Eins og svo margir hef ég löngum verið heillaður af ráðgátum sagnfræðinnar og á unglingsárum varð ég sérlega áhugasamur um afdrif norrænna manna á Grænlandi. Sagnfræðingar eru nú orðið almennt þeirrar skoðunar að endalok byggðar norrænna manna þar vestra eigi sér margbrotnar skýringar og þjóðfélagi þeirra hafi hnignað á löngum tíma. Þar hafi kólnandi loftslag og strjálli skipakomur haft sitt að segja. Þá hefur margt verið dregið fram sem sýnir hvernig inúítum tókst mun betur að aðlagast hinu harðneskjulega umhverfi en norrænum mönnum.
Enn eina vísbendinguna um meiri aðlögunarhæfni inúíta að fimbulslóðum má lesa í nýlegri grein Mathilde Vestergaard Meyer, doktorsnema við Háskólann í Árósum, og leiðbeinanda hennar, Felix Riede, en þau greina frá niðurstöðum rannsóknar sinnar í nýútkomnu hefti European Journal of Archaeology. Rannsóknin sneri að leikföngum norrænna barna á Grænlandi annars vegar og inúítabarna hins vegar. Til athugunar voru leikföng frá árabilinu 1000 til 1400 sem fundist hafa á slóðum þar sem lífsskilyrði eru áþekk, alls 72 leikföng norrænna barna en hvorki fleiri né færri en 2.397 leikföng inúítabarna. Ekki einasta eru leikföng inúítanna miklu fleiri heldur er þau líka til muna fjölbreyttari að gerð. Norrænu börnin áttu leikfangagerðir af örvum, öxum og sverðum, en inúítabörnin að auki boga, skutla og alls kyns önnur vopn. Eftir því sem aldirnar líða og loftslag fer kólnandi verður æ algengara að inúítar gefi börnum sínum litlar eftirlíkingar af vopnum og veiðarfærum en norrænu börnin fá frekar útskorna hesta og fugla. Svo er að sjá sem hinir útdauðu frændur okkar hér fyrir vestan hafi átt í basli með að aðlagast versnandi lífsskilyrðum og verulega skort á útsjónarsemi sem endurspeglist meðal annars í leikföngum þeim sem börnum voru gefin.
Mér varð hugsað til þessa í gjafaflóði jólanna en margir gagnrýna í okkar samtíma að börnum sé drekkt í tilbúnum leikföngum — en kannski er magnið ekki aðalatriðið heldur hvaða skírskotun leikföngin hafa til raunveruleika barnanna og hvaða hæfileika er verið að þroska.
Svo ég haldi mig við uppeldismál þá las ég í hinu efnisríka jólahefti The Economist áhugaverða umfjöllun um japanska forskóla og barnaskóla þar sem tíðkast að börnin þrífi kennslustofuna í lok skóladags til að innræta þeim góða umgengni. Japanskt skólastarf einkennist af mikilli reglufestu þar sem sérhvert smáatriði hefur skýran uppeldislegan tilgang. Í pennastokknum er til að mynda sérstakt hólf fyrir hvert það ritfang sem börnin þarfnast svo ef eitthvað vantar þá verða þau þess vör undir eins. Þetta kennir þeim að hugsa vel um eigin muni.
Við upphaf og endi skóladagsins er efnt til bekkjarfundar þar sem verkefni dagsins eru tekin til umræðu (en vel að merkja setja börnin ekki reglurnar sjálf eins og mér skilst að tíðkist sums staðar í skólum hér). Eldri nemendum er falið að kenna þeim yngri ýmsar reglur skólans, til dæmis hvar eigi að koma skóm og yfirhöfnum fyrir. Ef eitthvað skortir á reglu og kurteisi er undir eins tekið á vandamálinu. Í skólanum sem blaðamaður heimsótti var nýlega efnt til átaks þar sem brýnt var fyrir nemendum að heilsa hverjir öðrum, en eitthvað var víst orðið um þurradramb og brýnt að taka á því.
Árangur japanskra skólabarna er aðdáunarverður, ekki einasta er hæfni þeirra í grundvallarfögum með því besta sem þekkist á byggðu bóli, heldur eru þau furðu ung farin að sýna mikið sjálfstæði. Allt niður í sex ára börn fara ein með jarðlestinni í skólann. Blaðamaður ræddi við japanskan föður en sjö ára sonur hans gengur tíu mínútna leið í skólann á hverjum morgni. Faðirinn kvaðst vera dálítið áhyggjufullur því sonurinn þurfi að fara yfir mikla umferðargötu á leiðinni, en þetta blessist allt því góðviljað fólk aðstoði hann á leiðinni. Hér bætist við að óvíða í heiminum er jafnöruggt að vera og í Japan. Ekki er svo ýkja langt síðan íslenskir foreldrar treystu börnum sínum með sama hætti en við blasir mikil ofverndun barna í okkar heimshluta sem eru miklu fyrr fær um að axla ábyrgð en foreldrar vilja oft viðurkenna.
Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar litu margar þjóðir til japanska skólakerfisins í leit að leiðum til að bæta námsárangur. Á seinni árum hefur víðtækara uppeldisgildi skólakerfis Japana vakið meiri athygli utan landsteinanna. Gagnrýnin er helst fólgin í því að svo strangt kerfi geti komið niður á skapandi hugsun. Rannsókn Barnastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNICEF) leiðir í ljós að líkamlegt atgervi barna er hvergi betra meðal þróaðra ríkja en í Japan. Andlegri heilsu japanskra barna er aftur á móti óbótavant sé litið til sömu rannsóknar. Þrátt fyrir slíkar brotalamir blasa við kostir hinnar japönsku reglufestu.
Óskandi væri að stóraukin áhersla yrði lögð á aga og reglu í íslenskum skólum, ekki einasta til að bæta námsárangur heldur líka til að skapa traustara og samheldnara þjóðfélag. Margt má læra af Japönum í þessu efni.