Svarthöfði hefur, líkt og aðrir landsmenn, tekið eftir tugmilljóna væluherferð sægreifanna í landinu vegna þess að loksins er sest að völdum ríkisstjórn sem ætlar að stíga skref í þá átt að því að „veiðigjöldin“ sem þeir greiða fyrir kvótann sem þeir hafa þegið að láni verði miðuð við raunverulegt verðmæti aflans sem þeir landa í eigin fiskvinnslur en miðist ekki við tilbúið undirverð sem er búið til í innanhússviðskiptum með fiskinn frá veiðum til vinnslu.
Vart er hægt að opna fyrir sjónvarpið þessa dagana án þess að fá framan í sig glaðhlakkalegar og hortugar auglýsingar með þeirri fantasíu að gjafakvótinn sé undirstaða alls mannlífs hringinn í kringum landið og ef gjafakvótaþegarnir séu skikkaðir til að greiða eðlilega leigu fyrir afnotin muni landið leggjast í auðn.
Satt best að segja er Svarthöfði búinn að fá sig fullsaddan af þessu væli. Raunar bendir margt til þess að væluauglýsingar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafi snúist upp í andhverfu sína. Ástæðan er einföld. Auglýsingarnar eru einhver mesti þvættingur sem reynt hefur verið að bera á borð fyrir okkur Íslendinga. Fólk sér í gegnum þetta.
Hún Guðríður hennar Eddu Björgvins gekk sennilega af væluherferðinni dauðri er hún gat ekki á sér heilli tekið yfir því að veslings útgerðarmennirnir myndu núna „lepja dauðann úr skeið.“
Edda hefur hingað til ekki verið pólitískur aktívisti en hún sér mótsögnina í áróðri sægreifanna. Annar þjóðþekktur maður, Pálmi Gestsson, Bolvíkingur með meiru, hefur heldur ekki gert sig mikið gildandi í pólitískum átökum. Hann birti hreint snilldarlegt innslag á Facebook þar sem hann sýnir okkur bæinn sinn, Bolungarvík. Hann sýnir okkur sundlaugina, skólann, félagsheimilið og húsið sitt. Svo bendir hann á sjóinn, Ísafjarðardjúp, en út af því eru einhver fengsælustu fiskimið allra tíma. „Þar syndir fiskurinn ÞEIRRA,“ segir Pálmi með þunga. „Við LIFÐUM öll af sjávarútvegi.“
Já, við lifðum öll á sjávarútvegi. Það er rétt að hafa þetta í þátíð. Þau eru ófá sjávarplássin hringinn í kringum landið sem mega muna fífil sinn fegurri vegna þess að kvótinn var seldur til sægreifa sem seldu togarann og lokuðu fiskvinnslunni. Það voru ekki veiðigjöld sem ollu plágunni heldur hörð arðsemiskrafa sægreifanna, gjafakvótaþeganna.
Og Svarthöfði veit að arðsemin í sjávarútvegi er góð. Hagnaðarhlutfallið er nær þrefalt á við aðrar atvinnugreinar. Ástæðan fyrir því er að umframgróðinn, auðlindarentan, lendir í vasa sægreifanna en ekki þjóðarinnar – og alls ekki rennur hún til fólksins sem eitt sinn starfaði fiskvinnslunni í sjávarplássinu en reynir nú eftir megni að koma á fót menningarviðburðum til að trekkja að ferðamenn því engin er fiskvinnslan lengur.
Já, Svarthöfði hefur fengið sig fullsaddan af væli sægreifanna. Í hugann kemur lagið sem Björgvin Halldórsson gerði ódauðlegt. Með sanni má segja að farartæki gjafakvótaþeganna hingað til hafi verið sannkallaður gullvagn. Nú eru þeir hins vegar farnir að kalla eftir vælubílnum. Jónas Friðrik gerði textann en með smávægilegri breytingu passar textinn fyllilega við vælukór útgerðarinnar þessa dagana:
Ég bið þig, sendu nú bílinn þinn að sækja mig.
Já, herra, sendu nú vælubíl að sækja mig.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Já langt hef ég farið og mig langar heim.Sendu nú bílinn þinn að sækja mig.
Já, herra, sendu nú vælubíl að sækja mig.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Já langt hef ég farið og mig langar heim.já já já já ESSS EFFF ESSS ooooooo
Lengi hef ég reikað þennan refilstig.
Rökkvar senn og þreytan er að buga mig.
Hvar fæ ég að halla mínu höfði nú
Herra, enginn getur bjargað nema þú.Ég bið þig, sendu nú bílinn þinn að sækja mig.
Já, herra, sendu nú vælubíl að sækja mig.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Já langt hef ég farið og mig langar heim.já já já já ELLL ÍÍÍÍ ÚÚÚÚ ooooooo
Líður þessi dagur senn og dimma fer
Djúpir eru skuggarnir sem þrengja að mér
Hvar fæ ég að halla mínu höfði nú
Herra, enginn getur bjargað nema þúÉg bið þig, sendu nú bílinn þinn að sækja mig.
Já, herra, sendu nú vælubíl að sækja mig.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Já langt hef ég farið og mig langar heim.Hvar fæ ég að halla mínu höfði nú.
Herra, enginn getur bjargað nema þú.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Langt hef ég farið og mig langar heim.Sendu nú bílinn þinn að sækja mig.
Já, herra, sendu nú vælubíl að sækja mig.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Langt hef ég farið og mig langar heim.
Þrautagangan er sögð löng og sægreifarnir að niðurlotum komnir. Áþjánin ólýsanleg. Svarthöfði leggur til að þeir hætti bara þessu basli, skili inn veiðileyfunum og snúi sér að heildsölunni eða stórmarkaðnum, tryggingafélaginu eða fasteignafélaginu sem þeir hafa nurlað saman fyrir með áralangri ráðdeild í djúpum táradal útgerðar um langt árabil. Varla ætla þeir að lepja dauðann úr skeið um alla framtíð. Einhverjir aðrir geta tekið keflið og hagrætt í sjávarútveginum. Það er ekki sanngjarnt að leggja alla þessa eymd á herðar örfáum mönnum.