Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Jarðhræringar, eldgos, Grindavík, samfall í Breiðamerkurjökli, umhleypingatíð og væringar á stjórnmálasviðinu settu mark sitt á árið sem var að líða.
Heimsstjórnmálin voru galnari en nokkru sinni fyrr en nærri helmingur mannkyns valdi nýja pólitíska forystu í heimalöndum sínum. Trump varð forseti eftir furðulegustu forsetakosningabaráttu sem háð hefur verið í Bandaríkjunum þar sem við sáum allt það versta í mannlegu eðli fá sviðsljósið en líka það besta. Þetta var ár andstæðnanna og fáránleikans.
Ný stjórnmálaforysta á Íslandi hefur verk að vinna á nýju ári. Hvalveiðafrekjuútspil Bjarna Benediktssonar má nefna en enn verra verður að vinda ofan af þeim gjafagjörningum sem skipulagðir voru í stjórnartíð VG og Sjálfstæðisflokks þar sem landsins perlur og auðæfi hafa verið hlutuð niður sem ódýr söluvarningur til ásælinna innanbúðarmanna. Ég óska nýrri ríkisstjórn góðs gengis enda mun ekki veita af. Við eigum ekkert nema þetta land og gæði þess. Að láta það af hendi er óðs manns æði.
Hvernig framtíð viljum við Íslendingar? Viljum við verða samdauna heiminum eða viljum við standa vörð um eitthvað það íslenskt sem okkur þykir vænt um og heldur okkur saman? Þessu þurfum við að svara. Við erum fá og höfum landfræðilega sérstöðu og getum gert hlutina eftir okkar höfði.
Viljum við til dæmis þessi hernaðarumsvif Bandaríkjanna á Íslandi í svo óstöðugum heimi? Öflugasta her heims undir stjórn manns sem hefur að yfirlýstri stefnu að innlima okkar ágætu nágranna á Grænlandi og hirða Winnipeg í leiðinni? Ég er ekki hrifin af því sannast sagna, mér finnst sú ásýnd sem Ísland hefur hingað til haldið uppi margfalt betri kostur. Hlutlaust land sem tekur afgerandi afstöðu með friði í hvívetna.
Mig dreymir um betri heim, um innilegri samskipti fólks á milli, um frið á jörð en kannski er það svo að ekkert þrífst án þess að andstæða þess lifi líka góðu lífi. Mér hefur sýnst að andstæður allar í heiminum séu ekki aðgreinanlegar heldur sitthvor endinn á sama hlutnum. Kannski eru allar manneskjur Jesús Kristur og skrattinn sjálfur þegar upp er staðið. Ekkert er til án andhverfunnar.
Engin er gleðin ef við vissum ekki hvað sorgin er. Enginn væri dagurinn ef við vissum ekki af nóttinni sem óhjákvæmilega tekur við að degi loknum. Aldrei gætum við skemmt okkur ef við ekki vissum hvað það er sem gerir okkur leið og hrygg. Myndum við vita hvað friður er, ef engin væru stríð?
Kannski eigum við að vera vakandi fyrir því að þegar okkur líður vel þá líður einhverjum illa á sömu stundu. Stundum bera aðrir byrðarnar en stundum koma þær í okkar hlut.
Kannski erum við öll sífellt að dansa einhvern jafnvægisdans í veröldinni þar sem andstæðurnar takast á en í alheimstakti þó. Margradda söngur alls sem lifir og heldur veraldarsöngnum gangandi.
Ég ætla að ganga inn í nýtt ár með von í brjósti og meðvituð um að gleðin og sorgin, friðurinn og ófriðurinn, muni fylgja mér á þeirri vegferð og vonandi í einhverju jafnvægi. Ég óska þess að við megum lifa að vera allt með öllu.