Umburðarlyndi gengur út á að hafa umburðarlyndi gagnvart þeim sem eru ósammála manni. Á vettvangi Sjálfstæðisflokksins á að vera hægt að ræða öll mál, líka Evrópumálin og aðild að ESB. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, segir mikilvægt að Sjálfstæðismenn gangi sameinaðir út af landsfundi og segir ákvörðun sína um að bjóða sig ekki fram til formanns vera risastórt skref af hans hálfu til að stuðla að því. Guðlaugur Þór er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Gudlaugur Thor - 3
„Það sem ég hef lagt áherslu á frá fyrstu mínútu, frá því að þessi umræða hófst og ég var spurður og sagði: Við verðum, og hafa bara augun á því, við þurfum á öllum að halda og miklu fleirum, að ganga þannig fram að það sé tryggt að við komum sameinuð af þessum fundi,“ Segir Guðlaugur Þór.
Ertu bjartsýnn á það?
„Ég er alltaf bjartsýnn og ég gat ekki stigið stærra skref heldur en það sem ég gerði til þess að segja: Ókei, ég er ekki bara að tala um það að við þurfum að muna það að það er enginn einstaklingur stærri heldur en flokkurinn. Ég sagði, það er holur hljómur ef ég talaði fyrir þessu en segja svo: Það gengur allt út á að ég verði formaður. Það vita allir að ég brenn fyrir stjórnmálum og ég hef mjög gaman af því og hef góða reynslu af því og hef sýnt mikinn árangur af því að vera í forystu. Og auðvitað útilokar það ekkert um alla framtíð, enda kornungur maður og þegar maður horfir á Donald Trump vera kosinn 78 ára þá áttar maður sig á því hvað maður er ungur,“ segir Guðlaugur og skellir upp úr.
Hann segir formennsku í Sjálfstæðisflokknum ekki vera eins manns verk. „Af því að við vorum að tala um Sjálfstæðisflokkinn áður fyrr, þá lögðu menn mikið upp úr þessu. Það gerðist ekkert af sjálfu sér að við vorum stór og breiður flokkur. Í mínum huga eru það vonbrigði þegar maður sér gamla félaga og fólk sem ætti að vera okkur sammála, sem er starfandi í öðrum flokkum og er að styðja aðra flokka. Þetta snýst allt um fólk og þú verður að gefa fólki þau skilaboð að við viljum fá fólk með. Og af því að við vorum að ræða Evrópumálin hérna áðan, og við erum ekki sammála þar. Það er allt í lagi. Mér finnst að fólk eigi að vera í sama flokki þó að það sé ekki sammála um þessi mál. Öll mál eru þess eðlis að það verður að ræða þau.“
En það hefur verið voðalega erfitt og ég man eftir því að það var eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að vekja máls á Evrópusambandinu og mögulegri nálgun Íslands þangað – í Sjálfstæðisflokknum.
„Það eru mörg mál sem maður heyrir frá fólki – ég fer nú reglulega á Útvarp Sögu þar sem menn hafa áhyggjur af því að woke-isminn, sem í rauninni í mínum huga er það að þú megir ekki segja ákveðna hluti, megir ekki ræða ákveðna hluti, hafi verið eitthvað sem hafi verið gangandi í Sjálfstæðisflokknum. Það er alveg sama hvað það er, við hljótum alltaf að vera tilbúin til þess að ræða það á vettvangi flokksins. Umburðarlyndi gengur út á það að hafa umburðarlyndi gagnvart þeim sem eru ósammála þér. Ég þekki engan sem er sammála mér í öllu. Maður getur ekki nálgast hlutina þannig að ég vildi bara hafa í flokki með mér einhverja sem eru allavega 90 prósent sammála mér. Það yrðu samt ógeðslega fáir,“ segir Guðlaugur Þór og skellir upp úr.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.