Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, var í þættinum Þjóðmál með Heiðari Guðjónssyni fjárfesti en í þeim þætti fór framkvæmdastjórinn hörðum orðum og gagnrýndi svokallaðan Stöðugleikasamning sem undirritaður var í mars á síðasta ári. Hélt framkvæmdastjórinn því fram að nálgun þeirra hafi mistekist og leitt til „skipbrots“. Þessi skoðun er ekki aðeins ósanngjörn heldur einnig röng og stenst enga skoðun þegar litið er til tilgangs og árangurs stöðugleikasamninganna til þessa.
Til að byrja með er nauðsynlegt að rifja upp grundvöll stöðugleikasamninga. Þeir voru samdir með það að markmiði að styðja við lækkun verðbólgu og lækkun vaxta, sem eru grundvallarforsendur til að auka kaupmátt og ráðstöfunartekjur launafólks og heimila. Þetta hefur tekist að hluta til. Verðbólga hefur lækkað úr tæpum 7% í 4,8% og stýrivextir hafa lækkað um 0,75 prósentustig. Þó er rétt að taka fram að vonir stóðu til að stýrivaxtalækkanir Seðlabankans yrðu kröftugri í ljósi lækkunar verðbólgu, en þetta er engu að síður vísbending um að markmið samninganna séu að skila árangri.
Reynslan af þjóðarsáttarsamningunum árið 1990 er sérstaklega lærdómsrík í þessu samhengi. Á þeim tíma tóku allir aðilar vinnumarkaðarins höndum saman og öxluðu sameiginlega ábyrgð með það markmið að draga úr verðbólgu, sem þá var yfir 25%. Með samstilltu átaki tókst að keyra verðbólguna niður í um 5% á aðeins 15 mánaða tímabili. Þetta sýnir skýrt að þegar allir draga að sama streng má ná stórkostlegum árangri í stöðugleika og efnahagsbata.
Það er sérstaklega grátbroslegt að hálaunafólk gagnrýni launahækkanir verkafólks sem er að berjast fyrir því að ná endum saman frá mánuði til mánaðar og halda mannlegri reisn. Þegar litið er á staðreyndir, hækkuðu launataxtar verkafólks um 23.750 kr., sem er ekki stór upphæð í samhengi lífsnauðsynlegra útgjalda. Að gera slíkar hækkanir að megináherslu í gagnrýni er óviðeigandi og sýnir skilningsleysi á þeim áskorunum sem verkafólk stendur frammi fyrir dag hvern.
Það vekur einnig athygli að framkvæmdastjóri SFS gagnrýndi sameiginlega yfirlýsingu breiðfylkingar verkalýðshreyfinga og Samtaka atvinnulífsins um að halda aftur af verðlags- og gjaldskrárhækkunum. Þessi yfirlýsing er mikilvægt skref í átt að auknu trausti og samstöðu í samfélaginu og stuðlar að því að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi stöðugleika. Að gagnrýna slíkt samstarf er stórundarlegt og virðist byggt á misskilningi eða vilja til að grafa undan samstöðu.
Sú fullyrðing að þessir samningar hafi leitt til „skipbrots“ er fjarri lagi rétt. Enda hefur launafólk tekið áhættu með þessum samningum, áhættu sem byggist á því að allir axli ábyrgð til að tryggja verðstöðugleika og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Eina skipbrotið sem hefur átt sér stað er að einstaka aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins hafa ekki axlað sína ábyrgð við að halda aftur af verðlagshækkunum, og nægir að nefna hækkanir tryggingarfélaga í því samhengi.
Staðreyndirnar tala sínu máli: Með samningunum tókst að stuðla að lækkun verðbólgu, sem skilar sér í lægri vöxtum og meira kaupmáttaröryggi fyrir heimilin. En betur má ef duga skal, og mikilvægt er að allir axli ábyrgð og taki þátt í að keyra verðbólguna og vextina hratt niður. Þar liggur mesti ávinningurinn fyrir launafólk, heimili og fyrirtæki.
Það er einmitt þessi tegund af samstilltu átaki sem getur gert íslenska hagkerfið stöðugra en ella og veitt svigrúm fyrir framtíðarþróun í atvinnulífi og nýsköpun.
Framkvæmdastjóri SFS virðist hins vegar horfa fram hjá þessum árangri og leggur einungis áherslu á þá þætti sem hún telur hafa mistekist. Slík nálgun er hvorki uppbyggileg né réttlát. Það er nauðsynlegt að gagnrýni byggi á staðreyndum og heildarsýn, frekar en að einblína á að krónutöluhækkanir verkafólks hafi verið of miklar. Að henda fram fullyrðingum um „skipbrot“, án þess að líta til þeirra jákvæðu áhrifa sem samningarnir hafa haft, grefur undan trausti og samstöðu sem nauðsynleg er til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Það er ekki hægt að neita því að margt er enn óunnið og að hægt væri að gera betur, en kjarasamningarnir eru mikilvægur grunnur að stöðugleika. Með því að halda áfram að vinna í anda ábyrgðar og samráðs má vonast til að árangurinn haldi áfram að batna. Óábyrg gagnrýni af þeirri tegund sem Heiðrún Lind hefur sett fram þjónar engum tilgangi nema að veikja samstöðuna og afvegaleiða umræðuna.