Jón Björn Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs Íþróttasambands fatlaðra. Frá þessu er greint á vef Hvata, tímarits Íþróttasambands fatlaðra.
Jón Björn tekur við af Ólafi Magnússyni sem nýverið lét af störfum eftir 40 ára farsæla þjónustu við íþróttir fatlaðra í landinu.
Árið 2008 hóf Jón Björn störf hjá ÍF og hefur því 16 ára reynslu af starfsemi sambandins. Lengst af hefur hann gegnt starfi Íþrótta- og fjölmiðlafulltrúa hjá ÍF en hann hefur einnig verið aðalfararstjóri Íslands á sumar- og vetrarleikum Paralympics frá árinu 2016.
Jón Björn lauk námi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og síðan BA-gráðu í íslensku við Háskóla Íslands ásamt diplómanámi í fjölmiðlafræði. Hann lauk svo MBA-námi við Háskóla Íslands 2019 meðfram fullu starfi hjá ÍF. Jón Björn stofnaði vefsíðuna Karfan.is og stýrði henni allt til árins 2017 og þá hefur hann einnig gegnt ábyrgðarstöðum hjá Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og lætur nú þar af störfum sem formaður barna- og unglingaráðs Körfuknattleiksdeildarinnar nú þegar hann tekur við sem afreks- og fjármálastjóri ÍF.