Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi umhverfis- og orkumálaráðherra, gagnrýnir arftaka sinn í embætti, Jóhann Pál Jóhannsson vegna yfirlýsinga undanfarið. Segir hann Jóhann Pál ekki ætla að leggja fram fyrir þingið allar þær rammaáætlarnir um nýtingu orku sem tilbúnar eru, heldur bara eina í einu. Guðlaugur Þór segir Jóhann Pál einnig stæra sig af verkum fyrri ríkisstjórnar.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Guðlaugs Þórs í Morgunblaðinu í dag:
„Nýr orkumálaráðherra fer mikinn fyrstu dagana í embættinu. Það er í sjálfu sér vel ef hann fylgir því eftir með verkum. Það er sérstaklega ánægjulegt að hann virðist hafa yfirgefið stefnu og verk (eða verkleysi) Samfylkingarinnar í orkumálum. Ráðherrann kvartar undan því að rammaáætlun hafi loks verið samþykkt á síðasta kjörtímabili eftir níu ár. Já, það var fyrst eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók við ábyrgð á rammaáætlun sem hún var samþykkt á Alþingi, ásamt einföldunarfrumvarpi sem gerir það að verkum að nú er hægt að stækka virkjanir án þess að fara í gegnum rammaferlið.“
Guðlaugur Þór segir að Samfylkinging hafi á síðasta kjörtímabili ekki stutt við áform um fleiri virkjanir á síðasta kjörtímabili. Árangur hafi hins vegar náðst hjá fyrrverandi ríkisstjórn sem ný ríkisstjórn njóti góðs af núna:
„Sá árangur sem við náðum á síðasta kjörtímabili hefur leitt til þess að nú er verið að byggja bæði Hvammsvirkjun og Búrfellslund. Stóru orkufyrirtækin eru að stækka virkjanir á grunni lagabreytinganna. Kyrrstaðan er svo sannarlega rofin og það var ekki Samfylkingin sem rauf hana. Reyndar greiddu núverandi stjórnarflokkar ekki atkvæði með rammaáætlun, þannig að ef þeir hefðu náð sínu fram þá ríkti kyrrstaðan enn.
Á síðasta kjörtímabili voru skilaboðin frá meirihlutanum í Reykjavík, undir forystu Samfylkingarinnar, að það væri ekki réttlætanlegt að virkja meira. Síðasta ríkisstjórn Samfylkingarinnar gekk raunar þannig fram að hún breytti allri vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun og tók út álitlega virkjunarkosti og þá sérstaklega vatnsaflskosti og setti fjölda kosta í vernd. Einn þingmaður Samfylkingarinnar, Kristján Möller, lýsti þessum vinnubrögðum þannig að verið væri að að eyðileggja rammaáætlun. Við sjálfstæðismenn vorum sammála honum og börðumst gegn þessum skemmdarverkum Samfylkingarinnar en allt kom fyrir ekki.“
Guðlaugur Þór segir að kyrrstaða í orkumálum hafi verið rofin á síðasta kjörtímabili og ný ríkisstjórn sé því í öfundsverðri stöðu í upphafi kjörtímabil. Arftaki hans í embætti sé hins vegar að skreyta sig með stolnum fjöðrum:
„Staðreyndin er sú að á síðasta kjörtímabili var áralöng kyrrstaða rofin í orkumálum. Gríðarlega umfangsmikil vinna átti sér stað varðandi einföldun stofnanaskipulags og regluverks og grunnur var lagður að bjartri grænni framtíð í málaflokknum.
Það er ekki stórmannlegt af ráðherranum að reyna að blekkja fólk með því að staðan og búið sem hann tekur nú við séu hans verk. Hver verður að fá að fljúga eins og hann er fiðraður, en verst er ef fjaðrirnar eru stolnar.“