Stundum er öll vitleysan eins. Sérstaklega sú sem hverfist um ótta íhaldsaflanna í heimi hér við vit og vísindi, svo og skapandi hugsun, og raunar listrænt frjálsræði af öllu tagi.
Þessi bagalegi beygur raungerist nú með fáheyrðum fautagangi vestur í Bandaríkjunum. Augljóst er að nýjum valdhöfum í Washington er beinlínis í nöp við rannsóknir fræðimanna, ritrýndar ályktanir og akademíska hugsun af hvaða tagi sem er. Í sem skemmstu máli virðast þeir vera á móti þekkingu.
En þetta er auðvitað eðli fasískra gilda. Einræðisherrann hefur alltaf rétt fyrir sér – og er einn um það.
Haldi aðrir öðru fram, ber í besta falli að afnema starfsemi þeirra, fangelsa andstæðingana, en drepa þá ella. Gleymum því aldrei að í nasisma síðustu aldar var ekki nóg að tukthúsa blaðamenn, fræðimenn, hugsuði, heimspekinga og rithöfunda, fyrir engar aðrar sakir en að starfa sjálfstætt, heldur var séð til þess að þeir kæmust aldrei í skriffæri innan veggja dýflissanna svo þeir gætu haldið áfram að krota niður fría hugsun sína.
Frjálst orð og atgervi fellur nefnilega alltaf fyrst, í aðdraganda einræðis.
Það sem nú er að gerast í Vesturheimi er endurtekning sögunnar. Nefnilega þetta: Bandaríska alríkisstjórnin hefur á hundrað dögum stöðvað óheyrilegan fjölda vísindarannsókna, á öllu frá smitsjúkdómum til loftslagsbreytinga, ýmist með stórtæku fjársvelti til rannsakenda eða með banni við því að fræðasetrin styðji verkefni sem ganga á svig við pólitíska hugmyndafræði núverandi valdhafa, svo sem þá sem lýtur að fjölbreytileika og jafnrétti.
Fyrir vikið er sjálfstæðisbarátta háskólanna hafin. Varðstaðan um löngu viðurkennd gildi í vestrænum veruleika er byrjuð að taka á sig mynd sem alla jafna þætti óhugsandi í okkar heimshluta. Alan M. Garber, forseti Harvard-háskóla, auðugustu menntastofnunar Bandaríkjanna, hefur skorið upp herör gagnvart „fordæmalausu ofríki og afskiptasemi“ stjórnvalda af háskólum. Og enda þótt einhverjir veiklundaðir skólamenn hafi lúffað, af ótta við frystar fjárveitingar, standa forvígismenn flestra virtustu og öflugustu háskólanna í lappirnar, og spyrna raunar við fótum. Sjálft frelsið er í húfi, og einmitt þau einkunnarorð að vísindin efli alla dáð.
„En þetta er auðvitað eðli fasískra gilda. Einræðisherrann hefur alltaf rétt fyrir sér – og er einn um það.“
Þeir neita að fara að geðþótta stjórnlyndra íhaldsafla sem eru uppfull af sjálfum sér – og hafa ímugust á viti annarra, enda sér háskólaforystan fyrir sér hræðilegar og langvarandi afleiðingar þeirrar frelsissviptingar sem virðist vera yfirvofandi. Washington skal ráða mannahaldi í háskólum landsins, bæði kennurum og nemendum, svo og námskrá, og það sem meira er; hvað má rannsaka og hvað skal falla utan athygli færustu fræðimanna.
Einu gildir hvort stöðva skuli rannsóknir á alvarlegustu sjúkdómum nútímans á borð við Alzheimer og Parkinson, sem Harvard-skóli hefur leitt um árabil, því ef þær eru ekki ofríkinu að skapi, ber að afnema þær. Brenna niðurstöðurnar á báli. Og sama á við um helstu krabbamein í börnum.
Það er auðvitað í anda alls þessa, að á sama tíma og Washington bannar vitið, blossar upp mislingafaraldur í íhaldssamari ríkjunum vestanhafs, vegna hnignandi þátttöku í bólusetningum gegn þeim og öðrum algengum barnasjúkdómum, sem sagan tekur af öll tvímæli um að geta verið banvænir, hafi ungviðinu ekki verið hlíft við þeim.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að bólusetningar hafi komið í veg fyrir sextíu milljón dauðsföll vegna mislinga frá 2000 til 2023.
Jafnvel þetta er í húfi.
Af því að einræði íhaldsins veit allt betur.