Pólitíska sprengja vikunnar var tilkynning Bjarna Benediktssonar um að stíga til hliðar sem formaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður. Þegar í stað hófst síðan samkvæmisleikur um mögulegan arftaka Bjarna og má búast við að hann standi yfir næstu tvo mánuði eða fram að landsfundi flokksins í lok febrúar.
DV tók að sjálfsögðu þátt í leiknum, til gamans, og varpaði fram skoðanakönnun í byrjun vikunnar um heppilega arftaka. Valkostirnir voru helstu nöfn sem birst hafa í hinum ýmsu veðbönkum á netinu.
Sá sem hlaut flest atkvæði í skoðanakönnunni var að öllum líkindum ólíklegasti valkosturinn, Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrum borgarfulltrúi flokksins. 1.769 atkvæði eða 20,30%. Má fastlega gera ráð fyrir því að margir hafi greitt Gísla Marteini atkvæði sitt í hálfkæringi, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Þegar kemur að fólki sem ekki situr á þingi þá vekur athygli að Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, fékk þrusukosningu eða 12,54%. Heiðrún Lind hefur lengi verið orðuð við innkomu í stjórnmálin og spurning hvort að nú sé að opnast gluggi þegar Sjálfstæðisflokkurinn stendur á krossgötum. Þá hlutu Stefán Einar Stefánsson, fjölmiðlamaður, (8,69%) og Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri, (7,75%) einnig eftirtektaverða kosningu.
Margir eru á því að ólíklegt sé að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins eigi ekki sæti á Alþingi Íslendinga. Af þeim sem þar sitja hlaut Guðlaugur Þór Þórðarson flest atkvæðin, 12,33% en aðrir kandídatar á borð við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur (10,33%) og Guðrúnu Hafsteinsdóttur (9,33%) voru skammt undan. Helst er það kannski Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sem þarf að vera pínu uggandi yfir þeim vísbendingum sem mögulega felast í því að hún hlaut aðeins 6,87% atkvæða enda hefur hún sannarlega þann metnað að leiða Sjálfstæðisflokkinn.
Þótt mögulega megi lesa einhverjar vísbendingar út úr skemmtikönnunum sem þessum þá er eitt að minnsta kosti ljóst. Það eru margir um hituna varðandi leiðtogahlutverk innan Sjálfstæðisflokksins og næstu mánuðir verða afar áhugaverðir fyrir þá sem hafa áhuga á væringum innan Valhallar.
Hér geta lesendur kynnt sér niðurstöðurnar betur.