fbpx
Sunnudagur 27.apríl 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Dýralæknar, starfseiður þeirra og blóðmerahaldið

Eyjan
Sunnudaginn 27. apríl 2025 06:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir hafa heyrt um læknaeiðinn, en hann gengur út á heit og skyldur lækna gagnvart sjúklingum sínum, mannfólkinu, um að sinna þeim, heilsu þeirra og velferð, öryggi og vellíðan, á allan þann hátt sem þekking þeirra, færni og kunnátta leyfir.

Ég hygg hins vegar að færri hugsi mikið um eða kunni skil á skyldum dýralækna gagnvart dýrunum og réttindum þeirra til skjóls, verndar og lækninga af hálfu dýralækna.

Ég vil því gera nokkra úttekt á þessari stöðu, ekki sízt í ljósi þeirrar starfsemi, ég segi óiðju, sem í gangi er og kölluð er blóðmerahald.

Skyldur og heit dýralækna

Flestir dýralæknar í hinum vestræna heimi sverja, með hliðstæðum hætti og læknar gagnvart fólki, að gera allt sem í þeirra valdi stendur,til að forða sínum skjólstæðingum, dýrunum, frá vanlíðan og þjáningu, ógn og ótta, svo og lækna þau, tryggja vellíðan þeirra, öryggi og velfarnað, líka eftir fremsta megni.

Starfseiður dýralækna er lítillega breytilegur eftir löndum, en þar sem við tilheyrum EES liggur fyrir að skyldur íslenzkra dýralækna gagnvart blessuðum dýrunum helgast í minnsta falli af þeim.

EES-starfseiður dýralækna

Starfseiður dýralækna skv. EES-reglugerðinni hljóðar ca. svona:

„Ég sver hátíðlega að nota vísindalega þekkingu mína og færni í þágu dýraheilbrigðis og dýravelferðar, til að koma í veg fyrir og lina þjáningar dýranna, til verndunar þeirra auðlinda, sem dýrin eru, og eflingu lýðheilsu.

Ég mun stunda starf mitt af samviskusemi og með reisn í samræmi við siðareglur dýralækna. Ég mun leitast við að bæta hæfni mína og halda uppi heilindum og virðingu dýralæknastéttarinnar. Ég samþykki og staðfesti skyldur mínar við dýrin, svo og skjólstæðinga og samstarfsmenn og mun ég ekki leyfa faglegum eða persónulegum hagsmunum að hafa áhrif á eða rýra skyldur mínar.“

Siðareglur Dýralæknafélags Íslands

Þá er vert að líta á helztu punktana varðandi vernd og velferð dýranna í siðareglum, Codex Ethicus, Dýralæknafélags Íslands:

„1.

Dýralæknir skal hafa vakandi auga með því, að farið sé vel með öll dýr, þau séu ekki hrekkt, meidd eða kröftum þeirra og þoli ofboðið. Hann skal beita sér fyrir því, að í aðbúnaði húsdýra sé tekið tillit til þekkingar um náttúrulegt atferli dýranna, er tryggi þeim góða vist. Dýralæknir skal gæta þess, að ekki sé gengið svo nærri getu dýra að heilsa þeirra skerðist. Sjálfur skal dýralæknir vera til fyrirmyndar í umgengni við dýr.

2.

Dýralæknir skal skal einungis framkvæma þær læknisaðgerðir, sem réttmætar teljast og eru í samræmi við viðurkenndar starfsaðferðir dýralækna.

4.

Við tilraunir skal dýralæknir ávallt gæta velferðar dýra og forðast að valda þeim sársauka eða ótta.

10.

Dýralæknir skal leitast við að mynda sér ígrundaða skoðun á stöðu og rétti allra dýra á hverjum tíma í lífríkinu. Hann skal eftir fremsta megni leiðbeina almenningi, félagasamtökum og löggjafanum um meðferð og aðbúnað dýra þannig að velferð þeirra sé tryggð.“

Hvað er blóðmerahald – Hvernig er blóð tekið?

Blóðmerahald byggist á því að blóði er tappað af fylfullum merum, sem líka eru mjólkandi og með folaldi, 5 lítrum í senn, vikulega, 8 sinnum hvert haust, en hver einstök blóðtaka jafngildir tæplega 20% af heildarblóðmagni hryssunnar.

Þetta hefur verið gert þrátt fyrir það að fræði- og vísindamenn telji að mest megi taka 10% af blóði hryssu á mánaðar fresti, í okkar tilviki um 2,5 lítra, í stað 20 lítra, og er þá átt við fullfríska hryssu, sem hvorki er fylfull né mjólkandi með folaldi.

Hér er, sem sagt, allt að 8-földu magni þess blóðs, sem eðlilegt væri talið að taka mætti úr fullfrískri meri, sem hvorki væri fylfull né mjólkandi, er tappað af hryssum sem eru bæði fylfullar og mjólkandi

Við þetta bætist svo það ofbeldi og þær meiðingar, sem dýrin eru beitt – þetta eru mest villtar merar og allar með folaldi sem þær óttast um – til að koma þeim í blóðtökubás og negla þær þar. Dugar þá oft ekki minna en barsmiðar, högg og spörk, og er oft gripið til priks eða stangar, líka reipa, ef meri er stygg, hrædd eða fælin.

Eru þeir áverkar, sem dýrunum eru veittir við blóðtöku vikulega um 8 vikna skeið, með hálfs sentímetra breiðri blóðtökunál, sem rekin er í gegnum margfalda húð og svo inn í slagæð dýrisins, og haldið þar með valdi í minnst 15 mínútur, ótaldir.

Hvað er svo gert með blóðið?

Þetta blóð er síðan notað til að framleiða frjósemislyf aðallega fyrir svín; með þeim er hægt að rjúfa tíðarhring gylta og þannig neyða gyltur til að eiga fleiri grísi og oftar en náttúrlegt væri. Fæðingarnauðung til að auka kjötframleiðsluna og gróða á kostnað velferðar dýranna. Þetta er því líka illþyrmilegt dýraníð, heiftarleg misnotkun svína.

Hverjir stjórna svo, framkvæma og bera ábyrgð á blóðtökunni?

Jafn ótrúlegt, lygilegt, og það er – ekki er með neinu móti hægt að flokka þessa hörmungar blóðtöku og það kvalræði sem með henni er lagt á dýrin undir vernd eða nauðsynlegar lækningar – eru það einmitt dýralæknar landsins, flestir eða allir sennilega í Dýralæknafélagi Íslands, sem stjórna, framkvæma og bera ábyrgð á blóðtökunni og þar með starfseminni allri.

Fyrir undirrituðum er þetta ofbeldi og þessi misnotkun varnarlausra dýra, undir stjórn og á ábyrgð dýralækna landsins – þvert á starfseið þeirra og skyldur – með algjörum ólíkindum. Dýralæknar heita að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja vernd og velferð dýranna. Önnur eins svik, smán og skömm. Svei.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín: Leiðréttingin risaskref í átt til verðmætasköpunar fyrir samfélagið

Hanna Katrín: Leiðréttingin risaskref í átt til verðmætasköpunar fyrir samfélagið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín: Lélegir innviðir Þrándur í Götu ferðaþjónustunnar

Hanna Katrín: Lélegir innviðir Þrándur í Götu ferðaþjónustunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Raunheimar forstjóra og ráðherra

Þorsteinn Pálsson skrifar: Raunheimar forstjóra og ráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðmundur Ingi Kristinsson: Eitt barn á bið er einu barni of mikið – getur snúist upp í fjölskylduharmleik

Guðmundur Ingi Kristinsson: Eitt barn á bið er einu barni of mikið – getur snúist upp í fjölskylduharmleik
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðmundur Ingi Kristinsson: Það er í lagi að gera mistök – lærum af þeim og gerum betur

Guðmundur Ingi Kristinsson: Það er í lagi að gera mistök – lærum af þeim og gerum betur