fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Margir vilja Guðlaug Þór í forystu í borginni – út með alla núverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Eyjan
Fimmtudaginn 24. apríl 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Innan Sjálfstæðisflokksins telja æ fleiri að flokkurinn mundi ná bestum árangri í borgarstjórnarkosningum að ári ef Guðlaugur Þór Þórðarson fengist til að leiða listann og freista þess að lyfta fylgi flokksins frá því sem nú er. Flokkurinn fékk einungis 24 prósent í síðustu borgarstjórnarkosningum og tapaði tveimur borgarfulltrúum undir forystu Hildar Björnsdóttur. Skoðanakannanir hafa mælt flokknum meira fylgi að undanförnu sem er eðlilegt í ljósi þess að Einar Þorsteinsson sprengdi fyrri meirihluta, plottaði yfir sig og lenti úti í horni með sig og flokk sinn.

Orðið á götunni er að ein meginástæða þess að áform Einars um að mynda nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokki og einum öðrum rann út í sandinn sé sú að þegar til átti að taka reyndist Sjálfstæðisflokkurinn óstjórntækur og þríklofinn. Hildur Björnsdóttir mun einungis njóta stuðnings Friðjóns Friðjónssonar af borgarfulltrúum flokksins en hinir skiptast í tvennt þannig að sex manna hópur aðalborgarfulltrúanna skiptist í þrennt og ekkert á hann að treysta sem heild.

Orðið á götunni er að Hildur Björnsdóttir oddviti flokksins í borgarstjórn hafi reynst illa á kjörtímabilinu en sé nú að reyna að rífa sig upp þegar einungis rúmt ár er til næstu kosninga. Hún er ekki að gera stóru málin að umtalsefni en vekur máls á meintu klúðri í smærri málum eins og varðandi farmiðakaup þar sem upphrópunum hennar er slegið upp í dag.

Skoðum betur: Hildur bendir á að frá árinu 2019, á síðustu sex, árum hafi borgin keypt farseðla fyrir 204 milljónir króna, að meðaltali fyrir 34 milljónir króna á ári. Gagnrýni Hildar felst í því að miklu meira er keypt af Icelandair en Play og hún telur þetta tilefni til sérstakrar athugunar. Hér er á ferðinni fremur smátt mál í hinu stóra samhengi. Borgin er stærsta fyrirtæki landsins með samtals 14 þúsund starfsmenn í þjónustu sinni. Ferðakostnaður er þannig ekkert sem skiptir miklu máli í hinu stóra samhengi. Verði ákveðið að fram fari sérstök athugun á þessu er mikilvægt að fram komi hvernig ferðum Hildar á vegum borgarinnar hefur verið háttað. Flaug hún með Icelandair eða Play? Orðið á götunni er að hennar vegna sé vonandi ekki hér á ferðinni enn eitt vindhöggið.

Hildur Björnsdóttir hefur áður reynt að vekja á sér athygli með ómerkilegum upphlaupum sem hafa lent beint í andliti hennar og Sjálfstæðisflokksins. Í því sambandi er skemmst að minnast þess þegar hún vændi fyrrum borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, um að hafa fengið óeðlilegt uppgjör ótekins orlofs þegar hann lét af starfi borgarstjóra. Vegna þessa var málinu slegið upp í Morgunblaðinu þar sem fyrrum borgarstjóri og núverandi ritstjóri blaðsins kallaði Dag „orlofssugu“ í leiðara.

Þegar borgin birti í framhaldinu nákvæmar upplýsingar um orlofsuppgjör fyrrum borgarstjóra síðasta aldarþriðjunginn og kom á daginn að borgarstjórar Sjálfstæðisflokksins höfðu fengið mun ríflegri uppgjör sinna orlofsmála en Dagur. Sjálfur Davíð Oddsson fékk meira, einnig Hanna Birna, en sem sá sem fékk hlutfallslega mest reyndist vera Markús Örn Antonsson sem gegndi stöðu borgarstjóra í rúmlega tvö og hálft ár en fékk uppgerða 90 orlofsdaga að leiðarlokum eða meira en 30 daga á ári! Hildur hafði greinilega ekki kynnt sér þessa staðreynd áður en hún ruddist fram á völlinn með tilhæfulausar ásakanir á hendur Degi. Vonandi fær hún ekki framan í sig vandræðalega niðurstöðu ef þetta „risastóra“ mál verður tekið saman og birt undir nöfnum borgarfulltrúa og annarra.

Orðið á götunni er að innan Sjálfstæðisflokksins gæti mikils óróa út af veikri frammistöðu núverandi borgarfulltrúa flokksins. Nú styttist í næstu kosningar og margir eru þeirrar skoðunar að skipta verði algerlega um frambjóðendur eigi staða flokksins í borgarstjórn að batna. Það hefur verið reynt áður, árið 2018, þegar Eyþór Arnalds leiddi listann til fylgis upp á rúm 30 prósent sem skilaði átta sætum.

Hildur var í þeim nýja hópi sem þá kom fram. Hún stóð hins vegar ekki með Eyþóri og taldi að hann yrði að víkja fyrir henni í kosningunum 2022. Eyþór valdi að sneiða hjá átökum og dró sig í hlé. Hildur leiddi listann og missti fylgi flokksins niður í 24 prósent og þá féllu tveir borgarfulltrúar. Það er nú allur árangur Hildar, auk þess sem henni hefur ekki tekist að ná neinu samkomulagi um aðkomu flokksins að völdum. Litið er á Sjálfstæðisflokkinn sem óstjórntækan.

Sú skoðun er útbreidd að Guðlaugur Þór Þórðarson sé eini maðurinn í Sjálfstæðisflokknum sem ætti möguleika á að auka fylgi flokksins að ráði í kosningunum vorið 2026. Undir hans forystu ætti flokkurinn að fara yfir 30 prósent eins og þegar Eyþór Arnalds leiddi fyrir sjö árum. Orðið á götunni er að til þess að slíkur árangur næðist þyrfti að stilla algerlega upp nýju og sigurstranglegu liði. Þeir sem eru mótfallnir þessu benda á að Sjálfstæðisflokkurinn fékk einungis rúmlega 17 prósent í báðum kjördæmum Reykjavíkur í kosningunum 30. nóvember 2024. Guðlaugur Þór leiddi annan listann og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hinn, bæði fyrrverandi ráðherrar. Guðlaugur Þór hefur hins vega ekki gefið neitt út um vilja sinn eða áform hvað þetta varðar.

Þó að alveg ný uppstilling hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni sé sennilega vænlegasta leið flokksins þá er alls ekki ljóst að það náist um það samstaða. Orðið á götunni er að núverandi borgarfulltrúar hugsi mjög um sig og sinn hag en síður flokkinn. Hér er um að ræða stórt tekjudæmi. Illu heilli er búið að gera borgarfulltrúahlutverk að fullu starfi, bæði þeirra sem eru í meirihluta og hinna sem sitja í valdalausum minnihluta.

Hildur Björnsdóttir og félagar hennar í valdalausum hópi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eru með 1,5 milljón króna og upp í 2 milljónir í tekjur á mánuði fyrir að sitja í nöldrandi minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Orðið á götunni er að þau muni berjast með kjafti og klóm fyrir því að halda þeim tekjum sem ekki verða auðveldlega sóttar annað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hanna Katrín: Veiðigjöld eiga ekki að byggja á innanhússverði hjá fiskvinnslu og veiðum sem eru undir sama hatti

Hanna Katrín: Veiðigjöld eiga ekki að byggja á innanhússverði hjá fiskvinnslu og veiðum sem eru undir sama hatti
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Kynslóðir í kreppu

Steinunn Ólína skrifar: Kynslóðir í kreppu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hleypur í skarð Pírata

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hleypur í skarð Pírata