fbpx
Föstudagur 25.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Áminning á sumardaginn fyrsta

Eyjan
Föstudaginn 25. apríl 2025 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Okkur er talin trú um að fortíðin móti okkur og satt er það að hún er hluti af okkar sögu. En að fletta stöðugt upp í þeirri sögubók er jafn tilgangslaust og að reyna að afstýra því sem orðið er. Fortíðin er dálítið eins og VHS spóla – ef þú reynir að spóla til baka og laga atriðið þar sem þú steigst í hundaskít ertu á villigötum. Þú steigst í hundaskít, það er öruggt og farðu nú með VHS tækið á haugana.

Að hugsa of mikið um fortíðina er því eins og að reyna að semja frið í rimmu sem er löngu afstaðin. ,,Hvað ef Napóleon hefði verið kona?“

Fortíðin þarf því ekki að stjórna framvindunni frekar en við viljum. Það sem er liðið er búið, en hvað svo?

Það er versta afsökun í heimi að segja að eitthvað sé bara eins og það er, og við það sitji. Sú afsökun er jafn heimskuleg eins og að ætla sér að vinna maraþon sitjandi á rassinum.

Ég stýri minni líðan á hverjum degi með því að velja af kostgæfni hvernig ég bregst við hverju sinni. Með svörum mínum, viðbrögðum og gjörðum. Stundum gengur mér vel en aðra daga gengur mér bölvanlega. Hvort tveggja er ásættanlegt, eðlilegt og umfram allt mannlegt. Lífið er ekki próf sem þú þarft að standast heldur stöðugt sköpunarferli.

Allt sem ég veiti athygli vex og dafnar hljómar klisjukennt en er sannleikur eftir sem áður. Ætla ég að verja tíma mínum í að hugsa um vanda sem ég ræð ekki við eða freista þess heldur að leysa sjálfa mig úr fjötrum eigin vandræðagangs?

Þegar ég er ekki viss um hvað taki við næst, þá er það ekki merki um að eitthvað sé að, heldur miklu frekar að andrými sé að skapast. Í því rými getur eitthvað nýtt orðið til. Óvissu þarf því ekki að óttast – öðru nær. Óvissa opnar ný tækifæri, möguleika til sköpunar.

Tilurð alheimsins endurspeglar sjálfa sköpunina og manneskjur eru því eins og allt annað, ófullkomnir en lifandi fulltrúar sköpunarinnar sjálfrar. Ég þarf aldrei að taka sjálfa mig of hátíðlega því ég er verk í vinnslu. Ég hef alltaf val; að byggja mig upp eða rífa mig niður.

Ég þarf ekki að verða fullkomin aðalpersóna í eigin tilveru en ég má aldrei gleyma að skemmta mér í eigin sögu og spyrja stöðugt: Hvað ef …? Því það er aldrei of seint að kasta frá sér hugmyndum sem gagnast manni ekki lengur. Það er aldrei of seint að líta í aðra átt. Það er aldrei of seint að byrja upp á nýtt.

Það er aldrei of seint að taka sjálfa sig í fangið og segja við sig með hlýju: Já, ég get gert þetta svona, eins og áður, og þá veit ég nokkurn veginn hvernig fer – eða ég reyni aðra nálgun og sé hvað hún færir mér. Það gerir lífið spennandi.

Að gefa áhyggjum minna súrefni er ekki kæruleysi heldur ber vott um hugrekki. Áhyggjur eru eins og papparör í glasi – þær leysast upp. Áhyggjur eru eins og að senda SMS til draugs í von um svar. Áhyggjur eru eins og að tannbursta sig með hárburstanum. Áhyggjur eru því vita gagnslausar. Ég ætla heldur að treysta sjálfri mér til að takast á við hlutina, ekki áður en þeir gerast, heldur þegar eða ef að þeim kemur.

Ég ætla skilyrðislaust að elta það sem færir mér gleði og kveikir í mér neistann. Ég ætla að sniðganga og sleppa því sem ekki nærir og gleður. Svo ætla ég að vera góð við sjálfa mig, því ég veit best hvað lætur mér líða vel. Umfram allt ætla ég að leitast við að vera heiðarleg við sjálfa mig og standa með mér í blíðu og stríðu.

Því ef sumarið getur fæðst að vetri loknum ár eftir ár, þá get ég það líka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hleypur í skarð Pírata

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hleypur í skarð Pírata
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð
EyjanFastir pennar
21.03.2025

Steinunn Ólína skrifar: Höfnum vansældarviðskiptum og veljum vellíðan

Steinunn Ólína skrifar: Höfnum vansældarviðskiptum og veljum vellíðan
EyjanFastir pennar
20.03.2025

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík