvort þjóðin vilji yfir höfuð semja áfram um mögulega aðild! Hví ætti að undirbúa aðild sem enginn veit hvort þjóðin hefur áhuga á að samið verði um? Þarna hefur góður Thomas því haft endaskipti á hlutunum. Öfug tímaröð.

2010 hóf ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samningaviðræður við ESB um fulla aðild. Ekki tókst að ljúka þeim samningum í stjórnartíð Jóhönnu en vorið 2013 tók ríkisstjórn Sigmundar Davíðs við, sem var fráhverf ESB-aðild. Gunnar Bragi, utanríkisráðherra þeirrar stjórnar, tilkynnti ESB svo í marz 2015 að Ísland hygðist ekki framhalda þeim samningaviðræðum.

Þar lenti ESB í því að ákveðin íslenzk ríkisstjórn sóttist eftir aðild og hóf samningaferli þar um en svo tók önnur ríkisstjórn við sem hafði öndverða stefnu og ógilti allt sem á undan var gengið. Gerði ekkert með það. 2ja-3ja ára samningaumleitanir voru þar með að litlu orðnar, nánast unnar fyrir gíg.

Sá tímarammi, sem nú blasir við, er þessi:

  • Ef þessi ríkistjórn situr allt kjörtímabilið, eins og við vonum, situr hún væntanlega fram eftir/út árið 2028. Reikna má með að samningaumleitanir og lok þeirra taki 2-3 ár. Ef kosið verður um það fyrst 2027 hvort menn vilji framhaldsviðræður, eða ekki, og þó að þjóðin segði „Já“, þá væri ekki hægt að hefja samninga fyrr en seint á árinu 2027 eða í byrjun árs 2028. Ljóst væri þá að útilokað væri að ljúka samningunum á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar og engin veit nú hvaða stjórn tekur við eftir það. Með þessum hætti væri verið að fara í mál sem enginn vissi hvernig endaði eða sæi fyrir endann á. Þar fyrir utan er undirrituðum það til efs að forustusveit ESB, forsætisráðherrar ríkjanna 27, þeir þurfa allir að samþykkja endurupptöku samninga, hefðu nokkurn áhuga á að hefja framhaldssamninga við Íslendinga á grundvelli þessarar óvissu. Ætli þeir myndu þá ekki segja: Við skulum þá bíða eftir nýrri ríkisstjórn.
  • Ef gengið er í þjóðaratkvæði um framhaldsviðræður nú í sumar/haust og þjóðin staðfestir vilja sinn til þeirra mætti hefja framhaldsviðræður í lok ársins eða byrjun 2026, og ljúka þeim 2027. Þá, um það haust, þegar endanleg samningsdrög lægu fyrir, landsmenn sæju svart á hvítu hverjir skilmálar og kjör stæðu til boða við fulla inngöngu, eða í byrjun 2028 gæti svo þjóðaratkvæði farið fram um fulla ESB-aðild eða ekki. Aðeins með þessum hætti væri hægt að fullklára þetta verkefni, ljúka þessu ferli, innan væntanlegs valdatíma þessarar ríkisstjórnar.

Þetta er í augum undirritaðs hinn eini raunsæi tímarammi og möguleiki í þessu stóra ESB-máli sem á borðinu er.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór: Það á að vera hægt að ræða öll mál í Sjálfstæðisflokknum – líka aðild að ESB

Guðlaugur Þór: Það á að vera hægt að ræða öll mál í Sjálfstæðisflokknum – líka aðild að ESB
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Leyfilegt að mismuna börnum – mótmæli á Austurvelli í kvöld

Orðið á götunni: Leyfilegt að mismuna börnum – mótmæli á Austurvelli í kvöld
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hildur segir útspil Flokks fólksins hafa komið á óvart – Segir dyrnar enn opnar og útilokar engan

Hildur segir útspil Flokks fólksins hafa komið á óvart – Segir dyrnar enn opnar og útilokar engan
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn veiddur í gildru – situr uppi með Svarta-Pétur

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn veiddur í gildru – situr uppi með Svarta-Pétur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Heidelberg beinir sjónum sínum að Húsavík eftir höfnunina í Þorlákshöfn

Heidelberg beinir sjónum sínum að Húsavík eftir höfnunina í Þorlákshöfn