fbpx
Miðvikudagur 23.apríl 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Örvænting grípur um sig meðal uppgjafaráðherra

Eyjan
Miðvikudaginn 23. apríl 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að örvænting hafi gripið um sig meðal fyrrverandi ráðherra og annarra fyrrum fyrirmenna sem fram til þessa hafa getað horft fram á áhyggjulaust ævikvöld með ríkulegum eftirlaunaréttindum á kostnað skattgreiðenda.

Sem kunnugt er safna embættismenn og stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem komast í hina eftirsóknarverðu ráðherrastóla, eftirlaunarétti sem tekur réttindasöfnun á almennum vinnumarkaði langt fram. Orðið á götunni er að ofan á þetta bætist að hingað til hafa flokksgæðingarnir sem vermt hafa ráðherrastóla um skemmri eða lengri tíma getað gengið að því vísu að smyrja ofan á eftirlaunaréttinn með ríkulegum stjórnarlaunum í stjórnum ríkisfyrirtækja og stofnana, eftir að hinum eiginlega stjórnmálaferli lýkur.

En nú heyra þessir gósentímar fortíðinni til. Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, hefur sett á skýru reglu að nú og framvegis verði einungis hæfasta fólkið valið til stjórnarsetu á vegum ríkisins. Sérstakir flokksgæðingar og fyrrum valdamenn stjórnmálaflokkanna raði sér ekki framar þar á garðann.

Orðið á götunni er að meðal almennings sé þessari ráðstöfun jafn vel tekið og henni er illa tekið af þeim sem fram til þessa hafa litið á sig sem erfðaaðal hér í landi.

Orðið á götunni er að ekki þurfi að leita langt til að finna uppgjafastjórnmálamenn sem þegið hafa feita bitlinga að undanförnu. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur á skömmum tíma verið skipuð formaður stjórnar Listahátíðar í Reykjavík og í háskólaráð Háskóla Íslands. Auk þess tók hún í ársbyrjun við stjórnarformennsku Fasteigna HÍ.

Orðið á götunni er að væntanlega hafi verið talið heppilegt að glæpabókafræðingur sæi um fasteignir Háskólans. Ætli sá bakgrunnur yrði talinn heppilegur t.d. í stjórn Isavia eða Landsvirkjunar, nú þegar aðeins hæfasta fólkið verður valið?

Fleiri uppgjafavaldamenn má nefna til sögunnar. Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Sjóði 9 hjá Íslandsbanka, hefur verið stjórnarformaður Orkubús Vestfjarða ohf. Þá gegndi hann stjórnarformennsku í Byggðastofnun 2017-2019.

Þá má tína til annan fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Kristján Þór Júlíusson, sem gegndi nokkrum ráðherraembættum fyrir flokkinn, var stjórnarformaður Isavia 2021-2025.

Orðið á götunni er að fjármálaráðherra verðskuldi heiður fyrir að hafa tekið fyrir þá spillingu sem viðgengist hefur svo lengi sem elstu menn muna, að uppgjafaráðherrar geti gengið að því vísu að vera á framfæri skattgreiðenda frá þeim tíma sem þeir hætta sem ráðherrar og þar til ríkuleg eftirlaunin hrökkva í gang.

Orðið á götunni er að á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að Daði Már tók við embætti fjármálaráðherra, einmitt valinn vegna þess að hann er með menntun og bakgrunn til að gegna því embætti af fagmennsku, hafi hann getið sér orð sem einhver hæfasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar, ef ekki sá allra hæfasti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar og segir: Leiðarvísir fyrir þjáða

Steinunn Ólína skrifar og segir: Leiðarvísir fyrir þjáða
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Hanna Katrín: Lélegir innviðir Þrándur í Götu ferðaþjónustunnar

Hanna Katrín: Lélegir innviðir Þrándur í Götu ferðaþjónustunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðmundur Ingi Kristinsson: Eitt barn á bið er einu barni of mikið – getur snúist upp í fjölskylduharmleik

Guðmundur Ingi Kristinsson: Eitt barn á bið er einu barni of mikið – getur snúist upp í fjölskylduharmleik
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er þríklofinn og engin samstaða

Orðið á götunni: Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er þríklofinn og engin samstaða