Þegar mánuður er liðinn frá alþingiskosningunum 2024 – og ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum í landinu – blasir hin pólitíska aflögun við landsmönnum. Ummerkin eftir einn helsta landskjálfta sem riðið hefur yfir þjóðmálin hér á landi eru svo augljós að líkja verður við mikilvirkar náttúruhamfarir.
Ekki einasta hafa orðið hrein valdaskipti í landinu, sem er einsdæmi í lýðveldissögu landsmanna, heldur leiða konur alla þrjá stjórnarflokkanna – og skynsamara kynið er jafnframt í meirihluta við ríkisstjórnarborðið. Hvorugt hefur gerst áður.
Karlarnir sitja eftir í stjórnarandstöðu, bitrir, reiðir og sárir, og haga sér eins og kjánar gagnvart mótherjum sínum, og finnst hæfa að láta hvína í tálknum, svo ekki fari á milli mála hvorum megin raddstyrkurinn liggur.
Allur sá leikþáttur sem landsmenn hafa upplifað síðustu dagana er þó líklega til þess eins gerður að fela það sem fyrir liggur. Og það er ekki aðeins það eitt að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins tapa ekki lengur bara fylgi við að leggja lag sitt við hann, heldur eru þeir líka farnir að falla af þingi út af nálægðinni við hann. Og ber þar nýrra við.
Það sem telst þó vera sögulegra, er að þaulsetnustu valdaflokkar landsins eru ekki lengur burðarásar í íslenskum stjórnmálum, og munu að öllum líkindum ekki verða það aftur.
Framsókn og Íhaldið er nefnilega að skreppa svo rækilega saman að inntaki að til samans höfða þeir aðeins til helftarinnar af því sem þeir gengu vísir að allan seinni hluta síðustu aldar og vel fram á þá nýju, en margoft nutu þeir í kringum 60 prósenta fylgis, stundum meira. Nægir að rifja upp áratuginn fyrir aldamótin, en eftir kosningarnar 1995 hlutu þeir samanlagt 60,4 prósenta fylgi og 40 þingmenn, og fjórum árum seinna 67,5 prósenta fylgi og 43 þingmenn.
„Það sem telst þó vera merkilegra, er að þaulsetnustu valdaflokkar landsins eru ekki lengur burðarásar í íslenskum stjórnmálum, og munu að öllum líkindum ekki verða það aftur.“
Þetta heyrir sögunni til.
Veldur þar mestu að báðir flokkarnir hafa skroppið saman að meiningu. Framsókn, elsti flokkur landsmanna, er ekki lengur sá félagshyggjuflokkur sem hann var um langa hríð, heldur hefur hann litast af langvarandi íhaldsást, og stendur miklu fremur fyrir afturhald en frjálslyndi, samþjöppun en samvinnu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei í sögu sinni verið jafn margklofinn og marklaus og þegar aldarfjórðungur er að verða liðinn af nýrri öld. Gamli og gildi forystuflokkurinn er að mestu farinn að elta aðra flokka, nú síðast Miðflokkinn, af öllum stjórnmálaöflum, og þekkir ekki lengur sitt gamla eðli að rúma breiðan hóp fólks með tiltölulega ólíkar skoðanir. Hann hefur aldrei staðið jafn veikt – og situr núna uppi með minnsta fylgi frá stofnun flokksins, 1929, í bráðum heila öld.
Og umræðan innan flokksins, raunar bæði í minnihlutanum í borginni og í minnihlutanum á Alþingi, ber þess merki að flokksmenn vita að nú er hún Snorrabúð stekkur. Ólíkar flokksklíkur innan hans geta ekki lengur leynt gremju sinni, hver í annarrar garð, og hnútuköstin fylla ekki lengur reykfyllt bakherbergi, heldur forsíður blaða og fréttatíma ljósvakans.
Stóru tíðindin sem blasa við, sú pólitíska aflögun sem að ofan er getið, er að völdin í landinu, líklega um langt árabil, hafa ekki aðeins færst úr höndum karla til kvenna, heldur líka úr höndum gamalla flokka sem höfðu slegið eign sinni á land og þjóð, og töldu sig mega og eiga allt.
Og það er von að menn æpi og öskri þegar þeir tapa svoleiðis völdum.