Atburðarásin úti í heimi, ekki síst hvað varða afstöðu Noregs gagnvart ESB aðild og óvissuna vegna nýs Bandaríkjaforseta, getur haft áhrif á það sem gerist hér á landi varðandi komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, vill efla hagsmunagæslu Íslands innan EES og telur að það geti styrkt okkar stöðu gagnvart ESB. Kristrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Atburðir úti í hinum stóra heimi hafa áhrif á okkur, segir Kristrún. „Við erum náttúrlega mjög háð alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum þannig að við þurfum auðvitað að horfast í augu við það hvernig önnur lönd hreyfa sig. Það getur haft áhrif á okkur, svona valmöguleikamengið svo að segja. Auðvitað er þetta breyta inn í alla umræðu um alþjóðamál, hvort sem það snýr að alþjóðaviðskiptum, af því þú varst að tala um nýjan Bandaríkjaforseta, eða hvort það snýr að framþróun eða frekari breytingum á EES-samningnum, eða breytingum á stöðu okkar gagnvart ESB, þannig að það er auðvitað enginn vafi á því að þetta hefur allt áhrif.“
Hún segist þó telja að það skipti máli varðandi umræðuna um Evrópusambandið að við gefum okkur tíma til að taka hana á okkar forsendum. „Ytri áhrif munu auðvitað alltaf spila inn í, en fyrir mig, og ef ég tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í heild sinni, hvernig við nálgumst þetta verkefni, þá sjáum við þetta sem valkost fyrir þjóðina, að hún fái að segja til um það hvort við förum áfram með þessar aðildarviðræður og opnum þá enn frekar á inngöngu í Evrópusambandið. Fyrsta stigið er bara að spyrja þjóðina og ég held að þjóðin vilji fá tækifæri til þess að komast að þeirri niðurstöðu út frá því hvernig hún sér íslenskt þjóðlíf og tækifæri fyrir íslenskt þjóðlíf.“
Kristrún segist telja að umræða sem spretti af hræðslu við það sem gerist annars staðar geti stundum snúið upp á sig þó að slík umræða þurfi vissulega að vera til staðar.
En nú er þróunin í Noregi og í alþjóðamálunum slík að ESB er eitt kosningamálanna í Noregi í haust. Margt bendir til þess að Noregur geti innan tíðar orðið umsóknar- og jafnvel aðildarríki að ESB.
„Það getur alveg verið og auðvitað myndi það breyta mjög stöðunni innan EES.“
Já, EES er eiginlega á herðunum á Norðmönnum.
„Það eru skiptar skoðanir hvar þyngslin og mesta valdið er, en ég ætla ekki að taka fyrir það. Noregur hefur auðvitað mikil áhrif. Ég er reyndar á þeirri skoðun að við ættum að hafa enn þá meiri áhrif innan EES og gæta okkar hagsmuna enn meira, ekki síður vegna þess að ef fólk vill horfa jákvæðum augum til Evrópusambandsins þá skiptir máli að stjórnvöld sýni að það er raunveruleg hagsmunabarátta fyrir Ísland innan stærri sambanda, þannig að það útilokar ekki hitt, en auðvitað hefur þetta allt áhrif,“ segir Kristrún.
Hún segist telja að aðalmálið nú sé að þjóðin viti af því að stefnt sé að því að þessi valkostur verði boðinn upp. „Við viljum líka að það gefist tími til að ræða þetta. Ræða þetta á málefnalegum forsendum út frá bæði kostum og göllum. Á sama tíma sé líka andrými til að fara í raunverulega tímaviðkvæm mál; hraðar breytingar í velferðarmálum, við erum að tala um ákveðin úrræði sem við viljum hrinda í framkvæmd núna á þessu vorþingi sem snúa að húsnæðismálum, velferðarúrræðum og stöðu viðkvæmra í samfélaginu. Við tökum líka á því að styrkja verðmætasköpun í gegnum orkukerfið og styrkingu á flutningsmannvirkjum, allir þessir þættir og ég tala nú ekki um efnahagslegan stöðugleika.“
Kristrún segir mikilvægt að fólk finni að ríkisstjórnin sé með augun á þeim bolta en að sama skapi skapi hún svigrúm fyrir hina umræðuna. „Þetta mun án efa spinnast saman við það sem er að gerast, eins og þú segir, í Noregi og það sem mun gerast í Evrópu og Bandaríkjunum, og við viljum bara hafa þroska fyrir það, bæði í ríkisstjórninni og líka í íslensku samfélagi, að nota það til að dýpka umræðuna og við vitum auðvitað ekki nákvæmlega hvaða stöðu við stöndum frammi fyrir á næstu tveimur til þremur árum. Auðvitað er alltaf hægt að teikna upp einhverja sviðsmynd þar sem fólk verður enn þá jákvæðara gagnvart þessari atkvæðagreiðslu út af alþjóðlegri þróun, eða enn þá neikvæðara.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.