fbpx
Miðvikudagur 08.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg

Eyjan
Þriðjudaginn 7. janúar 2025 11:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til ósigurs í alþingiskosningunum í lok nóvember. Flokkurinn hlaut minnsta fylgi í nær aldarlangri sögu flokksins. Í kosningunum 2021 fékk flokkurinn 24,4 prósent en í nóvember komu 19,4 prósent upp úr kjörkössunum. Þannig tapaði flokkurinn fimmtungi fylgis síns á einu kjörtímabili. Orðið á götunni er að ekki sé hægt að túlka slík úrslit sem „varnarsigur“ eins og Bjarni og fleiri sjálfstæðismenn hafa reynt að gera. Í síðustu kosningunum áður en Bjarni tók við formennsku fékk flokkurinn 36,6 prósent atkvæða og fer nærri að í formannstíð hans hafi Sjálfstæðisflokkurinn tapað helmingi fylgis síns.

Orðið á götunni er að vitaskuld hafi Bjarni hlotið að axla ábyrgð á fallandi gengi flokksins og því að nú er flokkurinn er nú dæmdur til valdalausrar stjórnarandstöðu um ókomin ár. Það tíðkist alls staðar í lýðræðisríkjum að leiðtogar flokka sem kjósendur hafna í kosningum axla sín skinn. Þá skjóti það skökku við að fólk í forystu Sjálfstæðisflokksins reyni nú að draga upp nokkurs konar helgimynd af Bjarna og formannsferli hans.

Orðið á götunni er að talsmenn Sjálfstæðisflokksins og sumir stjórnmálaskýrendur fjalli nú um Bjarna Benediktsson líkt og þeir séu að rita minningargrein um látinn mann. Bjarni er hins vegar ekki látinn, hann sagði bara af sér vegna þess að sama fólkið og nú mærir hann hafði snúist gegn honum á vettvangi flokksins. Ástæðan fyrir því að fólkið snerist gegn formanni sínum er staðan sem blasir við. Fylgi flokksins í sögulegri lægð eftir sjö ára starf í vinstri stjórn sem skilar af sér vondu búi. Verðbólga þrálát og vextir, sérstaklega raunvextir í hæstu hæðum; greiðslubyrði fjölskyldna og fyrirtækja hefur aukist stórkostlega á örfáum misserum. Stöðnun hefur ríkt, ekkert fjárfest í innviðum í orkumálum eða samgöngumálum og afleiðing er sú að við blasir orkuskortur á íslandi og þjóðvegakerfið, æðakerfi atvinnulífs um allt land, er í molum. Uppnám hefur ríkt í útlendingamálum.

Orðið á götunni er að tilraunir forystu Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi formanns hans til að túlka þessa stöðu sem „árangur“ séu veikburða og ótrúverðugar – ekki takist að slá ryki í augu fólks.

Til skamms tíma er helsta afleiðing þeirrar ákvörðunar Bjarna Benediktssonar að nú snýr aftur á Alþingi Jón Gunnarsson. Orðið á götunni er að það sé „hvalreki“ fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnina.

Spekúlantar hefa hellt sér á bólakaf í þann samkvæmisleik að nefna mögulega eftirmenn Bjarna á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum. Ýmis nöfn hafa komið upp en þeir sem kunna söguna, hafa innsýn í stjórnmál og þekkja eitthvað til í Sjálfstæðisflokknum vita að næsti formaður kemur úr hópi þingmanna flokksins. Af og frá er að laskaður flokkur sem er að fara í fjögurra ára stjórnarandstöðu muni velja einstakling utan þings til að leiða flokkinn. Einu sinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengið til þings með formann, sem ekki átti sæti á Alþingi. Þetta var árið 1983. Geir Hallgrímsson hafði fallið af þingi í kosningunum um vorið. Þá var hins vegar uppi sú staða að Sjálfstæðisflokkurinn fór í ríkisstjórn eftir kosningarnar og Geir gegndi ráðherraembætti.

Orðið á götunni er að frétt Eyjunnar um nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum sem vildi tafarlausa breytingar hafi hitt naglann á höfuðið. Í fréttinni er greint frá því að hin nýja valdablokk snúist um að Guðlaugur Þór Þórðarson verði formaður og nýr varaformaður verði Guðrún Hafsteinsdóttir. Þau séu bæði oddvitar í sínum kjördæmum. Í slagtogi með þeim verður Ólafur Adolfsson, oddviti flokksins í Norðvestur kjördæmi, sem jafnframt er fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór hafi tryggt sér gríðarlega sterka stöðu í flestum félögum og valdastofnunum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að einungis landsfundarfulltrúar hafa atkvæðisrétt í formannskjöri og það eru félögin og valdastofnanir flokksins sem velja landsfundarfulltrúana.

Með bandalagi við Guðrúnu og Ólaf tryggir Guðlaugur sér svo öflugan stuðning í Suður og Norðvesturkjördæmi. Sjálfur hefur Guðlaugur góð ítök í Norðvesturkjördæmi, enda liggja rætur hans í Borgarnesi. Þá var Guðlaugur í Menntaskólanum á Akureyri og hefur ræktað samband sitt við Norðaustur kjördæmi.

Orðið á götunni er að óskynsamleg sé að veðja gegn Guðlaugi Þór í komandi formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum. Nú muni flokkurinn þurfa formann, sem getur stöðvað fylgistapið og náð viðspyrnu eftir þá hörmungartíma sem að baki eru. Þá skipti máli að fá mann sem kann til verka og man þá tíma er Sjálfstæðisflokkurinn bar höfuð og herðar yfir aðra flokka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs