Það er erfitt að meta áhrifin af tollum Trumps á íslenskan ferðamannaiðnað. Rannsóknir sýna að breyting á tekjum Bandaríkjamanna hefur minni áhrif á ferðalög þeirra til Evrópu en annarra heimsálfa, auk þess sem Ísland er svona „bucket list“ áfangastaður. Þó gætu tollarnir orðið til þess að bandarískir ferðamenn eyði minni fjármunum hér á landi en áður. Lilja Solveig Kro, hagfræðingur hjá Arion banka, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Markadurinn - Lilja Solveig Kro - 3
„Núna vitum við hver er stefna Bandaríkjanna en svo hefur það heilmikil áhrif á heimshagkerfið hvað aðrar þjóðir gera. Vonandi bregðast þær ekki hart við þannig að við förum að sjá alþjóðlegt tollastríð með minni viðskiptum og minni hagvexti. Svo er auðvitað enn sá möguleiki að samið verði um að aflétta einhverjum af þessum tollum. Við vitum ekki enn þá hver niðurstaðan verður í þessu,“ segir Lilja Solveig.
Það er nú margt sem bendir til þess að Kínverjar muni svara í sömu mynt og Evrópusambandið mun svara í sömu mynt. Svo hefur verið bent á það að þau ríki sem eru að fara verst út úr þessu og fá mestu tollana á sig, þetta eru fátæk ríki, Bangladess og slík, sem hafa verið að framleiða mikið af ódýrri vöru sem er flutt til Bandaríkjanna. Maður sér ekki alveg hvernig þessi ríki eiga að lifa þetta af.
„Þetta mun lenda mjög mismunandi á þjóðum. Margar af þessum þjóðum eru með ákveðna verndartolla á sinn innflutning þannig að mögulega verður eitthvað meira alþjóðlegt samtal um það hvernig alþjóðleg viðskipti eiga að fara fram, en það er alveg ljóst að þetta mun hafa mismunandi áhrif á þjóðir heims. Við sjáum bara t.d. áhrifin hér á Íslandi. Það er enn þá erfitt að segja til um þau …“
Hlutabréfamarkaðurinn er að bregðast mjög neikvætt við þessu.
„Já, hann á það nú til að fylgja dálítið neikvæðum fréttum erlendis.“
Ég man þegar ég var að vinna hjá Lehman Brothers þá hitti ég reynslubolta í New York sem sagði við mig: Óli, þú verður að átta þig á því að markaðurinn, hann er ofboðslega heimskur, en hann hefur aldrei rangt fyrir sér.
„Einmitt. Ég held samt, hvað varðar Ísland og stöðuna á Íslandi, jú, við getum kannski prísað okkur sæl með að við erum þarna í neðri mörkunum á þessum tollum. Útflutningur til Bandaríkjanna vegur um fimmtung af útflutningi Íslands og þar af vegur ferðaþjónustan þyngst og blessunarlega er ekki hægt að leggja tolla á ferðaþjónustuna.“
En er ekki verið að leggja óbeinan toll á ferðaþjónustuna vegna þess að tollarnir í Bandaríkjunum munu skerða ráðstöfunartekjur Bandaríkjamanna og væntanlega draga úr ferðagleði?
„Það er einmitt málið. Þó að við sleppum við þessi beinu áhrif þá eru það þessi óbeinu áhrif; minni hagvöxtur í heiminum mun þýða minni tekjur í heiminum og minni tekjur heimilanna til að ferðast eða gera eitthvað annað. Það er auðvitað erfitt að meta hver áhrifin af því eru en erlendar rannsóknir sýna með ferðalög Bandaríkjanna – en Bandaríkjamenn eru stærsti ferðamannahópurinn til Íslands …“
Er það ekki nálægt fjórðungur?
„Þetta er þriðjungur af okkar ferðamönnum þannig að það mun klárlega hafa áhrif en erlendar rannsóknir sýna að tekjuteygni, þ.e. hversu mikil eftirspurn eftir ferðalögum til ákveðins lands breytist þegar tekjurnar breytast, að hún er lítil hvað varðar ferðalög til Evrópu. Þó að tekjur Bandaríkjamanna muni minnka þá mun það ekki hafa jafnmikil áhrif til Evrópu eins og til annarra heimsálfa.“
Lilja Solveig bætir því við að þessu til viðbótar sé Ísland á vissan hátt „bucket list“ ferðamannastaður. „Ef þú ætlar einhvern tímann að fara til Íslands á ævinni þá ferðu. Það er mjög erfitt að meta hver áhrifin verða en við gerum ekki ráð fyrir því endilega að þetta hafi mikil áhrif á fjölda ferðamanna en þetta gæti mögulega komið fram í minni tekjum greinarinnar með því að hver ferðamaður eyði minna á landinu.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.