fbpx
Föstudagur 24.janúar 2025
Eyjan

Útgáfa ríkisvíxla ryksugar markaðinn og keyrir upp vexti – betra fyrir alla ef ríkið tæki erlent lán

Ólafur Arnarson
Miðvikudaginn 8. janúar 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkissjóður Íslands er umsvifamikill á íslenskum fjármögnunarmarkaði og hefur veruleg áhrif á það að fjármögnunarkostnaður íslensku bankanna hefur haldist mjög hár og virðist lítt fara lækkandi þrátt fyrir að verðbólga sé loksins farin að lækka sem og stýrivextir Seðlabankans. Raunar hefur ávöxtunarkrafa á verðtryggðri fjármögnun hafa hækkað undanfarna mánuði, sem bankarnir hafa svikalaust sett beint út í verðlagningu sinna útlána. Þeir hafa því beinlínis hækkað sína verðtryggðu vexti.

Ástæðan fyrir miklum umsvifum ríkissjóðs á fjármögnunarmarkaði er í grunninn ekki flókin. Ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla í fjölda ára og fram til þessa hefur ekki séð fyrir endann á því. Ríkissjóður þarf því að taka lán til að halda sér gangandi.

Allt síðasta ár rúllaði ríkissjóður um og yfir 200 milljörðum á undan sér með útgáfu og útboðum á ríkisvíxlum til þriggja og sex mánaða. Þetta er dýrasta fjármögnun sem ríkissjóður getur valið og má sem dæmi nefna að í síðasta útboði ársins í desember sl. seldi ríkissjóður þriggja mánaða víxla að fjárhæð 13,65 milljarða að nafnvirði á ársvöxtum sem nema að jafnaði 8,391 prósent.

Í sama útboði samþykkti ríkið tilboð í sex mánaða víxla að nafnvirði 20,9 milljarða á 8,168 prósent ársvöxtum. Umfangsmikil og óvænt víxlaútgáfa var enn fremur nefnd sem ein ástæða þess að endurskoðuð afkoma ríkissjóðs á síðasta ári, sem kynnt var í desember, var verri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Þessi miklu umsvif ríkisins á lánamarkaði gera öðrum á markaði mjög erfitt fyrir og segja má að ríkissjóður ryksugi upp fjármagn og þrengi lánakosti annarra, t.d. sveitarfélaga og fyrirtækja. Ljóst er að ásókn ríkisins í lánsfé á háum vöxtum hækkar fjármögnunarkostnað allra annarra vegna þess að vaxtakjör á lánum íslenska ríkisins mynda vaxtabotninn á íslenskum lánamarkaði og allir aðrir þurfa að greiða hærri vexti fyrir sína fjármögnun, sé þá fjármagn í boði á annað borð.

Eyjan hefur rætt við aðila sem eru öllum hnútum kunnugir á íslenska fjármálamarkaðnum og eru þeir á einu máli um að mikil ásókn ríkisins í lánsfé á innlendum markaði sé skaðleg fyrir markaðinn þróun vaxta. Á sama tíma og mikilvægt sé að ávallt sé stöðug útgáfa ríkisvíxla og ríkisbréfa til að mynda vaxtabotninn á markaði sé of mikil ásókn ríkisins í lánsfé skaðleg vegna þess að hún takmarki aðgengi annarra að lánsfé, auk þess sem ávöxtunarkrafan á markaði, og þar með vaxtastigið, sé hærri en ella þegar ríkið er mjög þyrst í lánsfé.

Sérfræðingar sem Eyjan hefur rætt við telja að það myndi létta verulega á markaðnum, auk þess sem það myndi lækka fjármögnunarkostnað ríkisins og annarra lántakenda á markaði, ef ríkið tæki lán erlendis, t.d. 400-600 milljónir evra, eða á bilinu 58-87 milljarða króna, til að létta á innlendri lánsþörf þess og lækka fjármögnunarkostnað, en vaxtakjör á fjármögnun í evrum eru til muna hagstæðari en á fjármögnun í íslenskum krónum. Þetta myndi einnig leiða til lækkunar ávöxtunarkröfu á innlendum markaði, sem kæmi ríkinu og öðrum lántakendum til góða og ætti að skila sér til neytenda.

Þetta gæti verið upplagt sparnaðarráð til ríkisstjórnarinnar, enda er vaxtakostnaður einn stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“