Fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, gerði sér ljóst að hún ætti engan möguleika á að vinna formannskosningar í flokknum. Bakland hennar reyndist vera veikt og hún valdi rétt með því að gefa ekki kost á sér. Bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins renna nú af hólmi samtímis, gefast upp. Margir munu sakna Þórdísar úr forystunni því hún hefur reynst vera öfgalausari en margir forystumenn flokksins.
Orðið á götunni er að ekkert muni nú koma í veg fyrir blóðugan formannsslag milli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem munu innan skamms tilkynna um framboð sín. Þau hafa lengi eldað grátt silfur um forystu flokksins í Reykjavík þar sem Guðlaugur Þór hefur ávallt haft sigur. Áslaug Arna hefur þegar skipað kosningastjórn og þykist vera að hugsa sig um, hugleiða framboð og liggja undir feldi eins og fram hefur komið. Hún er löngu búin að ákveða framboð til formanns og komin á fullt í undirbúning með helstu stuðningsaðilum sínum sem eru einkum tengdir Morgunblaðinu, þar sem faðir hennar er stjórnarformaður í umboði ríku ekkjunnar í Vestmannaeyjum. Eins og kunnugt er eiga sægreifar blaðið og nýta það sér til framdráttar í pólitískum tilgangi. Það hefur alls ekki alltaf virkað eins og nýlegt dæmi sannar en Morgunblaðið barðist hatrammlega fyrir kjöri Katrínar Jakobsdóttur í embætti forseta sem mistókst fullkomlega síðastliðið sumar eins og kunnugt er.
Guðlaugur Þór Þórðarson er reyndasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þekkir innviði flokksins betur en flestir. Hann hefur í vetur tryggt stöðu sína í ýmsum félögum og stofnunum flokksins sem velja fulltrúa á landsfundinn. Talið er fullvíst að Guðlaugur Þór muni bjóða sig fram til formanns en sigurlíkur hans eru mjög góðar að þessu sinni. Guðlaugur Þór er þrautreyndur stjórnmálamaður og trúlega sá eini sem hefur burði til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í gegnum þann djúpa dal sem hann er nú í, valdalaus í stjórnarandstöðu á Alþingi og einnig valdalaus í máttlausri stjórnarandstöðu í borginni síðustu 15 árin. Hvoru tveggja svíður enda hafði flokkurinn öll völd fyrr á árum og er í eðli sínu valdaflokkur sem kann ekki að berjast í stjórnarandstöðu.
Orðið á götunni er að líklegt sé að fylkingar kunni að myndast á landsfundinum þar sem samstarf verði milli frambjóðenda um helstu embætti úr því að bæði formaður og varaformaður flokksins hafa axlað ábyrgð á fylgishruninu og dregið sig í hlé. Hvíslað er um þann möguleika að Guðlaugur Þór muni styðja Guðrúnu Hafsteinsdóttur í embætti varaformanns og Ólaf Adolfsson, fyrsta þingmann Norðvesturkjördæmis, í stöðu ritara. Með þessu yrði til blokk.
Talinn er möguleiki á að í kringum Áslaugu Örnu verði mynduð önnur blokk og Elliði Vignisson yrði varaformannsefni og Jens Garðar Helgason í stöðu ritara. Elliði var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, studdur af útgerðarveldinu þar, en hrökklaðist frá og tók við stöðu sveitastjóra í Ölfusi. Hann hefur oft verið orðaður við valdastöður í flokknum. Jens Garðar er nýr þingmaður Norðausturkjördæmis. Hann hefur starfað sem stjórnandi í dótturfélagi Samherja, var formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um tíma og hefur valist í mikilvægar stöður á vegum flokksins, en hann situr nú í stjórnum Landsvirkjunar og Íslandsstofu.
Síðastliðinn mánudag birti Morgunblaðið kostulega frétt yfir þvera blaðsíðu um væntanlegt formannsframboð Áslaugar Örnu. Þar var haft eftir henni að hún hafi „rætt við sjálfstæðisfólk um allt land á undanförnum dögum og fundið fyrir hljómgrunni, meðbyr og hvatningu. Og raunar einnig frá fólki sem stutt hefur aðra flokka …“
Ætli líklegt s að fólk sem styður aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn vilji að til formennsku í flokknum veljist öflugasti frambjóðandinn? Tæplega. Það er ávallt óskastaða að geta valið sér andstæðinga!
Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkurinn muni loga stafnanna á milli í aðdraganda landsfundar. Reynslan kennir að barátta milli Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu er ætíð blóðug. Nú reynir á það hvort er öflugra: Þrautreyndur Hulduher Guðlaugs Þórs eða valdablokkir sægreifanna.