Veiðigjaldafrumvarpið er til að leiðrétta það verð sem lagt er til grundvallar við útreikning veiðigjalda. Í dag er það verð allt of lágt vegna þess að það er miðað við innanhússverð í sölu frá veiðum til vinnslu innan fyrirtækja sem eiga bæði veiðarnar og vinnsluna. Þetta verð endurspeglar ekki raunverulegt verðmæti aflans sem kemur upp úr sjó. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Hægt er að hlusta á brot úr þættinum hér:
Eyjan - Hanna Katrín Friðriksson - 3
„Þetta skiptir máli og þá komum við kannski inn á þessar hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur kynnt og það er að fara, í tengslum við þessa auðlindastefnu og auðlindagjöld, að taka náttúruauðlindagjald fyrir áfangastaði í ríkiseigu og það liggur alveg ljóst fyrir að hluti af því fjármagni verður varið í það að gera svona markaðssetningu viðvarandi og fara í rannsóknir og greiningu þannig að við vitum hvaða áhrif mismunandi sviðsmyndir geta haft á þróunina hér. Það er ekkert vit í að byggja þessa atvinnugrein upp á annan hátt og ég er ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem hefur verið unnin, það er ekki að ástæðulausu að þessi atvinnugrein hefur vaxið eins og hún hefur gert síðustu 15 ár, en við þurfum að gæta þess að missa ekki dampinn,“ segir Hanna Katrín.
Yfir að hinni stóru atvinnugreininni sem heyrir undir þig. Sjávarútvegurinn og allt í kringum hann er dálítið mikið hitamál þessa dagana. Ég er auðvitað að tala um frumvarpið um leiðréttinguna á veiðigjöldunum. Ef maður hlustar á gamla LÍÚ, eða SFS eins og það heitir í dag, mætti ætla að þið væruð í raun og veru nánast að teppaleggja landsbyggðina með sprengjuárás. Er það svo?
„Nei, við erum auðvitað ekki að því og það er þannig – ég veit að þetta fer í taugarnar á einhverjum, og þá þeim sem harðast hafa mótmælt þessum ætlunum okkar – en við erum að leiðrétta veiðigjöldin. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að í lögum um veiðigjöld er ákveðin formúla; það er ákveðinn hagnaður sem myndast, ákveðin gjöld sem dragast frá, og í því átti að taka 1/3 til þjóðarinnar og 2/3 til útgerðanna. Sem sagt, þessi auðlindarenta, sem er umframhagnaður sem myndast við notkun á náttúruauðlind, átti að skiptast á þennan hátt. Einn þriðji til þjóðarinnar og tveir þriðju til útgerðarinnar.“
Hanna Katrín segir eitt verst geymda leyndarmálið í greininni vera það að tekjurnar hafi ekki verið myndaðar á þann hátt sem endurspeglar raunverulegt verðmæti aflans. Þetta stafi m.a. af því þegar fyrirtæki sem ræður yfir bæði veiðum og vinnslu selur fiskinn í innbyrðis sölu innan fyrirtækisins.
Þetta er allt annað verð en myndast á markaði.
„Já, og þegar við erum að leiðrétta það með þeim leiðum sem við höfum tiltækar er verið að tala um að við séum að koma vinnslunni í uppnám, sem er algerlega ótengt vegna þess að við erum ekki að gera athugasemdir við það að fyrirtækin sem eru með þessa lóðrétt samþættu starfsemi, sem vel að merkja er einn af grunnunum fyrir því að hér hefur byggst upp þessi öfluga atvinnugrein, við erum að gera þá réttmætu athugasemd að segja: Þetta er ekki verðið sem á að leggja til grundvallar við gjaldið sem þjóðin á að fá.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.