Rekstur Hofgarða ehf. gekk vel á síðasta ári. Hagnaður nam um 620 milljónum króna en tap að fjárhæð 58 milljónir króna var hjá félaginu árið 2023. Hér er því um mikinn viðsnúning til hins betra að ræða.
Félagið er að fullu í eigu Helga Magnússonar. Hofgarðar fást einkum við fjárfestingar í innlendum og erlendum verðbréfum og hefur verið starfandi í tuttugu ár.
Meðal eigna Hofgarða er allt hlutafé í Fjölmiðlatorginu ehf. sem hefur með höndum rekstur DV, Eyjunnar og fleiri vefmiðla og Hringbrautar. Rekstur Fjölmiðlatorgsins skilaði hagnaði að fjárhæð rúmlega einni milljón króna árið 2024. Hjá Fjölmiðlatorginu eru 18 störf. Engar breytingar urðu á hópi starfsmanna á síðasta ári.
„Þeir sem fjárfesta í verðbréfum vita að um áhættu er að ræða. Afkoma sveiflast oft til þannig að stundum horfast menn í augu við tap þó að markmiðið sé ávallt að ná viðunandi arðsemi og hagnaði. Hjá Hofgörðum tókst það á síðasta ári og nam hagnaður um 620 milljónum króna en 58 milljón króna tap var árið á undan. Bæði erlendar og innlendar fjárfestingar skiluðu góðri afkomu í fyrra. Íslenskur verðbréfamarkaður tók vel við sér á síðasta ársfjórðungi, einkum á síðustu vikum ársins. Bjartsýni ríkir á nýbyrjuðu ári þótt aldrei sé á vísan að róa í áhættufjárfestingum“, segir Helgi Magnússon.
Heildareignir Hofgarða ehf. nema rúmlega fjórum milljörðum króna.
Félagið er skuldlaust og eiginfjárstaða þess er því einnig rúmlega fjórir milljarðar króna.
Fjölmiðlatorgið ehf., útgáfufélag DV, er að fullu í eigu Hofgarða ehf.