Skátar starfa undir kjörorðinu „Ávallt viðbúin“.
Þetta slagorð á oft vel við. Til dæmis þegar óveður skellur á, þegar vetur gengur í garð eða þegar lagt er af stað í langt ferðalag.
Fram undan er eitt mikilvægasta ferðalag okkar Íslendinga. Árið 2027 göngum við til kosninga um framhald viðræðna við Evrópusambandið (ESB). Í kjölfarið fara fram samningaviðræður um aðild Íslands að ESB.
Aðeins eru um 26 mánuðir eru þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. Full aðild og upptaka evru gæti orðið staðreynd innan 6 ára.
Áður en samningaviðræður hefjast þurfa allir hagaðilar að undirbúa sig fyrir þessar miklu breytingar.
Skoðum þennan undirbúning nánar.
Bændur þurfa að undirbúa sig með því að semja um langan aðlögunartíma vegna tollfrelsis innfluttra landbúnaðarvara. Í staðinn munu bændur njóta ríflegra styrkja frá ESB. Starfsskilyrði, samkeppnishæfni og verðmætasköpun landbúnaðar mun aukast við aðildina.
Innflutningsfyrirtækin munu geta lækkað vöruverð um allt að 43% þar sem verndartollar falla niður. Með upptöku evru geta fyrirtækin greitt erlendum birgjum beint án milligöngu banka og án skiptikostnaðar gjaldeyris.
Frumkvöðlar þurfa að undirbúa umsóknir um styrki til nýsköpunar, rannsókna og þróunarverkefna. Með inngöngu og upptöku evru verður mun auðveldara að fá fjárfesta til landsins.
Vegagerðin þarf að undirbúa framkvæmdir á vegakerfinu svo það uppfylli gæðakröfur ESB. Einbreiðar brýr og mjóir vegir verða lagðir af til að auka umferðaröryggi og mun ESB kosta þær framkvæmdir eins og hefur verið gert hjá öðrum ríkjum innan sambandsins.
Launþegasamtökin þurfa að breyta sínum samningsmarkmiðum þar sem fastgengi evrunnar þýðir að gengisfellingar verða ekki lengur mögulegar ef laun hækka meira en framleiðni.
Launþegar munu fá laun sín útborguð í alþjóðlegum gjaldmiðli sem er hægt að nota eða skipta í öllum heiminum. Þeir munu njóta lækkunar vaxta, matvöruverðs og minnkandi verðbólgu sem eykur kaupmátt mun meira en hefðbundnar launahækkanir.
Seðlabankinn þarf að undirbúa sig vel þar sem hann verður útibú frá Seðlabanka Evrópu sem mun taka við sem lánveitandi til þrautavara og annast alla umgjörð um hinn nýja gjaldmiðil okkar.
Sveitarfélögin þurfa að undirbúa umbætur í innviðum og fráveitukerfum sem ESB fjármagnar að miklu leyti. ESB veitir ríflega styrki þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Auk þess geta sveitarfélögin framvegis fjármagnað sig með lánum í evrum á mun lægri vöxtum en áður.
Sjávarútvegurinn og fiskeldið þurfa að búa sig undir tollfrelsi á sínum afurðum á mörkuðum Evrópu. Stórútgerðirnar þurfa lítið að undirbúa sig enda eru þær vanar því að nota erlendan gjaldmiðil og hafa flestar þegar flúið krónuna.
Bankarnir og tryggingarfélögin þurfa að búa sig undir stóraukna samkeppni en upptaka evru mun þýða að erlend fyrirtæki munu koma til landsins sem leiðir til betri kjara fyrir almennings á lánum og tryggingum. Bankar geta fengið hagstæðari erlenda fjármögnun eftir upptöku evru.
Hagkerfið allt þarf að laga sig að mun lægri vöxtum en það er vant að búa við. Vaxtastigið mun lækka varanlega um 4-5% sem hefur jákvæð áhrif á alla atvinnuvegi, heimilin, ríkissjóð og sveitarfélög. Fjármálageirinn, lífeyrissjóðir og fasteignafélög þurfa að laga sig að þeirri staðreynd að verðtrygging mun leggjast af enda óþörf í evru umhverfi.
Samkeppnishæfni atvinnulífs mun aukast verulega með betra rekstrarumhverfi, lægri vöxtum og margvíslegum kostnaði krónunnar sem mun hverfa með evru.
Rannsóknir á áhrifum aðildar að evrusvæðinu á utanríkisviðskipti benda til þess að umfang utanríkisviðskipta gæti aukist um 8-23% sem um leið er undirstaða aukinnar framleiðni, verðmætasköpunar og aukins kaupmáttar í kjarasamningum.
Menntasamfélagið þarf að undirbúa stóraukið samstarf við evrópskar systurstofnanir. Það samstarf þarf að undirbúa vel með góðum tengslum við ESB.
Á sviði menntamála fengi Ísland stærri hlutdeild í Erasmus+ og Horizon Europe, auk betri tengsla við evrópskt vísinda- og menntasamfélag.
Aðild Íslands að ESB mun veita landinu sterkari stöðu í stefnumótun, fjármögnun og samstarfi á sviði heilbrigðismála. ESB aðild mun tryggja betra lyfjaöryggi, lægra lyfjaverð og sterkari viðbúnað við alþjóðlegum heilbrigðisógnum ásamt auknum fjárstuðningi til þróunar heilbrigðisþjónustu og rannsókna.
ESB sinnar þurfa að hefja markvissa kynningu á ávinningi af ESB aðild halda því á lofti að með fullri aðild Íslands að ESB muni þjóðin auka verulega sitt stjórnunarlega sjálfstæði og fullveldi.
Þeir munu þurfa að keppa við öfluga andstæðinga eins og Morgunblaðið en fyrrverandi útgefandi blaðsins lýsti því yfir í viðtali á Heimildinni „að útgerðarfélögin hafi keypt Moggann sem vopn í pólitískri og hagsmunatengdri baráttu“. Hafa ber í huga að þessi félög hafa flest tekið upp evru sem gjaldmiðil í bókhaldi sínu.
Stjórnmálaflokkar þurfa að undirbúa kosningar til Evrópuþings og leita að fólki sem vill fara í framboð enda 6 þingsæti á Evrópuþinginu í boði, auk eins ráðherra og eins framkvæmdastjóra í stjórn ESB.
Það er því til mikils að vinna … hefjum undirbúninginn strax!