Mál ferlíkisins, kuldalegrar vöruskemmu í Álfabakka, verður tekið fyrir á fundi borgarstjórnar á morgun. Þar mun borgarfulltrúinn og þingmaðurinn Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir mæla fyrir því að óháðum aðila verði fengið að gera stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu. Kolbrún segir í greinargerð sinni að málið sé grafalvarlegt og líklega stærsta skipulagsslys meirihlutans til þessa.
Kolbrún reifar málið í greinargerð:
„Kjarni málsins er sá að vöruhús við Álfabakka hefur verið reist fáeinum metrum frá íbúðablokk. Við íbúum blokkarinnar blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur. Fólk er eðlilega miður sín og spyr hvernig svona gat gerst. Engan renndi í grun um að þarna væri verið að byggja svo stórt vöruhús (skemmu) sem lokar fyrir allt útsýni frá þeim íbúðum sem vöruhúsið snýr að. Ræða þarf tildrög þessa máls, hvað fór úrskeiðis og hvernig þetta gat raunverulega gerst. Jafnframt er kallað eftir að ábyrgðaraðilar axli ábyrgð.“
Vöruskemman hefur mest áhrif á íbúa í Árskógum 7 sem er hús í eigu Búseta. Formaður húsfélagsins í Árskógum 7, Kristján Hálfdánarson, mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagðist vera bjartsýnn maður að eðlisfari. Hann hafi keypt búseturétt og flutt inn árið 2021. Þá hafi honum verið kynnt að til stæði að reisa vistvæna byggð. Uppbygging ætti að fara fram á fjórum lóðum við húsið þar sem reisa átti verslunar- og þjónustusvæði. Síðan hafi borgin fyrir einhverja ástæðu samþykkt að sameina þessar fjórar lóðir í eina. Kristján var þó áfram bjartsýnn. Hann fylgdist með því þegar fyrst var grafið fyrir grunninum og var áfram bjartsýnn. Síðan reis stálgrindarhúsið og var þá byrjað á þeim hluta sem var lengst frá Árskógum 7 svo íbúar voru lengur en ella að átta sig á stöðunni.
„Ég ætla ekki að lýsa því ástandi sem varð á fólki þegar það gerði sér í raun grein fyrir hvað þarna var á ferðinni,“ segir Kristján sem tekur fram að það sé nú ófrávíkjanleg krafa íbúa að ferlíkið í Álfabakka verði rifið og því fundinn nýr staður, helst ekki í íbúðabyggð. Kristján segir íbúa ætla að fjölmenna á borgarstjórnarfund á morgun til að fylgja kröfu sinni eftir. Til þessa hafi hann og fleiri leitað eftir svörum frá borginni en engin fengið.
Kolbrúnu barst þar að auki erindi frá íbúa sem býr í einu af húsunum í Árskógum þar sem athygli hennar var vakin á því hvernig framkoma borgarinnar í málinu er enn ruddalegri í ljósi þess að við Árskóga búa margir sem tilheyra hópum sem eiga kannski erfiðara með að láta í sér heima.
Húsin við Árskóga eru flest fyrir fólk sem er komið yfir sextugt. Þarna megi meðal annars finna þjónustumiðstöð í Árskógum 4 þar sem fer fram frístunda- og félagsstarf fullorðinna. Eins er þar boðið upp á hádegismat og síðdegiskaffi. Hjúkrunarheimilið Skógarbær er í Árskógum 2 og nálægt ferlíkinu má finna íbúakjarna fyrir fatlað fólk og íþróttavöll fyrir börnin í hverfinu. Þetta er umhverfi skemmunnar. Þarna sé því mikil umferð gangandi fólks, þar með talið margra sem eiga erfitt með gang. Eins liggi fyrir að margir íbúar séu þarna komnir á aldur og því meira heima heldur en ella. Íbúinn skrifaði til Kolbrúnar:
„Það eru allir hér í áfalli eða reiðir yfir valdníðslunni sem ákvörðunaraðilar borgarinnar sýna íbúum í þessu hverfi fullorðins fólks,“ og bætti við að upphaflega átti að rísa þarna verslunar- og þjónustulóð sem ætti að nýtast íbúum í næsta nágrenni. Þess í stað fengu íbúar, upp til hópa eldri borgarar, kjötvinnslu í bakgarðinn og það án nokkurrar grenndarkynningar. Eftir standi margar spurningar og krefjist íbúar svara við því hvernig þetta gat gerst og hvaða áhrif ferlíkið muni hafa á verðgildi íbúða þeirra.
Kolbrún leggur til í tillögu sinni að framkvæmdir við vöruskemmuna verði stöðvaðar þegar í stað á meðan málið sé tekið til skoðunar.
„Ekki verður liðið að bjóða íbúum upp á að stara á grænan vegg vöruhússins þegar horft er út um stofugluggann.“
Morgunblaðið greinir frá því í dag að Búseti telji að áform um kjötvinnslu í Álfabakka 2 samræmist ekki gildandi aðalskipulagi borgarinnar. Framkvæmdastjóri Búseta telur jafnframt að teikningar sem lagðar voru fram við byggingarfulltrúa standist ekki reglugerð. Rúmlega þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem þess er krafist að framkvæmdir við Álfabakka verði stöðvaðar. Þar er borgin harðlega gagnrýnd fyrir ófullnægjandi samráð og upplýsingagjöf.