Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætti í vikunni í hlaðvarpið Sjókastið og sagði þar að sér hefði krossbrugðið þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, tilkynnti um slit ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.
Svandís sagði að í aðdragandanum hafi formenn ríkisstjórnarflokkanna fundað í stjórnarráðinu og þar farið yfir tiltekin átakamál sem þá voru á borðinu. Svandís og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hafi bæði verið á því að hægt væri að finna lausn. Þetta átti sér stað á laugardegi en Bjarni tilkynnti um ákvörðun sína á sunnudeginum.
„Mér krossbrá og ég hugsaði með mér: þetta er ekki heiðarlegt, að sitja með okkur á fundi og láta okkur tala um það hvernig hægt sé að laga hlutina og gera þetta svo svona.“
Svandís hafi í kjölfarið borið það undir þingflokk sinn hvort Vinstri græn ættu að taka sæti í starfsstjórn fram að kosningum eða stíga út úr samstarfinu. Þingflokkurinn valdi seinni kostinn.
Björn Bjarnason fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokks segir að það sé stórt gat í frásögn Svandísar. Hún hafi sleppt því að nefna að nokkrum dögum fyrir stjórnarslitin hafði hennar eigin flokkur ályktað gegn stjórnarsamstarfinu á landsfundi með þeim fyrirvara að það ætti að vera í höndum flokksins hvenær ályktunin kæmi til framkvæmda með stjórnarslitum.
Björn skrifar á bloggi sínu:
„Allir sáu að með þessari samþykkt var stjórnarsamstarfinu sjálfhætt. Að Svandís reyndi þá að klóra í bakkann með því að neita að sitja í starfsstjórn og öðru klúðri varð til þess að flokkur hennar kolféll í kosningunum. Enginn getur tekið tapið frá flokksformanninum – sama hvað hlaðvarpssamtölin verða mörg.“
Björn tekur fram að það sé upplausn lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Þetta sé augljós staðreynd og marki tímamót eftir 94 ára setu kommúnista og sósíalista á Alþingi.
Framtíð Vinstri grænna sé óráðin sem og Sósíalistaflokksins þar sem allt logi í illdeilum þessa dagana. Það sé þó einhver sjálfsskoðun í gangi innan raða sósíalista.
„Sólveig Anna Jónsdóttir, einn stofnenda Sósíalistaflokksins ásamt Gunnari Smára Egilssyni og Viðari Þorsteinssyni, sagði sig úr flokknum á dögunum. Má rekja það til andúðar Sólveigar Önnu á vókisma, það er vorkunnar- og vælumenningunni sem hefur grafið um sig meðal vinstrisinna hér eins og víða annars staðar. Frægt er þegar Sólveig Anna sló Hallgrím Helgason rithöfund út af laginu vegna vókisma hans í hlaðvarpsþætti á dögunum.“
Það sama eigi þó ekki við um Vinstri græna. Svandís mæti nú í hvert hlaðvarpsviðtalið eftir annað og sýni þar skýrt að flokkurinn ætli ekki að horfast í augu við tapið eða skipta um gír í þessum woke-málefnum. Þess í stað reyni Svandís að finna blóraböggul til hægri – Sjálfstæðisflokkinn.
„Af því sem sagt er af samtölunum við Svandísi Svavarsdóttur verður ekki ráðið að neitt sambærilegt uppgjör fari fram innan VG og í Sósíalistaflokknum, enda fær VG ekki neina opinbera fjármuni til að draga fram lífið. Þegar flokkar eða félög lepja dauðann úr skel stofna flokksmenn sjaldan til uppþota, lífsbaráttan á allan hug þeirra.
Það er verra að fréttir af samtölunum beri þess ekki merki að formaður VG líti í eigin barm og á stefnu eigin flokks þegar leitað er skýringa á örlögum flokksins. Engu er líkara að þau hafi verið í höndum annarra, einkum sjálfsæðismanna.“
Það sé eitt að leggja stund á woke til að vinna sér inn vorkunn, annað sé að kenna Sjálfstæðisflokknum um eigin ófarir.