Full samstaða er um það í ríkisstjórninni að almannahagsmunir en ekki sérhagsmunir séu leiðarljósið. Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa myndað einstakt samband sem smitar út frá sér inn í þingflokka ríkisstjórnarinnar, sem formennirnir tala stundum um sem einn stóran þingflokk. Það þýðir ekki að ekki sé munur milli flokkanna eða jafnvel mismunandi blæbrigði innan flokkanna. Verð er að breyta verklagi við stjórn landsins. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Við höfum lagt mjög mikið upp úr því í þessum hópi, formannahópnum fyrst, svo í ríkisstjórnarhópnum og yfirfærum það á þennan stóra þingflokk, eins og við erum farnar að tala um það, að vera með þéttar raðir, að við hreyfum okkur eins mikið og hægt er sem einn maður. Auðvitað eru blæbrigði milli flokka, eðlilega, þetta eru sitthverjir flokkarnir. Það eru líka blæbrigði innan flokka, við erum ekki að gera þá kröfu að allir einstaklingar verði eins en ég held að það skipti máli að það samband sem við mynduðum milli okkar, formannanna þriggja, smiti svona svolítið út frá sér. Við þurfum að vera leiðtogar í þessum hópi. Við þurfum að vera líka fyrirmyndir fyrir aðra í ríkisstjórninni og síðan ríkisstjórnin fyrir þingmennina,“ segir Kristrún.
Hún segist skynja það að þjóðin hafi kallað eftir samhentri ríkisstjórn. Samstarfsandi geti haft gríðarleg áhrif á vilja fólks til verka og fólk vilji vita að það sé vinnufriður á stjórnarheimilinu.
Kristrún segir hina nýju ríkisstjórn vissulega koma að krefjandi stöðu í ríkisfjármálunum. Verkefnið sé hins vegar viðráðanlegt. „Ég held að það sé hins vegar bara mikilvægt, bæði fyrir ríkisstjórnina, meirihlutann, minnihlutann, þjóðina, að vita hver staðan raunverulega er. Það hver verið ákveðið viðhorf, eða vilji til þess að reiða sig á búhnykki, reiða sig á verðbólgu, hærra verðlag sem eykur tekjur ríkissjóðs, og nota væntar hagvaxtarspár til þess að eyða kannski aðeins meira en svigrúm er fyrir. Með því er ég ekki að gefa til kynna að það eigi alltaf að fara í einhvern stórkostlegan niðurskurð. Við erum bara að gera kröfu um það að þegar tekin er ákvörðun um að auka þjónustu að þá verði tekin meðvituð ákvörðun um að sækja tekjur einhvers staðar eða að fara í hagræðingu einhvers staðar og fyrsta verkefni þessarar ríkisstjórnar, sameiginlegt verkefni, var einmitt á fyrsta vinnudegi nýs árs að senda út skilaboð um samráð til almennings, núna samráð við stofnanir ríkisins, og síðan með samræmingarhópi sem tekur fyrri úttektir á ríkisrekstrinum saman og hnýtir saman við allt þetta samráð …“
Já, þið eruð einmitt að gera ykkar eigin úttekt.
„Við erum að gera okkar eigin úttekt. Við erum ekki að finna upp hjólið og það er margt sem hefur verið skoðað, sem við munum bara nýta, en við erum að tryggja að ríkisstjórnarsamstarfið og það hvernig okkur er mætt inni í ráðuneytum fari í þann farveg sem við viljum að það fari í vegna þess að það er mjög eðlilegt. Þú talaðir hér um í upphafsspurningunni að þetta væri mikið verkefni. Það er mjög eðlilegt og mannlegt að fólk labbi inn í ráðuneyti, orðið ráðherra, kannski í fyrsta skipti á ævinni eins og flestir í þessari ríkisstjórn, og þú vilt auðvitað bara aðstoð. Það er fullt af færu og mjög hæfu fólki sem vinnur í ráðuneytum, en það er búið að vinna í ákveðinn tíma undir ákveðnu verklagi og þó maður ætli ekki endilega að rífa allt upp frá rótum þá skiptir máli að ráðherrar og ríkisstjórnin hafi svigrúm til að setja sín eigin fingraför á ríkisreksturinn og þá skiptir máli hvernig þú ferð af stað,“ segir Kristrún.
Hún segir að þótt þingið sé ekki komið saman og því kannski ekki farið að sjást mikið til ríkisstjórnarinnar sé mikil vinna búin að vera í fullum gangi í öllum ráðuneytum allt frá því stjórnin tók við. Þar skipti ekki minnstu máli að verið sé að stilla og marka hvernig skuli unnið. „Verklag skiptir máli. Skipulag. Verkstjórn. Markmiðasetning.“
Það er verið að breyta verklagi?
„Það er verið að breyta verklagi. Ég ætla mér, og hef verið mjög skýr með það og það er alger samhljómur um það í formannahópnum og í ríkisstjórnarhópnum, að tryggja að það sé almennileg verkstjórn yfir þessari ríkisstjórn; það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar sem séu í fyrirrúmi en ekki staks ráðherra.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.