Það vakti athygli í síðustu viku þegar gengið var fram hjá Degi, sem er fyrrverandi borgarstjóri, í kosningu um þingflokksformann flokksins.
Þetta gerðist eftir að Kristrún sendi skilaboð til mögulegs kjósanda flokksins í aðdraganda kosninga þess efnis að Dagur yrði ekki ráðherra og það væri hægt að strika hann út ef kjósendur flokksins vildu hann ekki á þing.
Sjá einnig: Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
Kristrún stóð við þetta og er Dagur í dag óbreyttur þingmaður þrátt fyrir alla sína reynslu.
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins segir þó augljóst að Dagur og stuðningslið hans ætli „ekki að sitja undir því þegjandi til lengdar“ að honum sé ætlað hlutverki áhorfandans í þingflokki Samfylkingarinnar á þessu kjörtímabili.
„Eða hlutverk aukaleikarans, eins og Kristrún Frostadóttir orðaði það fyrir kosningar og hefur fylgt eftir af stakri nákvæmni að kosningum loknum,“ segir í staksteinum dagsins þar sem einnig er vísað í færslu Oddnýjar Harðardóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem hún birti á Facebook-síðu sinni á föstudag.
Þar sagði Oddný:
„Ég hef fréttir að færa! Dagur B. Eggertsson verður aldrei aukaleikari á hinu pólitíska sviði. Reynsla hans, þekking og hæfni í stjórnmálum er meiri en svo.“
Bendir staksteinahöfundur á að margir stuðningsmenn Dags hafi tekið undir með Oddnýju og segir svo:
„Kristrún hefur raðað í kringum sig nýju fólki og hleypir engum reyndari að nema viðkomandi geti engin ógn orðið við formanninn. En þó að Degi hafi mistekist illa við stjórn borgarinnar er óvíst að formanninum takist til lengdar að halda honum úti í horni.“