fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði
Sunnudaginn 12. janúar 2025 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sagt er að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi. Þessa dagana koma þessi orð gjarnan upp í huga Svarthöfða. Seint verður því neitað að hann fylgist af áhuga með pólitíkinni. Hún er annars merkileg tík þessi pólitík. Ekki er á það treystandi að þeir sem búa yfir mestum verðleikum séu endilega þeir sem hafnir séu til mestra metorða á hinu pólitíska sviði.

Svarthöfði getur ekki neitað því að hann er hugsi yfir stöðu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra til 10 ára, sem haldið hefur Sjálfstæðisflokknum í valda- og áhrifalausri stjórnarandstöðu svo lengi sem margir kjósendur muna, jafnvel þeir sem eru komnir á miðjan aldur.

Einhverra hluta vegna virðist þetta afrek Dags ekki metið að verðleikum innan Samfylkingarinnar. Formaður flokksins átti í samskiptum við einhvern kjósanda í Grafarvoginum í aðdraganda kosninga í haust og lýsti því yfir að Dagur hefði enga rullu innan flokksins, hann væri aukaleikari sem fengi ekki hlutverk. Ekkert bendir til þess að þessi kjósandi hafi nokkurn tímann íhugað að gefa Samfylkingunni atkvæði sitt en engu að síður lítur út fyrir að hann hafi áorkað því að Samfylkingin er búin að setja einn sinn besta mann á bekkinn. Hann er ekki í byrjunarliðinu og fátt bendir til að honum verði skipt inn á, alla vega ekki í fyrri hálfleik.

Svarthöfði hefur lengi fylgst með pólitíkinni og telur sig nokkuð læsan á samtímann og söguna í pólitísku samhengi. Nú blasir við honum sú staðreynd að formaður Samfylkingarinnar hefur í raun úthýst öflugasta stjórnmálamanni flokksins síðustu 20 árin. Á sama tíma er Framsóknarflokkurinn í mestu forystukreppu sem hann hefur staðið frammi fyrir frá því … ja, sennilega nokkru sinni. Framsókn tapaði hrikalega illa í kosningunum og allir mögulegir framtíðarleiðtogar flokksins féllu af þingi. Það var í raun dauðadómur fyrir Framsókn, þegar þau tíðindi bárust upp úr hádegi sunnudaginn 1. desember að síðustu tölur í Kraganum felldu Willum Þór af þingi og Sigurður Ingi datt inn.

Framsóknarmenn vantar formann sem getur leitt flokkinn í stjórnarandstöðu næstu fjögur árin. Sá formaður verður að vera á Alþingi. Enginn slíkur kandídat finnst í þingflokki framsóknarmanna. Svarthöfða verður hugsað til þess að Dagur B. Eggertsson hefur taug inn í Framsóknarflokkinn. hann er ævisöguritari Steingríms Hermannssonar, sem óhætt er að segja að sé einhver ástsælasti leiðtogi flokksins og raunar þjóðarinnar. Dagur er líka borgarstjórinn sem hefur haldið völdum í borginni í gegnum þykkt og þunnt, súrt og sætt, og ávallt sótt nýja samstarfsflokka inn í meirihlutann þegar þurft hefur á að halda. Síðast sótti hann Framsókn og varð fyrstur allra til að gera framsóknarmann að borgarstjóra í Reykjavík.

Þá verður Svarthöfða einnig hugsað til tengsla Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Ræturnar eru hinar sömu. Samfylkingin er sprottin upp úr gamla Alþýðuflokknum og stofnandi hans var enginn annar en Jónas frá Hriflu, sem einnig stofnaði Framsóknarflokkinn. Jónas sá fyrir sér að Framsókn myndi sækja fylgi sitt til sveita og Alþýðuflokkurinn myndi höfða til þéttbýlisins. Því má segja að Samfylkingin og Framsókn séu í raun systurflokkar, alla vega eru þarna mikil og góð ættartengsl.

Nú er Samfylkingin í forystu fyrir ríkisstjórn og virðist ekki hafa not fyrir einhvern öflugasta stjórnmálaforingja landsins. Á sama tíma bráðvantar Framsókn nýjan leiðtoga. Hvað gera menn þá ekki fyrir vini sína og ættingja? Menn hlaupa vitaskuld undir bagga. Svarthöfði sér í hendi sér að Dagur B. Eggertsson er auðvitað sjálfsagður næsti formaður Framsóknarflokksins. Hann færir flokknum ekki bara forystu. Dagur verður líka þingmaður Framsóknar á höfuðborgarsvæðinu, nokkuð sem flokkurinn hefur ekki í dag.

Svarthöfða verður líka hugsað til Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins. Hann hóf stjórnmálaferil sinn í Framsóknarflokknum og varð forsætisráðherra. Síðar sagði hann skilið við Framsókn og gekk í Alþýðuflokkinn og sat á þingi fyrir hann í fjórtán ár áður en hann var kjörinn forseti Íslands, fyrsti þjóðkjörni forsetinn.

Svarthöfði telur fjarri að öll pólitísk sund séu lokuð fyrir Dag B. Eggertsson. Hann hefur úr ýmsu að velja og þeir sem vanmeta hann eða reyna að setja niður gætu átt eftir að sjá eftir því. Eftir næstu kosningar gæti Framsókn svo komið inn í ríkisstjórn.

Svarthöfði er sannfærður um að Jónas frá Hriflu yrði sáttur við þann ráðahag að Dagur B. Eggertsson taki við forystukeflinu í Framsókn, sem nú liggur lágt, og reisi flokkinn við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
15.12.2024

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum