Íslendingum er ekki lagið að læra af reynslunni. Þeir eiga það til að herðast af mistökum sínum, og í stað þess að sýna mildi og æðruleysi, æða þeir áfram, uppvægir sem fyrr.
Sjókvíaeldisáráttan er sorglegt dæmi um þennan fárskap.
Og nú skal einmitt sénsinn tekinn í Seyðisfirði, þrátt fyrir aðvörunarorð úr svo að segja hvaða kima samfélagsins sem er. Ekki síst á meðal heimamannanna sjálfra fyrir botni eins tilkomumesta fjarðar landsins, sem skagar fimmtán kílómetra inn í elsta fjallgarðinn á Fróni, sveigður og þröngur, þar sem þorpið fagra kúrir á enda hans, undir bergrisanum Bjólfi.
Þarna er næsta mengunarslysi Íslands ætlaður staður, á einu virkasta aur- og snjóflóðasvæði landsins, sem einnig er þekkt af neðansjávarskriðum, hafís og lagnaðarís.
Andstaða mikils meirihluta íbúanna á staðnum – liðlega 75 prósenta þeirra – verður hundsuð eins og hvert annað nöldur sérvitringa. Og sama gildir um þá mótmælaöldu sem nú rís um land allt gegn því dýraníði og umhverfisslysi sem stafar af eldi fisks fyrir opnu hafi, í stað þess að tryggja því pláss á landi.
Í nýrri könnun Gallups kemur fram að 65 prósent landsmanna eru neikvæð gagnvart sjókvíaeldi en 14 segjast jákvæð. Tæp 60 prósent vilja ganga svo langt að banna sjókvíaeldi, og þá telja tæp 62 prósent velferð eldislaxa í sjókvíaeldi slæma. Andstaðan hefur ekki mælst hærri í könnunum Gallups frá því mælingar hófust.
Samt skal sénsinn tekinn. Og það þótt fyrir liggi að um fjórar milljónir eldislaxa hafi drepist í sjókvíðum við landið í fyrra, flestir ömurlegum dauðdaga eftir að hafa engst um netin með flakandi sár sín, af völdum lúsar og vetrarsára.
Þar fyrir utan hefur Hafrannsóknastofnun staðfest útbreidda erfðablöndun eldislax, sem sloppið hefur úr sjókvíum, við villta laxastofninn á Íslandi. Tölur þess efnis eru æpandi. Í rannsóknum á seiðum árið 2021 var erfðablöndunin komin í ellefu prósent í Hrútafjarðará, svo dæmi sé tekið.
„Svo er það sem íslenskast er. Hagsmunaaðilinn Kaldvík, sem áformar eldið í firðinum, hefur fengið að stýra stórum hluta af mati fjarðarins hvað varðar ofanflóð og siglingaöryggi.“
En nú skal herjað á austfirsku árnar.
Mestu skiptir auðvitað að Seyðisfjörður má ekki við þeim mannvirkjum sem eldið þarfnast, og hvað þá menguninni sem af þeim hlýst. Ef tíu þúsund tonna sjókvíaeldi verður leyft í Seyðisfirði mun það losa skólp á við 160 þúsund manns á ári, þar með talinn skít, fóðurleifar, míkróplast og lyf.
Þá munu kvíarnar í Seyðisfirði ógna samgöngum. Skemmtiferðaskip hafa oft þurft að leita vars í víkum fjarðarins, en það er mat reyndra sjófarenda fyrir austan að komi sjókvíar í víkurnar breytist Seyðisfjörður úr því að vera örugg siglingaleið í varasama.
Áreiðanleika Farice-sæstrengsins verður líka stefnt í voða, en hann varðar þjóðaröryggi Færeyja og Íslands. Akkerisfestingar sjókvíaeldisstöðva og umferð þjónustuskipa og annarra farartækja munu ógna öryggi strengsins, að mati rekstraraðila og sérfræðinga.
Svo er það sem íslenskast er. Hagsmunaaðilinn Kaldvík, sem áformar eldið í firðinum, hefur fengið að stýra stórum hluta af mati fjarðarins hvað varðar ofanflóð og siglingaöryggi, auk þess að hafa vanrækt upplýsingaskyldu til Farice vegna fjarskiptaöryggis. En það er ekki að spyrja að spillingunni.
Seyðisfjörður verður tíundi fjörðurinn á Íslandi sem verður þakinn sjókvíum. Gróði fárra verður mikill, en hagsmunir fólksins og náttúrunnar mega engu skipta.