Einfeldni í öryggis- og varnarmálum er ekki í boði, Heimsmyndin getur breyst og við Íslendingar verðum að skipa okkur í sveit með öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, telur það hafa verið gæfuspor þegar við Íslendingar beittum fullveldi okkar og urðum fullgildir aðilar að Nató 1949, fengum sæti við borðið. Einnig hafi tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin 1951 sýnt mikla framsýni ráðamanna þá.
Þorgerður Katrín segir margt sem Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segir vekja áhyggjur en hann hafi hins vegar haft hárrétt fyrir sér þegar hann fyrir fjórum árum sagði að evrópuríki þyrftu að auka framlög sín til öryggis- og varnarmála. Þorgerður Katrín er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Það er að mörgu að hyggja og við Íslendingar verðum að vera undir það búin að heimsmyndin kunni að breytast, að þetta fari hugsanlega í þetta gamla far ákveðinna stórvelda eða það verði lönd sem reyni að skipta heiminum sín á milli, og við þurfum bara að vera í hópi ríkja sem deilir með okkur sýn og gildum, og það eru náttúrlega vestræn lýðræðisríki, hvort sem það er Vestur-Evrópa eða Bandaríkin,“ segir Þorgerður Katrín.
Hún segist hafa fundið það á fundum sínum í Úkraínu, Póllandi og í Brüssel, bæði með Evrópusambandinu og Nató, að fólk haldi nokkuð niðri í sér andanum vegna þess að það viti ekki nákvæmlega hverju Trump muni taka upp á. „Það á kannski ekki að ráða mikið meira í orð hans heldur en nákvæmlega það sem orðin segja, og það er varhugavert, margt sem hann er að segja. Um leið verðum við líka að taka tillit til þess að það sem hann sagði m.a. fyrir fjórum árum varðandi Evrópu var algerlega hárrétt hjá honum, að Evrópuríkin þyrftu að gefa í þegar kom að framlögum til öryggis og varna. Þau hafa gert það og það var verið að tala um tvö prósent. Ég held að það séu 20-22 ríki í Evrópu sem eru í kringum það, ég held að Bandaríkin sjálf séu að verja kringum 3,5 prósent til sinna hervarna. Pólverjar eru í fararbroddi með meira en fjögur prósent til hervarna enda hafa þeir þurft að búa í návígi við rússneska björninn.“
Þorgerður Katrín segir Pólland og Eystrasaltsríkin hafa varað við því um langa hríð að það gæti gerst sem síðan gerðist en ekki fengið mikinn hljómgrunn vegna þess að fólk hafi ekki trúað því að Rússar myndu gera það sem þeir svo gerðu í Úkraínu. „Það breytir ekki því að við getum haft ýmsar skoðanir á Trump en hann hefur sagt margt í heimsmálunum sem er ekki alveg galið og við þurfum að taka alvarlega, fyrir utan það að Bandaríkin, þegar kemur einmitt að öryggi okkar og vörnum, eru okkar helsti bandamaður og við þurfum að rækta sambandið.“
Hún minnir á að grunnstoðirnar í vörnum Íslands eru þátttakan í Nató þar sem við séum fullgildir meðlimir, rödd við borðið sem sé svo dýrmæt rödd að hafa. „Við ákváðum það 1949 að beita okkar fullveldi þannig að röddin við borðið gæti hjálpað okkur meira heldur en ekki og ég er sannfærð um að það var algerlega hárrétt skref hjá okkur. Síðan er hin grunnundirstaðan í vörnum okkar Íslendinga tvíhliða varnarsamningurinn sem við gerðum við Bandaríkin 1951, líka mikil framsýni að mínu mati. Og raunsæ. Ég held að það sé eitt af því sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir, svo ég taki aðeins aukakrók, við stöndum frammi fyrir því eins og nágrannar okkar, að einfeldni í þessum málum – í öryggis- og varnarmálum – hún er ekki í boði.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.