fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Raunheimar forstjóra og ráðherra

Eyjan
Fimmtudaginn 17. apríl 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við sem störfum í raunheimum viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að stuðla að samkeppnishæfni einnar mikilvægustu atvinnugreinar landsins.

Þau sem virðast ekki vera í raunheimum eru að velta fyrir sér frekari skattlagningu og gjaldtöku á greinina.“

Þetta er tilvitnun í Morgunblaðsgrein eftir Boga Nils Bogason forstjóra Icelandair fyrir réttri viku.

Tilefnið er sú ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands, sem flestar eru í eigu þjóðarinnar.

Launahækkanir

Forstjórinn segir að kostnaðarhækkanir hafi verið miklar og íþyngjandi á undanförnum árum. Í því sambandi tilgreinir hann launahækkanir, sem hafi verið langt umfram það sem sést hafi í samkeppnislöndunum.

Þetta er kórrétt. Allar þessar ofur launahækkanir voru þó samþykktar af SA. Þar innandyra er Icelandair ekki áhrifaminnsta fyrirtækið.

En í grein forstjórans kemur ekki skýrt fram hvort stjórnendur SA hafi verið innan eða utan raunheima þegar samið var.

Þessar launahækkanir þóttu þó ekki næg kjarabót. Að auki kröfðust samningsaðilar þess að ríkissjóður lækkaði skatta og yki útgjöld.

Eftirspurn

Flestir viðurkenni að aukin framleiðni á mann sé sá þjóðhagslegi rammi, sem raunhæfar launahækkanir rúmast innan.

Stundum er málið þó flóknara. Mikil eftirspurn eftir vinnuafli getur samkvæmt lögmáli hagfræðinnar þrýst einstökum fyrirtækjum og heilu atvinnugreinunum út úr þessum ramma.

Viðskiptablaðið greinir til að mynda frá því 10. febrúar 2022 að stjórn Icelandair haf glímt við eftirspurnarvanda af þessu tagi. Þar segir: „Á fundinum mun hafa komið fram ótti við að erlend flugfélög myndu krækja í Boga Nils. Því væri brýnt að bæta launakjör hans og annarra lykilstjórnenda.“

Ritstjórn Viðskiptablaðsins virðist hafa litið svo á að stjórnin hafi verið í raunheimum þegar þessi ákvörðun var tekin. Engin ástæða er til að efast um það.

Þrefaldur vaxtakostnaður

Athyglisvert er að forstjórinn nefnir ekki þrefalt hærri vexti en þekkjast í samkeppnislöndunum þegar hann ræðir sér íslenskan kostnað.

Þegar þingmenn og ráðherrar ræða við kjósendur eru þeir aftur á móti staddir í heimi þar sem þrefalt hærri vextir miðað við samkeppnislöndin eru helsta áhyggjuefni fólksins í landinu og fyrirtækja á innlendum samkeppnismarkaði.

Forstjóri Icelandair er allsendis ókunnugur þessum veruleika. Hann tekur lán í samkeppnishæfum gjaldmiðlum.

Samtökin sem fyrirtæki hans eiga aðild að standa svo gegn því að fólkið í landinu fái að kynnast þeim raunheimum. Það á einfaldlega að standa utan við raunheima án þess að það hafi hliðarverkanir í þjóðarbúskapnum.

Greyið ríkissjóður

En það eru fleiri sem standa utan við raunheima Icelandair.

Ríkissjóður Íslands þekkir heldur ekki samkeppnishæfa vexti. Þrátt fyrir lægri skuldir en í samkeppnislöndunum er fjármagnskostnaður hans þrefalt hærri.

Icelandair beitir líka félagslegum áhrifum sínum til að koma í veg fyrir að sameiginlegur sjóður landsmanna fái að starfa í sömu raunheimum og fyrirtækið. Sá veruleiki þrengir óhjákvæmilega að innviðakerfinu og velferðarkerfinu.

Hitt gæti forstjórinn gert: Það er að styðja með ráðum og dáð þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leyfa kjósendum að ákveða hvort þeir eigi áfram að standa utan við raunheima Icelandair þegar kemur að vöxtum. En það bara gerir hann ekki.

Hugmyndafræðileg stefnubreyting

Fyrrverandi ríkisstjórn hrósaði sér mjög af því að hafa lækkað skatta og aukið útgjöld. Afleiðingin var viðvarandi hallarekstur og aukinn þensla. Það bjó til eftirspurnarþrýsting. Þannig þrýstust laun út fyrir rammann og vextir hækkuðu meir en ella hefði þurft.

Núverandi ríkisstjórn hefur kynnt fjármálastefnu og fjármálaáætlun með það að markmiði að snúa þessu blaði við. Einn þáttur í þessari stefnubreytingu er að láta notendur þjónustu, sem atvinnufyrirtæki veita, borga fyrir nauðsynlega fjárfestingu og markaðskynningar í stað þess að auka skuldir eða skerða innviðakerfin og velferðarkerfin.

Einu sinni var það kallað sósíalismi þegar ríkið greiddi með almennum skattpeningum fjárfestingar, sem í markaðsbúskap þykir yfirleitt rétt að hvíli á fyrirtækjunum sjálfum eða viðskiptavinum þeirra.

Þegar nýir ráðherrar sýnast trúa meir á hugmyndafræði markaðslausna þykir forstjóra Icelandair sem þeir lifi ekki í raunheimum!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Framtíðin er björt hjá okkur, ef . . .

Thomas Möller skrifar: Framtíðin er björt hjá okkur, ef . . .
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Þjóðarátak í ofbeldi

Steinunn Ólína skrifar: Þjóðarátak í ofbeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Barnaskapur á Alþingi

Svarthöfði skrifar: Barnaskapur á Alþingi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík

Svarthöfði skrifar: Flokksgæðingar fallinna flokka maka krókinn á Grindavík
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ísland, NATO og varnarsamningurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?
EyjanFastir pennar
15.03.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Nú drepa þeir tvo fyrir einn

Sigmundur Ernir skrifar: Nú drepa þeir tvo fyrir einn
EyjanFastir pennar
15.03.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur

Óttar Guðmundsson skrifar: Herra langveikur