Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hefur selt hugbúnaðarfyrirtækið Moodup til fyrirtækisins Skyggnis sem er eignarhaldsfélags í upplýsingatækni. Eignasafn Skyggnis samanstendur af 14 fyrirtækjum í upplýsingatækni, stærst er Origo en þá á fyrirtækið einnig fyrirtækin Ofar, Syndis, Helix Health, Aftra og DataLab.
Moodup þróar lausnir á sviði starfsánægjumælinga en fyrirtækið selur meðal annars slíkar mælingar hjá kennurum í leik-, grunn-, og tónlistarskólum til ýmissa sveitarfélaga. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel en árið 2023 hagnaðist Moodup um 30,3 milljónir króna.
Björn Brynjúlfur og Viðskiptaráð hafa blandað sér með eftirtektarverðum hætti inn í samfélagsumræðuma um kaup og kjör kennarastéttarinnar hér á landi og meðal annars bent á að grunnskólakerfið hér á landi sé dýrt á alþjóðlegan mælikvarða, kennsluskylda lítil og veikindi algeng. Hefur þessi málflutningur fallið í grýttan jarðveg hjá kennurum.
DV fjallaði síðan um í gærkvöldi að í Facebook-hópnum Skólaþróunnarspjallið hafi skapast umræða um hvort að kennarar væru sáttir við að verið væri að kaupa áðurnefnda þjónustu af Moodup í ljósi þess að Björn Brynjúlfur ætti fyrirtækið.
Fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson kom sem hvirfilbylur inn í þá umræðu og sagði kennurum til syndanna fyrir þær „viðbjóðslegu“ hugmyndir að reyna að bregða fæti fyrir fyrirtækið. Fékk Stefán Einar það óþvegið tilbaka eins og kom fram í áðurnefndri umfjöllun.
Í fréttatilkynningu varðandi kaupin er haft eftir Ara Daníelssyni, forstjóra Origo, að kaupin opni meðal annars fyrir ný tækifæri til að auka samþættingu Moodup við lausnir Origo í mannauðstækni.
„Moodup býr yfir áhugaverðum vaxtartækifærum sem við erum spennt að styðja við í formi þekkingar á uppbyggingu hugbúnaðarfyrirtækja og mannauðslausna. Mannauðsmál eru mikilvægustu viðfangsefni stjórnenda og með nánara samstarfi Origo og Moodup getum við hjálpað viðskiptavinum okkar að ná forskoti með betri verkfærum og ánægðara starfsfólki.Origo þróar meðal annars Kjarna mannauðs- og launakerfi, sem gerir fyrirtækjum kleift að halda utan um öll mannauðsmálin sín á einum stað og Rúnu launavakt, sem eykur gagnsæi og samræmi í launamálum. Með þéttara samstarfi munu Moodup og Origo geta boðið viðskiptavinum heildstæðari og öflugri lausnir sem ná til allra þátta mannauðsstjórnunar, allt frá ráðningum og frammistöðustjórnun til launa- og upplýsingakerfa,“ segir Ari.
Þá er haft eftir Birni Brynjúlfi að það muni styrkja Moodup að vinna með framsæknu og reynslumiklu starfsfólki Skyggnis og Origo. „Við höfum átt farsælt samstarf við Origo frá stofnun Moodup, hvort sem það snýr að viðskiptum, samþættingu á milli Moodup og Kjarna, sölu- eða fræðslusamstarfi. Þetta verður frábært nýtt heimili og náttúrulegt næsta skref í vaxtarsögu félagsins.“
Ekki kemur fram í tilkynningunni hvert kaupverð fyrirtækisins er.