Heimir Már Pétursson, sjónvarpsmaður, er nýr framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi þingflokks Flokks fólksins. Frá þessu greinir Vísir í frétt en Heimir Már hefur um árabil starfað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar sem er hluti af fjölmiðlum Sýnar, líkt og netmiðillinn öflugi.
Í fréttinni kemur fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Heimir starfar á vettvangi Alþingis en hann starfaði sem framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins á árunum 1996 til 1999.
Þá hefur Katrín Viktoría Leva verið ráðin sem lögfræðingur þingflokksins.
Katrín Viktoría Leva
Katrín lauk BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 og ML-prófi í lögfræði frá sama skóla árið 2014. Hluta meistaranámsins stundaði hún við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. Árið 2020 hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum.