WHO er þar með komin í mikinn vanda því Bandaríkin hafa lagt mest af mörkum til stofnunarinnar, eða um fimmtung þess fjármagns sem hún hefur til umráða.
WHO er hluti af Sameinuðu þjóðunum og berst við sjúkdóma á borð við malaríu, berkla, HIV og inflúensu.
Stór hluti af starfsemi stofnunarinnar fer fram í Afríku en stofnunin gegnir einnig lykilhlutverki í alþjóðastarfi sem miðar að því að koma í veg fyrir nýja heimsfaraldra. Þá starfar stofnunin á átakasvæðum eins og Gaza.
WHO hefur sætt mikilli gagnrýni á síðustu árum, meðal annars fyrir viðbrögðin við heimsfaraldri kórónuveirunnar og fyrir hneykslismál í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem um 80 hjálparstarfsmenn, þar á meðal margir frá WHO, misnotuðu konur og stúlkur kynferðislega frá 2018 til 2020 þegar ebólufaraldur reið yfir.
WHO hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að vera svifasein stofnun þegar kemur að því að samþykkja notkun bóluefna gegn apabólu sem breiddist út í Afríku á síðasta ári. Stofnunin var meðal annars gagnrýnd fyrir að hafa ekki verið með nein bóluefni til reiðu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, þrátt fyrir að erlend lyfjafyrirtæki ættu mörg hundruð þúsund skammta á lager.
Trump hefur lengi haft horn í síðu WHO og hann dró Bandaríkin út úr starfi stofnunarinnar sumarið 2020 en hann tapaði síðan forsetakosningunum nokkrum mánuðum síðar og Joe Biden beið ekki boðanna með að ógilda ákvörðun Trump.
Ekki liggur fyrir hvort ákvörðun hans byggist á ráðum frá Robert F. Kennedy jr. sem verður heilbrigðisráðherra í stjórn Trump. Kennedy er andstæðingur bólusetninga og er talsmaður ýmissa klikkaðra kenninga, til dæmis að kórónuveiran sé fullkomið lífefnavopn sem ræðst á ákveðna þjóðfélagshópa en hlífi öðrum, til dæmis gyðingum.