Þegar frækornið datt á unga litla sagði hann: „Himinninn er að hrynja.“
Þegar ný ríkisstjórn tilkynnti að gjald fyrir einkarétt til að nýta sameiginlega fiskveiðiauðlind landsmanna ætti að hækka um tíu milljarða króna hrundi himinninn yfir skrifstofur Samtaka fyrirtækja i sjávarútvegi.
Fólkið á skrifstofunni sá sjávarútveginn okkar hverfa, vélsmiðjuna okkar hverfa, heilsugæsluna okkar hverfa, bakarann okkar hverfa, íþróttahúsið okkar hverfa, skólann okkar hverfa, höfnina okkar hverfa, búðina okkar hverfa og sjálfa lífshamingjuna hverfa.
Kannski sér starfsfólkið ekki aftur til sólar nema nýja ríkisstjórnin kúvendi stefnu sinni.
Verði ríkisstjórnin þvinguð til þess þarf hún annað hvort að hverfa aftur til skuldasöfnunar að hætti gömlu ríkisstjórnarinnar eða flytji skattheimtuna yfir á vélsmiðina, hjúkrunarfræðingana, bakarana, kennarana, hafnarstarfsmennina og afgreiðslufólkið.
Skynsamleg rök fyrir pólitískri kúvendingu af því tagi eru vandfundin. Þess vegna tala starfsmenn SFS yfir hausamótunum á stjórnvöldum með yfirþyrmandi ísætri auglýsingaherferð fremur en að eiga uppbyggilegt efnislegt samtal við þjóðina og ríkisstjórnina.
Umfangsmikil hagræðing er líka óhjákvæmileg til að hverfa frá skuldasöfnunarstefnunni.
Mesta óráðið væri að víkja af nýrri braut ábyrgrar ríkisfjármálastefnu. Þá myndi þjóðin ekki sjá til sólar.
Mikilvægt er að hafa í huga að veiðigjaldið er ekki skattur. Það er einfaldlega gjald, frádráttarbært frá skatti, fyrir einkaaðgang að auðlindinni. Auðlindin er lögum samkvæmt sameign þjóðarinnar.
En hvað er lágt gjald, hóflegt gjald eða hátt gjald?
Lögin, sem gamla ríkisstjórnin setti, gera ráð fyrir að veiðigjaldið standi undir þeim kostnaði, sem fellur á ríkissjóð vegna fiskveiða og skili að auki nokkru framlagi til annarra almennra verkefna.
Í dag stendur gjaldið tæplega undir beinum kostnaði ríkissjóðs. Einhver hækkun er því óhjákvæmileg til þess að uppfylla þetta lagaskilyrði gömlu ríkisstjórnarinnar.
Hún hafði því lagt til hækkun um fimm milljarða króna. Það eru svo þessir fimm milljarðar í viðbót frá nýju ríkisstjórninni sem valda því að himininn er að hrynja.
Auðlindagjaldið ætti meðal annars að ráðast af því til hversu langs tíma einkarétturinn til veiða nær. Í raun er þetta kjarni deilunnar.
Vandinn er aftur á móti fólginn í hinu að lögin kveða skýrt á um að einkarétturinn sé afturkallanlegur hvenær sem er, en útgerðin lítur svo á að hann eigi að vera ævarandi.
Með hæfilegri einföldun má líta svo á að gjaldið með þeirri hækkun, sem gamla ríkisstjórnin ráðgerði, sé hæfilegt miðað við að einkarétturinn sé afturkallanlegur fyrirvaralaust.
Trúlega gæti viðbótarhækkun nýju ríkisstjórnarinnar endurspeglað hæfilegt gjald fyrir einkarétt í tiltekinn tíma. Það gæti verið lögvarinn fyrirsjáanleiki til dæmis í tuttugu ár.
Fyrir ævarandi einkarétt án tímabindingar eða án heimildar til afturköllunar þyrfti að koma talsvert hærra gjald. Hvorugt er til umræðu.
Með því að einkaréttinn má afturkalla hvenær sem er hefur útgerðin engan lögvarinn fyrirsjáanleika. Hluti veiðiréttarins hefur þannig smám saman verið færður frá stærri útgerðum til smábáta.
Auðlindanefndin undir forystu Jóhannesar Nordal lagði til að einkarétturinn yrði tímabundinn með samningum, sem nytu stjórnskipulegrar verndar sem takmörkuð eignarréttindi. Ævarandi einkarétt taldi hún ekki vera í samræmi við lagaákvæðið um sameign þjóðarinnar.
Starfsmenn SFS hafa um árabil hafnað hugmyndum um lögvarinn fyrirsjáanleika. Þeir hafa á hinn bóginn valið þá leið að eyða miklum peningum og fyrirhöfn fyrir hverjar kosningar til að knýja á um pólitísk loforð um óbreytt ástand næstu fjögur ár.
Síðustu kosningarnar fóru öðruvísi en þeir ætluðust til. Þess vegna efna þeir núna til rándýrrar auglýsingaherferðar eftir kosningar. Eins og unga litla finnst þeim raunverulega að himininn sé að hrynja.
Ríkisstjórnin ætlar að leggja á gjald sem ætla má að sé hæfilegt fyrir lögvarinn einkarétt í afmarkaðan tíma.
Í því ljósi vekur eftirkosningaherferðin eina spurningu: Gæti ekki verið vænlegra fyrir sjávarútveginn að kalla eftir samtali við stjórnvöld um lögvarinn fyrirsjáanleika, sem eyða myndi ríkjandi lagalegri óvissu um lengd einkaréttarins?
Kannski eru átök í hverjum kosningum óþörf.