fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma

Eyjan
Laugardaginn 19. apríl 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú gerræðislega ofstækisalda sem ríður yfir Bandaríkin vekur upp þá áleitnu spurningu hvort mélbrotinni vöggu lýðræðisins, sem þar blasir nú við, verði klambrað saman á nýjaleik.

Eftir hundrað daga valdatíð Donalds Trump er það allsendis óvíst. Og ef fram heldur sem horfir, og einbeittir einræðistilburðir þessa fasíska forseta verða ekki stöðvaðir, svo sem af hernum, eins og farið er að ýja að í umræðunni vestra, svo galið sem ástandið er orðið, gæti allt verið um seinan í enda kjörtímabilsins, eftir meira en tífalt lengri stjórnartíð en komið er.

Allar viðvörunarbjöllur glymja svo til óbærilega hátt.

Bandaríski rithöfundurinn og samfélagsrýnirinn Philip Roth orðar þetta með skýrum hætti í nýlegum skrifum sínum, en hann heldur því fram að ef ekki verði búið að stöðva Trump fyrir sumarið, heyri lýðræðið í Bandaríkjunum sögunni til. Og hann vill jafnvel meina að þá verði engar kosningar í landinu haustið 2028. Trump verði búinn að koma öllu sínu fólki fyrir í lykilstöðum – og þá verði allar lýðræðisbjargir um seinan. Áætlun hans um að koma á einræði sé alveg skýr.

Útlitið hefur ekki verið svartara í Vesturheimi frá því borgarastríðið geisaði þar á árunum 1861 til 1865 þegar einkum var tekist á um rétt manna til frelsis – og hvort þrælahald ætti að þrífast áfram í landinu. Þá var slegist um gildi og mannúð. Margir fréttaskýrendur, bæði vestan hafs og austan, velta því nú einmitt fyrir sér hvort annað eins skelli á í Bandaríkjunum, og þar verði barist um viðgang frjálslyndra viðmiða og mannréttinda – eða hvort afnám lýðréttinda og frelsi einstaklingsins verði slegið í gadda með því stæka afturhaldi sem blasir við í Washington.

Á aðeins hundrað daga valdatíma Trumps blasir við skoðanakúgun, ofríki, valdníðsla og uppbrot hins þrískipta stjórnkerfis. Yfirgangurinn beinist einkum og sér í lagi að því að því að veikja frjálsa umræðu innan allra meginstofnana landsins og gera stjórnendum þeirra ljóst að löngu fenginn réttur fólks til að haga lífi sínu eftir eigin höfði, er á enda runninn. Akademískt frelsi er að baki. Tjáningarfrelsi sömuleiðis. Vegið er að samfélagi fjölmiðla og háskóla sem aldrei fyrr. Þeim síðarnefndu er hótað öllu því versta ef þeir láti ekki af lýðréttindum og tryggi að allir kennarar og nemendur fari að nýjum og þrengri gildum.

„ … ef ekki verði búið að stöðva Trump fyrir sumarið, heyri lýðræðið í Bandaríkjunum sögunni til.“

„Vestrið eins og við þekkjum það er ekki lengur til,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í viðtali við þýska dagblaðið Zeit fyrr í vikunni. Og varla verða tímahvörfin betur kjörnuð. Því tollastríðið er eitt. Tortíming vestrænnar hugsunar er annað.

Það er svo auðvitað eftir öðru að hömlulaus tilætlunarsemi Trump nær nú langt út fyrir landsteina. Ekki einasta er farið léttvægum orðum um innlimun nágrannaríkja, með hervaldi ef þurfa þykir, heldur er ambassadorum Bandaríkjanna um allan heim gert að setja hömlur á frelsi þeirra sem skipta við sendiráð landsins. Starfsmenn þjónustufyrirtækja um allar álfur skulu hér eftir fara í einu og öllu að tilmælum Trumps, ella verði þau af viðskiptum sínum við útsendara hans. Ekki megi lengur starfa í anda fjölbreytileika og jafnræðis, vilji menn vera í liði með nýjasta einræðisherra hins vestræna heims. Borgaraleg réttindi af gamla skólanum eigi ekki lengur við – og það um allar jarðir.

Mikilvægt var að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, brást hratt og rétt við þessum vendingum í valdboði Trumps. Bandarísk lög næðu ekki til Íslands. „Og það er alveg skýrt að það verður ekki bakslag í réttindamálum kvenna og hinsegin fólks á okkar vakt,“ bætti hún við.

En þótt Íslendingar geti áfram um frjálst höfuð strokið, er amerískur veruleiki orðinn allt annar. Einræði er þar líklegra en lýðræði. Og allt tal um annað verður brotið á bak aftur eins og dæmin sýna – og munu sanna á komandi mánuðum og misserum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fru Tomas

Óttar Guðmundsson skrifar: Fru Tomas
EyjanFastir pennar
19.03.2025

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
19.03.2025

Ari Sæmundsen skrifar: Rík þjóð

Ari Sæmundsen skrifar: Rík þjóð