Það er kostulegt að þrátt fyrir alla upplýsingu skulum við sífellt breyta gegn betri vitund. Dæmi: Við vitum öll fullvel hvaða fæða gerir okkur gott og hverskonar tros gerir okkur veik. Samt sem áður veljum við gjarnan það sem óhollt er og erum svo alveg rasandi hissa þegar heilsan gefur sig!
Við leitum til lækna vegna allskyns kvilla sem við vitum fullvel að eru vegna eigin lifnaðarhátta og þeirrar upplýstu ákvörðunar að raða ofan í okkur óhollustunni.
Það hlýtur að vera meira en lítið frústrerandi fyrir lækna að þurfa að segja fólki sífellt sjálfsagða hluti, hluti sem þeir vita að almenningur veit fullvel.
Sjúklingur: Ég er að drepast í maganum, mig svimar stanslaust, er með dúndrandi hjartslátt og ég er alltaf svangur. Mér er alltaf illt í hnjánum, andstuttur og svo sef ég illa og lítið.
Læknir: Hvað borðar þú öllu jafna?
Sjúklingur: Rusl, meira og minna. Skyndibita, ét á hlaupum, snakk, sælgæti og skola þessu niður með orkudrykkjum og gosi.
Læknir: Já, þetta eru ekki bestu kostirnir en ef þú breytir einfaldlega um mataræði þá myndi þér strax líða miklu betur.
Sjúklingur: Já, ég veit.
Læknir: Já, ég veit, þú veist. Af hverju ertu þá að þessu?
Sjúklingur: Er ekki til einhver lyf til að hjálpa mér svo ég þurfi ekki gera það sem er best fyrir mig? Svo ég þurfi ekki að taka ábyrgð á líðan minni sjálfur.
Læknir: Jú, reyndar eru þau til, en þau eru kostnaðarsöm fyrir þig og samfélagið og svo fylgja þeim aukaverkanir sem draga úr heilbrigði þínu enn frekar og jafnvel til langframa. Lyf sem hafa varanlega áhrif á getu líkamans til að lækna sig sjálfur. Viltu lyf frekar en að breyta bara um mataræði? Þótt þú vitir betur?
Það er á engan hátt erfiðara að teygja sig í epli eða appelsínu ef maður þarf orku en að teygja sig eftir súkkulaðistykki og samt veljum við oftar súkkulaðistykki umfram ávextina. Það gerum við upplýst og fullmeðvituð gegn betri vitund. Við borðum mat sem okkur líður ekki vel af trekk í trekk. Ef maður gerir hlutina alltaf eins þá fær maður alltaf sömu útkomu ekki satt?
Manneskjan er sannarlega skrýtin.
Við vitum líka að sælgæti gefur okkur aðeins augnabliks fró með tilheyrandi niðurtúr og aukinni svengd á meðan ávextirnir gefa okkur orku sem endist og nýtist líkamanum á uppbyggilegan hátt í mikið lengri tíma og án þess að skaða okkur á nokkurn hátt.
Nú veit mannkyn allt að sykur er ávanabindandi og skaðsamur í óhófi og samt sem áður borðum við allt of mikið af sykri. Hvers konar sjálfshatur er það? Og við gefum börnum líka allt of mikið af sykri þótt við vitum vel að það sé slæmt fyrir þau. Og það sem meira er við notum sykraðan mat alveg sérstaklega í umbunarskyni.
,,Elskan mín mér þykir svo vænt um þig að ég ætla að gefa þér eitraða sykurbombu í fallegum pakkningum sem mun valda þér fíkn, eyðileggja í þér viðkvæma bragðlauka og valda þér heilsufarslegu tjóni.“
Hvers konar klikkun er það? Af hverju er þetta ekki barnaverndarmál? Góð næring er undirstaða góðrar heilsu þetta vitum við! Það er eitt að eitra fyrir sjálfum sér en að eitra fyrir börnum, sem styttra eru komin í matvælavísindum og reiða sig á að við vitum hvað þeim er fyrir bestu, er náttúrlega bara kolbrjálað.
Af hverju í ósköpunum erum við ekki betri við okkur sjálf?
Mér er það ráðgáta hvers vegna heilbrigðisyfirvöld sem eiga nú að fara fram með góðar ráðleggingar til að auka lýðheilsu fólks fara ekki fram með meira offorsi hvað mataræði snertir til þess að fyrirbyggja ýmsa lífstílssjúkdóma. Og snúa sér að því til dæmis að gera innflutning á mannskemmandi fæðu torveldari.
Hvers vegna hækka ekki skattar á sykraðar vörur en skattar lækkaðir á alvöru fæðu? Við vitum öll hvers vegna. Vegna þess að ekki má styggja þá sem flytja inn óhollt rusl sem gerir fólk veikt, rusl sem fólk setur ofan í sig þrátt fyrir að vita betur. Markaðurinn nýtur meiri velvildar og stuðnings meðal ráðamanna en sjálfar manneskjunnar þrátt fyrir að heilsuvandi vegna slæmrar fæðu kosti samfélagið margfalt á við það sem það þyrfti að kosta ef við hefðum betra aðgengi að hollustu og erfiðara og dýrara væri að kaupa það sem óhollt er.
Hvers vegna leyfðar eru auglýsingar sem markaðssetja sykrað ruslfæði sérstaklega ætlað börnum þrátt fyrir að yfirvöld viti að sykur í óhóflegi magni eykur margfaldlega líkur á heilsuvanda hjá yngstu kynslóðinni svo sem eins og offitu, sykursýki, æðasjúkdómum og auðvitað meltingarvandamálum eða nákvæmlega sömu heilsufarsvandamálum og hjá fullorðnum.
Það er bull að erfitt sé að borða hollan mat á Íslandi. Nóg er framleitt af lítið sykruðu brauði og kexi, alls staðar er hægt að fá ávexti, rótargrænmeti, salöt, fisk og lambakjöt, grjón og baunir og fræ og ósykraðar mjólkurvörur eru til þótt meira sé framleitt af sykraða ruslinu sem er auðvitað ekki matur heldur sælgæti.
Það er lýðheilsumálið mesta að bæta aðgengi allra að hollum mat, með niðurfellingu tolla og skatta og hækkun tolla og skatta á ruslinnflytjendur og framleiðendur og svo þurfum við sjálf auðvitað að axla þá ábyrgð að vanda valið og velja það sem er okkur og okkar fyrir bestu og hætta bara að eitra fyrir okkur sjálfum glaðvakandi. Góð fæða er undirstaða góðrar heilsu og láttu því matinn þinn lækna þig.