Dagur B. Eggertsson getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar þótt honum hafi ekki verið úthlutað tilteknum embættum. Dagur hefur mikla reynslu úr borgarstjórn en er nýliði í landsmálunum eins og margir aðrir í þingflokknum. Aðrir hafa líka gríðarlega reynslu sem ekki má vanmeta. Oddvitar flokksins njóta forgangs í ráðherraembætti og nefndarformennsku og ekki gengur að allir ráðherrar flokksins komi af höfuðborgarsvæðinu. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir markvisst verið að breikka skírskotun Samfylkingarinnar sem nú hafi gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. Kristrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Hver er staðan milli ykkar Dags?
„Staðan milli okkar Dags er bara góð og hefur alltaf verið góð. Ég skil alveg þessa umræðu. Það er auðvitað oft þannig að pólitík snýst frekar um persónur og leikendur en málefnin, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða kannski persónur sem hafa verið mjög áberandi í íslensku þjóðlífi, en mér finnst sat mjög mikilvægt líka aðeins að stíga til baka og átta okkur á því að Samfylkingin samanstendur af 15 manna þingflokki og sex oddvitum og það er fullt af fólki þarna sem er með mjög víðtæka reynslu þrátt fyrir að það hafi ekki setið stóran lunga af sínum ferli.
Flokkurinn er samsettur einmitt með þessu fjölbreytta fólki til þess að geta byggt undir ákveðna stefnu og hvernig við vinnum þannig að fyrir mína parta; ég skil þessa umræðu, ég ætla ekki að segjast ekki skilja hana, en við verðum líka að hafa í huga að Samfylkingin stillti upp með ákveðnum hætti á sínum listum og er með sex oddvita og fólk er oddvitar af ástæðu og gegnir ákveðnu burðarhlutverki og það ætti ekki að koma neinum á óvart að fyrir flokk eins og Samfylkinguna, sérstaklega undir minni stjórn þar sem ég og stjórnin höfum lagt rosalega áherslu áherslu á að breikka flokkinn, ná út fyrir stór-Reykjavíkursvæðið, að það sé eðlilegt t.d. þegar ráðherratitlar eru veittir að horft sé til þeirrar stöðu að það komi ekki þrír eða fjórir eða fimm af höfuðborgarsvæðinu, við skulum bara byrja þar,“ segir Kristrún.
Hún bendir á að nú sé það svo að þrír af fjórum ráðherrum Samfylkingarinnar komi af höfuðborgarsvæðinu. „Það hefði verið mjög óeðlilegt ef allir hefðu komið af höfuðborgarsvæðinu eða ef ég hefði litið fram hjá oddvita í Kraganum eða öðrum oddvita í Reykjavík. Þetta eru bara svona praktísk mál sem mér finnst stundum vanta í þessa umræðu.“
Kristrún segir að varðandi formennsku í nefndum sé ekki óeðlilegt að litið sé til þess að þeir oddvitar, sem ekki urðu ráðherrar, og séu að bera uppi málstað sinna kjördæma, séu kallaðir til. „Ég myndi ekki lesa meira í það hvers konar embætti fólk er að fá en bara hverjir eru annars staðar fyrir. En ég skil alveg þessa umræðu. Ég kannski nálgast þetta öðru vísi. Hún segir þetta snúast um landsmálin, Samfylkingin sé að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga, nýr taktur sé að koma inn. „Dagur hefur gríðarlega verðmæta og víðfeðma reynslu á sviði borgarstjórnar en hann er alveg jafn nýr inn í landsmálin og ýmsir aðrir þarna líka. Hann hefur sjálfur sagt, sem mér finnst bara mjög virðingarvert af honum, að hann sé að koma inn sem liðsmaður, hann sé að koma inn til að styrkja stefnu flokksins á sviði landsmála og veit alveg að það er líka svigrúm til að vinna sig upp innan þeirra marka. Það eru bara svo margar breytur sem koma þarna inn.“
Hún segist alveg sjá fyrir sér að það sé fullkomið svigrúm fyrir Dag B. Eggertsson til að blómstra innan þingflokks Samfylkingarinnar þó að hann hafi ekki fengið ráðherraembætti og þó að hann verði ekki formaður í nefnd. Hún bendir þó á að ekki sé búið að tilkynna neitt um formennsku í nefndum.
„Fólk hefur auðvitað gaman af þessu, gaman að stilla hlutunum svolítið upp, hann er persóna í íslensku þjóðlífi, en höfum það líka í huga að þrátt fyrir alla hans reynslu þá nýtist hans reynsla mjög vel þó að hann fari ekki í ákveðin fyrir fram greind embætti. Höfum það líka í huga, af virðingu við aðra sem þarna eru, að það er gríðarlega mikil reynsla hjá öðrum í þingflokki Samfylkingarinnar.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.