fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Eyjan

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Eyjan
Laugardaginn 18. janúar 2025 17:20

Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Thomas Möller, fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar, skrifar nokkur orð um Evrópusambandsmál í DV 15. janúar síðastliðinn. Þar er sitthvað sem þarf að skýra og leiðrétta.

Kyndugt framfaraskref

Thomas telur upp skref í skref í Íslandssögunni, sem hann telur til framfara. Þar er heimastjórn árið 1904, fullveldi árið 1918 og lýðveldisstofnun árið 1944. Þessi skref eiga sameiginlegt að valdið færðist inn í landið, til manna sem sækja umboð sitt til fólksins í landinu. Það væri í meira lagi kyndugt ef stórfelld tilfærsla á valdi til útlanda, til aðila sem eiga nánast ekkert undir kjósendum á Íslandi væri líka framfaraskref, enda er það svo sannarlega ekki.

Fullveldi og sjálfstæði

Aðildarríki eru aðeins fullvalda í þeim málum sem Evrópusambandið hefur ekki áhuga á, og Evrópusambandið hefur áhuga á mjög mörgu og sífellt fleiru. Bálkar Evrópulaga fylla á annað hundrað þúsund blaðsíður og samkvæmt þeim dæmir Evrópudómstóll. Hann trompa ekki dómstólar heima í héraði. Þessar stofnanir láta sig varða allt mögulegt sem varðar auðlindir í Evrópusambandinu og ótalmargt annað. Lítil og miðlungsstór ríki í Evrópusambandinu, sem ekki hlýða þessum stofnunum, eru beitt refsiaðgerðum.

Útganga nánast ómöguleg

Fjölmargir valdamenn í Evrópusambandinu hafa lýst því með einum eða öðrum hætti að ekki sé gert ráð fyrir að aðildarríki yfirgefi sambandið. Bretar sluppu vegna þess að breskur markaður var mjög mikilvægur fyrir framleiðendur á meginlandi Evrópu, ekki síst í Frakklandi og Þýskalandi. Viðskiptin voru mikilvægari en fordæmið sem Brexit skapaði. Viðskipti við smáríki skipta litlu máli, þar ræður að skapa ekki fordæmi.

Valdaleysi

Íslendingar eru um 0,08% af íbúafjölda Evrópusambandsins. Fjöldi þingmanna á Evrópuþinginu tekur mið af íbúafjölda og vægi aðildarríkja í ráðherraráðinu ræðst að verulegu leyti af íbúafjölda þeirra. Íslendingar myndu vitaskuld nánast engu ráða í Evrópusambandinu ef þeir væru þar. Þótt Evrópusambandið sé að ýmissa mati ólýðræðislegt, þá yrði það aldrei svo ólýðræðislegt að Íslendingar fengju þar einhverju ráðið.

Ódýrir peningar

Engar vísbendingar eru um að upptaka evru lækki stórlega verð á lánsfé eins og Thomas gefur í skyn í grein sinni. Raunvextir eru mælikvarði á leiguverð peninga, og þeir hafa oft verið 1-2 prósentustigum hærri á Íslandi en víða annars staðar í Evrópu. Á það rætur að rekja til annarra þátta en stærðar myntsvæðis. Vextir eru reyndar breytilegir innan evrusvæðisins og það er mjög hæpið að gera út á að leiguverð peninga muni lækka sem neinu nemur við upptöku evru. Þá er það ekki svo að fé sem greitt er í vexti gufi upp. Mikill hluti vaxtagreiðslna á sér stað frá fyrirtækjum í vasa almennings sem geymdir eru í lífeyrissjóðum. Áhugamönnum um þessi mál má benda á grein Agnars Tómasar Möller „Mýtan um hávaxtakrónuna“ í Morgunblaðinu 20. nóvember 2024. Þar segir m.a. „En með hliðsjón af þróun langtímavaxta bendir hins vegar ekkert til að krónan sé sérstakur áhrifavaldur hærra vaxtastigs á Íslandi – þvert á móti…“ Það ætti að vera sérlega hægt um vik fyrir Thomas Möller að fá nánari útskýringar hjá Agnari Tómasi Möller í þessu máli.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Ekki leynir sér að hugmynd, a.m.k. sumra, er að blása til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt verður spurningar sem mörgum reynist erfitt að svara neitandi, jafnvel þótt þeir hafi engan áhuga á að verða þegnar í Evrópusambandinu. Með frjálslegri túlkun á niðurstöðunni er í kjölfarið ætlunin að halda í aðlögunarvegferð sem endar með óformlegri inngöngu í Evrópusambandið. Ef vitað er að áætluð ferðalok felast í að láta ýta sér fram af kletti er óþarfi að leggja í kostnaðarsamar viðræður um hvort það sé gott að fá sér heilsubótargöngu upp á klettinn.

Trúarhitinn

Ekki leynir sér að Thomas og þeir sem eru með honum í félagi bera í sér mikinn trúarhita og sjá frelsun í því að gömlu nýlenduveldin í Evrópu stjórni Íslandi. Almennt gildir að rétt er og auðvelt að sýna ólíkum trúarbrögðum virðingu og umburðarlyndi, alveg þangað til hinir trúuðu komast að því að þeir öðlist frelsun með því að stökkva fram a kletti og þurfi að taka aðra með sér. Þá er fjandinn laus. Thomas og sálufélagar hans ættu að hugleiða það.

Höfundur er formaður Heimssýnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum