Græna gímaldið rammar inn hvað fallni meirihlutinn í Reykjavík var kominn mikið út á tún í sínum samstarfi, segir Guðlaugur Þór Þórðarsona þingmaður. Hann segir Sjálfstæðismenn munu styðja ríkisstjórnina í því sem þeir séu sammála henni um. Enginn vafi leiki hins vegar á því að þetta sé vinstri stjórn. Hann segir stjórnina þegar hafa lent í margvíslegum vandræðum og telur stjórnarsáttmálann allt of almennt orðaðan, þannig að hann sé ávísun á frekari vandræði á stjórnarheimilinu. Guðlaugur Þór er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Gudlaugur Thor - 5
„Við styðjum auðvitað bara ríkisstjórnina í því sem við erum sammála henni í, en auðvitað er þetta þannig þegar maður horfir á þessa ríkisstjórn – þing er ekki komið saman og hún er búin að lenda í ótrúlegum vandræðum og mér sýnist að það sé óhætt að segja; ríkisstjórnarsáttmálinn var svona, við bara ákveðum að við stofnum til ríkisstjórnarsamstarfs og sjáum svolítið til,“ Segir Guðlaugur Þór.
Já, en kennir ekki reynslan okkur líka það að það er oft ágætt að vera ekki með of nákvæma og útfærða stjórnarsáttmála vegna þess að þá byrjar spilaborgin bara að hrynja frá fyrsta degi?
„Jú, jú, það er örugglega sjónarmið, en hins vegar er hinn hluturinn sá að þegar kemur til stykkisins þá munu menn vísa í stjórnarsáttmálann og ef hann er það almennt orðaður að allir geti tekið undir hann þá rúmast ansi mikið innan hans. Við sjáum það að ef þú ætlar að fara í breytingar á stórum kerfum og öðru slíku þá er nú betra – allavega mín upplifun – að þú sért búinn að hugsa það alla leið þannig að á leiðinni lendi menn ekki í miklum deilum út af þeim.“
Guðlaugur Þór segir aðalatriðið vera að þetta sé vinstri stjórn. „Þetta er ekki hægri stjórn eða mið-hægri stjórn …“
Af hverju kallarðu þetta vinstri stjórn? Er það af því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í henni?
„Þú ert með Samfylkinguna sem er vinstri flokkur og Flokkur fólksins verður nú seint talinn annað en vinstri flokkur. Viðreisn skilgreinir sjálfa sig sem miðflokk. Það er að vísu sagt – sem skiptir máli – að hækka ekki skatta en menn ætla ekki að fara í skattalækkanir. það hljómar mjög vel þegar menn koma og kalla eftir hagræðingartillögum …“
Er það ekki bara sjálfsagt, að það sé skynsamlegt að kalla eftir því – sjá hvort það komi einhverjar nothæfar hugmyndir út úr því?
„Mér finnst það bara mjög mikilvægt. Hins vegar er það þannig að þú verður að – og það sem ég gerði á síðasta kjörtímabili, ég var að sameina stofnanir, við erum með allt of margar stofnanir, einfalda kerfið. Það er flókið að einfalda, það er mjög einfalt að flækja. Og við verðum að einbeita okkur að þessu vegna þess að við erum komin alveg út í skurð með þetta – við erum komin alveg út í skurð með eftirlitskerfið á Íslandi. Tíminn sem fer í það hjá fólki og fyrirtækjum í að eiga við hið opinbera – það skiptir ekki máli hvort þú ætlar að setja upp gróðurhús í garðinum þínum eða hvað það er – þetta er slík fyrirhöfn og kostnaður …“
Nema náttúrlega ef þú ætlar að reisa grænt gímald ofan í húsvegg á íbúðarhúsi, það virðist ganga nokkuð greitt.
„Útskýrðu fyrir mér: Hvernig var það hægt? Ef það er eitthvað sem rammar það hvað þessi borgarstjórnarmeirihluti er kominn mikið út á tún! Aftur, ef þú ætlar að hækka eða gera eitthvað pínulítið hjá þér þá þarftu að ganga milli allra nágranna og hvað það nú er, en svo er hægt að setja eitthvert gímald, og það er eins og það komi bara af himnum ofan. Þegar fólk spyr svo: Hvernig gerðist þetta? þá bara kannast enginn við það. Það er ekki eins og þetta sé fimm fermetra skúr. Þetta er kjötvinnsla!
(Viðtalið var tekið degi áður en Einar Þorsteinsson sleit meirihlutasamstarfinu í borginni)
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.