fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Innviðir eru súrefnisæðarnar

Eyjan
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt af því dýrmætasta sem ég fékk í veganesti við það að alast upp í litlu sjávarþorpi vestur á fjörðum var að ég áttaði mig snemma á samhengi hlutanna. Samspili náttúru, auðlinda og verðmætasköpunar. Firðir landsins geyma aldalanga sögu verðmætasköpunar, þar liggja undirstöður samfélagsins eins og við þekkjum það í dag, og við tökum stundum sem gefnu. Verðmætasköpun er lykilforsenda efnahagslegs vaxtar og velsældar í hverju samfélagi. Eðli málsins samkvæmt fylgir því landfræðileg einangrun að búa á eyju. Forfeður okkar og formæður sýndu mikla færni í að nýta auðlindir landsins og ekki síst hugvit til að skapa verðmæti. Oft í alveg hörmulegri vosbúð og hörku. Þrátt fyrir að stundum gefi á bátinn hafa Íslendingar haldið ótrauðir áfram og þannig tryggt undirstöður sterks og öflugs samfélag. Þetta er saga þjóðarinnar. Saga sem okkur ber skylda til að þekkja og virða.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort kynslóðin mín og kynslóðir sem á eftir okkur koma skilji og skynji raunverulega þetta samhengi. Skilji hvers virði þorskurinn er okkur. Hvers virði vatnsaflið, þjóðvegirnir og jarðhitinn eru og hvaða verðmæti spretta upp úr sjálfbærri orkunýtingu og tækifærum henni tengdri. Skilji mikilvægi þess jafnvægis sem við reiðum okkur á. Við Íslendingar höfum lært á jafnvægið á milli náttúruverndar og auðlindanýtingar. Við höfum lært að nýta vatnsaflið, jarðhitann, fiskinn í sjónum og allar þær allsnægtir auðlinda sem íslensk náttúra færir okkur, stundum með miklum tilkostnaði.

Ekki öll egg í sömu körfu

Með tækniframförum og nýtingarstefnu höfum við þróast frá hefðbundnum veiðum yfir í hátæknivædda matvælaframleiðslu. Við fullnýtum hvern krók og kima afurðarinnar. Við erum einnig að mestu sjálfbær í okkar orkuöflun sem hefur laðað að fjárfestingar í mikilvægri starfsemi sem skilar miklum verðmætum í þjóðarbúið.

Það er mikilvægt að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni. Okkar hefðbundnu útflutningsgreinar eru, og verða, áfram mikilvægasta stoð verðmætasköpunar landsins. En nýsköpun og hugverkaiðnaður hefur sem betur fer vaxið hratt undanfarin ár. Við eigum hér ótrúleg fyrirtæki á sviði hugbúnaðar, líftækni og skapandi greinum sem hafa haslað sér völl og styrkja stoðir íslensks efnahagslífs enn frekar. Ferðaþjónustan hefur síðan á undraverðum tíma orðið einn stærsti efnahagslegi vaxtarbroddur Íslands.

Innviðaskuld aukist um 260 milljarða

Ég sótti fund Samtaka Iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga í Hörpu í gær. Umræðuefnið var nýútkomin skýrsla um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi. Þar blasir við nokkuð dökk mynd af stöðu innviða á Íslandi, sérstaklega þegar kemur að þjóðvegum, raforkuframleiðslu og höfnum landsins. Skort hefur á fjárfestingu á síðustu árum og við ekki náð að halda í við vöxt hagkerfisins. Innviðir okkar eru súrefnisæðarnar þegar kemur að aukinni verðmætasköpun. Því miður hefur tíminn ekki verið nýttur nægilega vel. Meðal annars vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn var innbyrðis ósammála um nálgunina. Og algjört framkvæmdastopp blasir við sem þeirra arfleið. Innviðaskuldin var um 420 milljarðar árið 2021 en er nú metin á 680 milljarða. Innviðaskuldin hefur því aukist til muna bara á síðasta kjörtímabili. Ekki skorti á fögur fyrirheit en minna var um efndir.

Íbúar á köldum svæðum fengu að finna fyrir því um áramótin þegar þau tóku á sig gríðarlega hækkun á rafmagnsreikningum sínum. Vestfirðingar búa við algjörlega óviðunandi aðstæður þegar það kemur að orkuöryggi. Vegasamgöngur á Vesturlandi eru til háborinnar skammar, á Vestfjörðum hefur staðan skánað til muna en enn er langt í land. Þörf er á uppbyggingu jarðganga um allt land, sérstaklega á Vest- og Austfjörðum. Þetta er gífurlegt öryggismál og algjör forsenda samkeppnishæfni og bættra lífskjara. Það skiptir miklu máli að höggva á þessa hnúta og tryggja að innviðir landsins fái súrefni sem skyldi. Ef ekki verður brugðist við þessu ástandi sitjum við uppi með þá staðreynd að þjóðvegir landsins verða hreinlega metnir verulega óöruggir.

Góðu fréttirnar eru þær að ný ríkisstjórn hefur sett verðmætasköpun og uppbyggingu nauðsynlegra innviða á oddinn. Hún ætlar að vera verkstjórn sem liðkar fyrir og eykur á súrefni atvinnuveganna. Skapar tækifæri og frelsi til athafna. Með einföldun regluverks, með skýrri stefnu þar sem að fyrirsjáanleiki verður leiðarstefið. Þannig verða allir okkar vegir færir. Nú þarf að fínstilla nokkur atriði, endurræsa kerfin og halda af stað. Í því felst hið raunverulega frelsi til athafna og búsetu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa sjálfstæðismanna – ráðast á Flokk fólksins

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa sjálfstæðismanna – ráðast á Flokk fólksins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps

Sigmundur Ernir skrifar: Nú verður skákað í skjóli Trumps
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
EyjanFastir pennar
12.01.2025

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
11.01.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
04.01.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
03.01.2025

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda